13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (835)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Frsm. (Magnús Torfason):

Ég vil ekki kalla þetta beint bráððabirgðarráðstöfun, því að vitanlega veit maður ekki, hvað framtíðin ber í skauti sér. Það fer eftir því, hve björtum augum menn líta á hag þessara héraða.

Fyrir mitt leyti er ég ekki í vafa um, að slík vegabót sem þessi flýtir fyrir því, að á sínum tíma verði krafizt fullkominna vegabóta. (MG: Svo?) Ég mundi líta mjög svörtum augum á framtíð héraðanna fyrir austan fjall, ef ekki væri hægt að koma mjólkurafurðunum til Rvíkur. Mjólkurafurðirnar, með markað í Rvík, eru lyftistöngin fyrir þau.

Eftir því, sem látið er af efnahag ríkissjóðs, spáir það ekki góðu um, að slíkt verði gert á skömmum tíma; en það er rétt að minna á orðtækið: Fyljan fellur, grasið grær. það er áreiðanlegt, að þeir, sem vilja fara varlega, sjá, að ekki má seinna vera að gera eitthvað, til þess að menn geti haldið búum sínum þarna eystra. Það er ekki vafi á því, að flóttinn til sjávarins er nógur samt.

Ég held, að ég sé þrautkunnugur maður eystra og hafi fullan skilning á, hvað héraðinu öllu til friðar heyrir. Þéttbýlasta plássið í Rangárvallasýslu er þegar komið í mjólkurbúið og Fljótshlíðingar verzluðu við það í fyrra, hvort sem áframhald verður á því eða ekki.