23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (822)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. hefir gert allt annað úr orðum mínum en ég sagði. Mér kom ekki til hugar að álasa vegamálastjóra. En það kemur greinilega fram í aths. frv. síðast, að vegamálastjóri er ekki hættur að hugsa um járnbraut, þó að hæstv. forsrh. sé hættur því. Hæstv. ráðh. segist búast við, að með þessu frv. sé þótt úr samgönguvandræðunum á ódýrasta og nokkurnveginn fullnægjandi hátt. Því hlýtur hann að vera búinn að skrínleggja járnbrautarhugmyndina. Enda er það ekki svo undarlegt, þar sem hann hefir ávallt verið á móti járnbraut, þó að hann hafi stundum talað öðruvísi. Ef lesið er álit vegamálastjóra, þá sest, að hann slær af járnbrautarkröfunum, vegna þess að ríkissjóður getur ekki lagt fram fé. Á bls. 5 segir svo: „En járnbrautin kostar fullar 6 millj. kr., sem greiðast yrðu úr ríkissjóði að fullu, þar sem nú er fyrirsjánlegt, að ekkert verður úr stórvirkjun vatnsorku sunnanlands á næstu árum. Jafnvel þó að hagur atvinnuveganna og ríkissjóðs stæði með meiri blóma en nú er, þá er þess þó engin von, að slík fúlga fengist til samgöngubóta hér sunnanlands. Virðist mér því sjálfsagt og rétt að slá af kröfunum og bæta úr brýnni þörf öruggari vetrarsamgangna með nýjum vegi frá Lækjarbotnum austur í Ölfus“. á þessu sést, að vegamálastjóri veit, að hann er að slá af fremstu kröfum. En hæstv. forsrh. álítur, að hann sé að koma á fót samgöngubótum, sem leysi þörfina til fulls og verði ódýrari fyrir fólkið. Þetta er tvískinnungur.