04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

1. mál, fjárlög 1932

Pétur Ottesen:

Ég á nokkrar brtt. ásamt öðrum hv. þdm. við fjárlagafrv., en ég mun ekki minnast á nema þrjár af þeim. 1. brtt. er á þskj. 194, II, um 500 kr. hækkun til flóabátaferða, sem eiga að ganga til Hvalfjarðarbátsins. Ég hefi stílað till. með till. hv. þm. Ak. og hv. þm. Dal. Hækkunin til fljótabátaferðanna er því alls 2500 kr.

Ástæðan til þess, að ég fer fram á þessa hækkun, er sú, að þeir, sem búa við Hvalfjörð, hafa þegar tekið upp flutninga á rjóma og mjólk með þessum báti til Reykjavíkur. En til þess að þetta geti að liði orðið, þarf ferðum bátsins að fjölga frá því, sem nú er. En óhugsandi er, að samkomulag komist á um það, nema styrkurinn verði hækkaður.

Ég sendi samgmn. erindi um þetta í vetur og endurnýjaði það nú með bréfi. N. tók líklega í þetta í getur, en í till. hennar nú er ekki sýndur litur á þessu. Og orsökin á breyt. hjá n. liggur í því, að því er mér er sagt, að í vor hefir verið ruddur vegur inn fyrir Hvalfjörð, svo að líkur eru til þess, að þar verði bílfært að sumarlagi þegar þurrviðri ganga. Á þessari leið eru 3 vatnsmiklar ár, sem strax og nokkuð rignir teppa umferðina. Eins og veginum er enn háttað inn fyrir Hvalfjörð, þrátt fyrir þessa aðgerð, þá kemur hann ekki að liði fyrir þá, sem við Hvalfjörð búa, til afurðaflutninga, svo neitt sé hægt á því að byggja. Eina úrlausnin fyrir þá í þessu efni er sú, að hægt sé að fjölga bátaferðunum, en til þess að það verði kleift, þarf styrkurinn að hækka. Mönnum er kunnugt, að það eru miklir örðugleikar á framleiðslu, og fara sveitirnar ekki varhluta af þeim örðugleikum. Það er þess vegna mjög mikils um vert, að greitt sé sem bezt fyrir því, að sá markaður, sem til er í landinu fyrir sveitaafurðir, sé sem bezt notaður. Ég vænti því þess, að hv. d. taki vel í till. og sjái nauðsynina á að greiða úr fyrir þeim, sem hlut eiga að máli. Við atkvgr. verða greidd atkv. um allar 3 till. í einu, og er þannig á hagkvæman hátt og fyrirhafnarlítinn hægt að afgera þetta mál.

2. brtt., á þskj. 194, VIII. sem ég flyt ásamt hv. þm. Mýr., fer fram á það, að Kvenfélagasamband Mýra- og Borgarfjarðarsýslu fái 300 kr. styrk. Um alllangt skeið hafa kvenfélagasamböndin notið nokkurs styrks í fjárlögum. 450 kr. hvert. En þar sem þau kvenfélagasambönd taka yfir stærra svæði en það, sem hér um ræðir, þá höfum við ekki farið fram á hærri upphæð. Þessi kvenfélagasambönd hafa að aðalverki að vinna að menntun og menningarmálum kvenfólksins í landinu og sjá um húsmæðrafræðslu og stuðla að auknum heimilisiðnaði. En þetta allt saman hefir mikla þýðingu fyrir þjóðina. Innan þessa sambands eru 4 eða 5 kvenfélög, og er meiningin að halda héraðssýningu á nokkurra ára bili. M. ö. o.: verkefnið er hið sama og hinna kvenfélagasambandanna, sem þegar hafa fengið viðurkenningu Alþ. Ég vænti þess, að hv. d. liti sömu augum á þetta nú og áður hefir verið gert.

3. brtt., sem ég flyt ásamt hv. þm. Mýr., er um það, að Mjólkurfélagið Mjöll fái eftirgjöf á 15000 kr. láni úr Viðlagasjóði, sem það fékk fyrir nokkrum árum. Það er leiðinlegt verk að þurfa að fara fram á slíka eftirgjöf. En það var svo, að starfsemi félagsins var aðallega sú, að sjóða niður mjólk í landinu, og tilgangurinn var sá, að láta landsmenn nota markaðinn, sem til var í landinu. Og hér var mikið verk að vinna. Það er árlega flutt inn niðursoðin mjólk fyrir fleiri hundruð þús. kr. Þetta eru miklir peningar, og hefði verið mikið til vinnandi, að það hefði tekizt að vinna markaðinn. En það var svo með þenna félagsskap, að það voru miklir byrjunarerfiðleikar, og þetta kom hart niður á félaginu. Það var líka erfitt að fá menn með fagkunnáttu, og það komu í ljós nokkrar skemmdir á vélunum, sem ætlaðar voru til verksins. Og niðurstaðan varð sú, að það var starfað um nokkurt árabil, án þess að tilganginum væri náð. En það voru færðar sönnur á það, að það er auðvelt að sjóða niður mjólk hér og hægt að fullnægja markaðinum, sem til er í landinu, og fengin allmikil reynsla í þessu efni. Auk þess hefir félagið haft niðursuðu á kjöti með höndum og gert verðmætar afurðir eins og rýra kjötið, sem annars eru næstum því verðlausar. En erfiðleikarnir, sem félagið lenti i, hafa leitt til þess, að það hefir orðið að gefast upp. En nú hefir samkomulag komizt á við kaupfélag Borgfirðinga um að það keypti hús og áhöld verksmiðjunnar fyrir 60 þús. kr. En þrátt fyrir þetta kaupverð, munu skuldirnar vera um 30 þús. kr., og er allt hlutaféð, sem var 60 þús. kr., tapað. Nú standa því sakir þannig, að þeir menn, sem að standa, eru með 30 þús. kr. skuldabagga á herðum sér. Helmingur þeirrar skuldar eru þessar 15000 kr., sem félagið fékk að láni. Og það er sú upphæð, sem ég og hv. þm. Mýr. berum á bænarörmum hér á þinginu, samkv. ósk og beiðni þeirra, sem að standa.

Viðlagasjóður er nú að vísu runninn inn í Búnaðarbanka Íslands, en ég ætla, að það sé fullkomlega formleg leið, sem við förum, að Alþingi taki ákvörðun um, hvort félaginu skuli gefin eftir þessi upphæð. Svo sem kunnugt er, er þetta háð vilja Alþingis, og ég efast ekki um, að bankastjórar Búnaðarbankans verði við þessu, ef Alþingi samþykkir það. Kaupfélag Borgfirðinga hefir keypt verksmiðjuna í þeim tilgangi að byggja upp mjólkurvinnslustöð og halda áfram tilraunum á mjólkurniðursuðu, og hefir það fengið mann, sem verið hefir í útlöndum að afla sér þekkingar, og er ekki örvænt um, að tilganginum verði náð, og að þessi hugsun, að sjóða niður mjólk í landinu sjálfu, komist í framkvæmd með þeirri framþróun, að við gætum sparað mörg hunduð þús. kr., sem við nú borgum út úr landinu. Og það er ekki hægt að segja annað en að allar þær tilraunir, sem gerðar eru til að gera ísl. framleiðsluvöru nothæfa og fá stærri markað, eru virðingarverðar, hverjir sem að þeim standa. Ég vænti þess, að hv. d. fallist á að taka þátt í óhöppum, sem þarna hafa orðið og samþ. heimildina, sem hér liggur fyrir. Það eru mörg fordæmi fyrir því, að slík lán hafa verið gefin eftir.

Ég ætla svo ekki að minnast á fleiri brtt., en enda með því að minnast á eina brtt. fjvn., sem hv. frsm. gerði að umtalsefni. Mér virtist það ekki koma fram hjá honum, sem fjvn. vildi einmitt, að kæmi fram. Till. fer í þá átt, að Fiskifélaginu verði veittar 5 þús. kr. til þess að standast kostnað af að birta veðurfregnir í verstöðvum landsins. Frsm. fjvn. gat þess, að landssíminn hefði haft með þetta að gera. Nú vill landssíminn losna við þetta og telur það fjárhagsvinning fyrir ríkið. Og meiningin er, að veðurfregnunum verði varpað út og Fiskifélagið taki það að sér. En það hefir ekki verið hægt að fá upplýsingar um, hvað kostnaður muni verða mikill. Hinsvegar var n. sammála um, að það væri rétt, að ríkið legði fram fé til þessa, því að það hefir mikla þýðingu fyrir atvinnuvegi landsins, að veðurfregnirnar berist sem viðast. En þessi upphæð styðst ekki við neitt, en er aðeins áætlunarupphæð og verður síðar ákveðin samkvæmt því, sem reynslan sýnir. Því má fyllilega treysta, að Fiskifélagið komist að sem beztum og hagkvæmustum kjörum og geri sitt til þess, að kostnaðurinn verði sem minnstur.