23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í C-deild Alþingistíðinda. (813)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Magnús Torfason:

Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að sjá framan í þetta frv., þó að ég hinsvegar hefði nú hugsað mér, að lausnin á samgöngumáli Sunnlendinga yrði á annan veg en frv. leggur til. Þar sem ég á sæti í þeirri n., sem væntanlega fjallar um þetta mál, sé ég ekki ástæðu til að fara að fjölyrða um þetta mál að svo stöddu. Ég vil þó leyfa mér að benda á það, að sá vegur, sem frv. gerir ráð fyrir, að verði lagður, er 111/2 km. lengri en sá vegur, sem nú er notazt við. Í sjálfu sér er þetta ágalli, en á móti því kemur, að með þessu móti verða vetrarsamgöngurnar allmjög öruggari en hingað til hefir verið. Hinsvegar stendur svo í 6. gr. frv., að núverandi vegur skuli leggjast niður á sínum tíma. Ég held, að þetta sé ekki rétt ráðið. Það stríðir á móti öllu því, sem nú gerist í samgöngumálum, ef þetta er gert, því að þess er nú allsstaðar krafizt, að leiðir séu styttar, en ekki lengdar. Vildi ég því óska þess, að þessu ákvæði frv. yrði vikið við.

Þá kem ég að þungamiðju þessa máls, sem er sú, að með frv. er vikið frá því að leggja járnbraut á þessari leið. Hæstv. forsrh. vildi slá því föstu, að fullsannað væri, að bílflutningur væri ódýrari en flutningur með járnbraut. Get ég ekki séð á grg. frv., að færðar séu sönnur á þetta. Þar er sagt frá því, hvað búizt var við, að flutningskostnaður með járnbraut yrði mikill á sínum tíma, en engu orði vikið að því, hvað kostnaðurinn yrði mikill nú. Ég hefi engar skýrslur seð um það, hversu miklu ódýrari í rekstri hinar nýju mótordráttarvélar eru heldur en gömlu gufuvélarnar, en þær er nú farið að nota meira og meira úti um heiminn, og reynslan hefir allsstaðar orðið sú, að þær eru ódýrari en gufuvélarnar.

Ég vildi beina, þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort þessi nýi vegur gæti orðið undirstaða undir járnbraut á sínum tíma, ef svo sýndist. Ég veit ekki, hvort þetta gæti farið saman, en held það þó, því að þessi vegur verður að vera þar. Það er svo til ætlazt, að þessi vegur fari niður af fjallinu hjá Lágaskarði, og get ég ímyndað mér, að hallinn þar sé of mikill fyrir járnbraut. En þessu mætti breyta, án mikils tilkostnaðar, því að ekki eru nema 12 km. frá Lágaskarði að þeim stað, sem ætlazt var til, að járnbrautin færi niður af fjallinu, undan Þóroddsstöðum í Ölfusi, og kæmi þá allt heim.