22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

9. mál, flugmálasjóður Íslands

Jóhann Jósefsson:

Fyrirvari minn lýtur að því, að ég tel yfirleitt ekki rétt að leggja skatt á bræðslusíld til þess að halda uppi þessum svokallaða flugmálasjóði. Það er vitanlegt, að þeirrar vitneskju, sem flugvél kann að afla um síldargöngur, nýtur ekki til fulls nema nokkur hluti fiskiflotans, og þá einkum þau skip, sem beztum tækjum eru búin til að taka á móti loftskeytum — togararnir.

Þessi skattálagning kemur því ekki rétt niður. Hún snertir fleiri en þá, sem hagnað hafa af þessari síldarleit — ef um hagnað er að ræða —, og mér þykir auk þess óviðkunnanlegt, að þessum framförum skuli vera komið á með því að leggja beinan skatt á sjávarútveginn. Af þessum ástæðum gat ég ekki skrifað undir nál. nema með fyrirvara.

Ég vil að lokum benda á það, að fyrir þinginu liggur nú annað frv., sem á að stuðla að eflingu fiskiveiðanna, Því frv. fylgir hinn sami böggull sem þessu, að um leið á að leggja beinan skatt á framleiðsluna. Ég kann illa við þá aðferð, sem lýsir sér í þessu. Mér virðist, sem það eigi að fara að verða regla, að um leið og eitthvað sé gert sjávarútveginum til framfara, eigi að pressa meira fé út úr honum, en það fordæmi gæti á sínum tíma orðið ásteytingarsteinn fyrir aðrar atvinnugreinar.