12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Jón Baldvinsson:

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. hefir svarað flestu því, sem hv. 1. landsk. hefir haldið fram gegn einkasölunni. Hann hefir að vísu ekki hnekkt því með tölum, sem felst í skýrslu hv. 1. landsk., sem birt er í nál. á þskj. 261, um minnkandi innflutning vegna tóbakseinkasölunnar. Þetta hefir verið mjög umdeilt mál á þingi, og verið færð rök með og móti, en hv. 1. landsk. hefir aldrei tekizt að hnekkja þeim rökum, sem gera það eðlilegt, að innflutningur á munaðarvörum minnki í erfiðum árum. Hv. 1. landsk. ætti að athuga ýmsar vörutegundir, og komast að raun um þetta. Ég hefi ekki hirt um að taka nema eina vörutegund, og hún sýnir, að innflutningur minnkar 1922–1924, en eykst 1925. Skýrslurnar sýna líka, að 1925 hefir verið meiri innflutningur af tóbaki en hin árin. Ég hefi tekið súkkulaði, sem er vörutegund, sem menn kaupa meira þegar vel árar. 1922 voru flutt inn 80 þús. kg fyrir 264 þús. kr. af suðusúkkulaði, en af átsúkkulaði 9 þús. kg. fyrir 68 þús. kr. 1923 lækkar innflutn. niður í 76 þús. kg. fyrir um 221 þús. kr., átsúkkulaði 4 þús. kg. fyrir 28 þús. kr. Árið 1924 55 þús. kg. á 158 þús. kr. og átsúkkulaði 3 þús. kg. fyrir 24 þús. kr., og árið 1925 131 þús. kg. fyrir 325 þús. kr. og átsúkkulaði hækkar upp í 17 þús. kg. fyrir 90 þús. kr. Allir, sem kunnugir eru, vita, hvernig árferði var árin 1922–1925. Þá var erfiðleikaástand, lækkandi verðlag á ísl. afurðum, allt þangað til á miðju ári 1924, og það voru meiri erfiðleikar eftir því sem á leið, og fyrri helmingur ársins 1924 einna verstur. En í júnímán. 1924 fer að birta til, og svo fer að rætast úr og fylgist að mikill afli og fljót og greið sala. Þá verður fyrri hluta ársins tilsvarandi samdráttur á innflutningi á ónauðsynlegum vörum og vant er að vera, þegar slæmt er árferði og menn hafa úr litlu að spila. Þarna er komin skýring á því, hvers vegna minnkandi innflutningur er þessi ár. Þó er það athugandi, að árin 1922–1925 er sívaxandi innflutningur á tóbaki eins og sést af skýrslu hv. 1. landsk., þrátt fyrir tóbakseinkasöluna, og hafa fleiri og fleiri orðið til að nota tóbakið, og ekki orðið samdráttur á því eins og þeirri vörutegund, sem ég gat um áðan. En þetta fylgir alveg árferði. Árið 1925 var mikil peningavelta og gott tekjuár fyrir ríkissjóðinn og þá hafði almenningur úr miklu að spila vegna góðærisins. Þetta er augljós skýring á mismunandi innflutningi á vörutegund, sem er ekki nauðsynleg, og tóbakið fellur undir þesskonar vörur. Þó er ekki eins mikill samdráttur á því árin, sem fara á eftir 1925, enda eru þau tiltölulega góð atvinnuár, og betri en árin 1922–1924, og það þýðir aftur, að almenningur hefir úr meiru að skila hefir því betri efni á að kaupa nautnavörur, og hefir útbreiðsla tóbaksnautnar verið samfara þessu. Mér finnst, að þessi skýring komi af sjálfu sér, að tekjurnar aukast með auknum innflutningi. Hv. l. landsk. hefir oft sagt, að tekjurnar muni minnka, ef einkasalan verður sett á stofn aftur. Ég skal ekki segja, hvort það yrði fyrsta árið, og á meðan miklar birgðir eru í landinu, að það tæki fyrir innflutning, en það yrði ekki nema stutt tímabil, og það mundi falla í sama horfið aftur. Þar sem hv. 1. landsk. er að harma, að tekjur ríkissjóðs minnki og innflutningur muni verða minni, verð ég að segja, að það munu vera margir, sem gjarnan vildu, að innflutningurinn á tóbaki minnkaði og þá auðvitað neyzlan líka. Ef innflutningur minnkaði, þá væri það af því að minnu væri eytt. Þegar hv. 1. landsk. er að tala um, að tollurinn hafi verið hækkaður, þegar einkasalan var afnumin, þá veit hv. þm., að það er ekki ætlazt til þess, að tollurinn lækki. Það er ekki farið fram á breyt. á því. Það helzt sami tollur eftir sem áður, og geta því sömu tekjur komið í ríkissjóð eins og áður, en það fer eftir árferði, hvort landsmenn nota mikið eða lítið af þessari vöru. Það þarf enginn að óttast, að einkasalan muni verða verri fyrir ríkissjóð, þó innflutningur minnkaði fyrst í stað. En það myndi verða, hvort sem einkasalan væri eða einstakir menn verzluðu með tóbakið, eins og ég hefi bent á um aðra vörutegund. En ég efast ekki um, að finna mætti fleiri vöruteg., sem eins er ástatt um. En það þarf ekki annað en benda á heildarinnflutninginn. Ég held, að rök hv. 1. landsk. fyrir minnkandi tekjum séu engan veginn á traustum grundvelli byggð, og þess vegna óhætt að samþ. tóbakseinkasöluna fyrir því.

Þá hefir hv. 1. landsk. flutt skringilega brtt. við frv. Hún er því skringilegri, þegar maður hefir heyrt rök hv. þm. fyrir till., að starfsmennirnir megi eigi hafa þóknun sér til handa í neinni mynd. Það var sagt um hina fornu Rómverja, að þeir hafi ekki lagt refsingu við móðurmorði. Það er eins með okkur flm., að okkur hefir ekki dottið í hug, að slíkir hlutir ættu sér stað. En hv. 1. landsk. þykist vita betur, og ég er ekki að draga í efa, að hann hafi eitthvað fyrir sér í því. Í forsendum sínum fyrir till. hefir hv. þm. upplýst, að til væri hæstaréttardómur fyrir því, að starfsmenn við víneinkasöluna falli undir sömu ákvæði og embættismenn ríkisins. Ef svo er, þarf ekki frekar vitnanna við. Hv. þm. gat þess, að þetta væri ekki fram komið af tortryggni við hina fyrri starfsmenn við landsverzlunina gömlu. Það er sannast að segja rétt að láta hv. þm. vita, að ýmsir af hv. þdm. hafa þó skilið þetta svo. Og málgagn hv. l. landsk. var stöðugt að dylgja með einhver ómakslaun, sem starfsmenn einkasölunnar hefðu. Ef það er óhjákvæmilegt að tryggja þetta með lögum, og búa út refsiákvæði fyrir starfsmenn ríkisins, þá sé ég ekki, hvers vegna allir aðrir starfsmenn eiga að sleppa, og þetta eigi eingöngu að ákveða í þessum lögum um tóbakseinkasöluna. Það er sjálfsagt, að ef menn gera sig seka í einhverju, sem ræðir um í brtt., þá eigi þeir sína þungu refsingu skilið. Ég hefi nú borið fram frv. til laga um að banna starfsmönnum ríkisins að taka þóknun í neinni mynd, og á það að ná til allra starfsmanna ríkisins, svo sem starfsmanna við vegamálin, verzlanir ríkisins, síma- og póstmálastarfsmanna og starfsmanna bæjar- og sveitarfélaga, borgarstjórans í Reykjavík og bæjarstjóra í kaupstöðum og forstöðumanna samvinnufélaga og þá ætti „svínaríið“ aðeins að geta þróazt í hlutafélögunum eftir frv. Þetta liggur miklu nær og hv. 1. landsk. fer allt of skammt í sinni till., ef það er þá ekki eingöngu tortryggni gagnvart þessari sérstöku stofnun, og því ætti hann að taka hana aftur og koma áleiðis þessu frv. mínu, ef þörf er á að gera ákvæði um starfsmenn ríkisins.

Þá hefir hv. 2. þm. N.-M. flutt brtt. við frv. á þskj. 18 og vill fella niður einkasölu á eldspýtum. Nú hefir þm. gert ráð fyrir því, að þetta væri nauðsynjavara, og mér hefir skilizt, að brtt. stafaði af þeirri skoðun hans. En nú mun um 90% af eldspýtum vera munaðarvara og notuð í sambandi við tóbakið. Þetta er langsamlega stærsta notkunin á eldspýtunum, en það er ekki nema tíundi hlutinn, sem fer til óhjákvæmilegrar notkunar. Það er því ekki nema að nokkru leyti rétt hjá hv. 2. þm. N.-M, að eldspýtur séu nauðsynjavara. en það, sem deilt er um, er, hvort ríkið eigi að hafa hagnað af sölu þeirra eða einstakir kaupmenn, og engin ástæða er til þess að hækka verð á eldspýtunum, þó að þessi breyt. komist á. Hver stokkur mun kosta 1½ eyri í innkaupum, en er seldur hér í búðum á 5 aura. Ríkið ætti því að geta haft 30–40 þús. kr. í tekjur af þessari sölu á ári hverju. Einnig má hagnýta sér þessa einkasölu á annan hátt, líkt og gert er annarsstaðar. t. d. í Frakklandi, sem hefir einkasölu á eldspýtum. Þar hafa þeir miklar tekjur af auglýsingum á eldspýtnakössunum, og upp úr þessu gæti íslenzka ríkið einnig haft talsverðar tekjur, þó að umsetning okkar sé auðvitað margfalt minni. Það yrðu að vísu ekki stórfelldar upphæðir, sem fengjust á þennan hátt, en okkur munar líka um lítið. Ef einkasala væri hér, gæti hún einnig ráðið gerð umbúðanna og auglýst á þeim, en nú er þetta fé borgað út úr landinu. Ég held, að það sé misskilningur hjá hv. 2. þm. N.-M., að rétt sé að fella eldspýturnar niður úr þessu frv., af því að þær séu nauðsynjavara. Ég hefi áður bent á það, hve mikill hluti af þessari vörutegund er munaðarvara. Flestar eldspýturnar fara til þess að kveikja í pípu, sígarettu eða vindli. Ég vænti þess, að brtt. hv. 2. þm. N.-M. verði ekki samþ., af áðurgreindum ástæðum. Það væri einmitt heppilegt að hafa þennan rekstur í sambandi við tóbakseinkasöluna. Hv. 2. þm. N.-M. var að segja, að leggja þyrfti þessum stofnunum mikið rekstrarfé. Ég held, að það yrði mjög smávægilegt. Þegar innflutningurinn væri á einni hendi, væri auðvelt að fá langan gjaldfrest. Því síður held ég, að neinn hörgull yrði á þessu fyrir tóbakseinkasöluna, þar sem einstök verzlunarfélög geta auðveldlega fengið slíkan langan gjaldfrest.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að því, hvað landsverzlun stæði betur að vígi með að verjast smyglun en einstaklingsrekstur. Þegar aðeins væri einn innflytjandi, væri hægt að láta merkja allar umbúðir svo greinilega, að ekki væri um að villast. Það þyrfti ekki að bæta nema einni línu við það, sem prentað er á umbúðirnar, nefnilega, að þetta væri frá Tóbakseinkasölu ríkisins. og fengist það vafalaust gert fyrir ekki neitt. Ég geri ráð fyrir, að einkasalan skipti ekki við önnur fél. en þau, sem eru svo stór og þekkt að heiðarleik, að þau færu ekki að reyna að smygla hingað vörum með merki landsverzlunarinnar, sem væri þeirra eini stóri viðskiptavinur hér á landi. Þessu mundi auðvelt að koma í framkvæmd. Ef smyglað yrði, þá sæist undir eins, að þetta væru ólöglegar vörur, og er það mikill munur frá því, sem nú er. Ef menn tækju t. d. upp sígarettupakka, sem ekki hefði nafn einkasölunnar, mætti ganga að því vísu, að hann væri smyglaður, og gætu löghlýðnir borgarar þá kært þann seka. Allt eftirlit yrði miklu auðveldara en nú, því hver getur séð, hvort t. d. pakki af Abdullah er smyglaður eða ekki, eins og sakir standa nú. Það er auðvitað, að tollgæzlu er erfið í landi eins og okkar, með langa strandlengju og tiltölulega tíðar skipaferðir. Enda dettur engum í hug, að hægt sé að taka algerlega fyrir smyglun. Það er ekki tóbak eitt saman, sem smyglað er. Mjög mikið áfengi o. fl. fer þar sömu leið, og er e. t. v. ekki gott að þekkja, hvað af því er löglegt eða ekki, þarna væri það aftur á móti svo greinilegt, að varla væri hægt að villast á því, hvaða vörur væru frá landsverzlun, og hverjar ekki. Engin smyglun yrði eins áberandi eins og með tóbak, eftir að landsverzlun væri búin að merkja allt, sem hún flytti til landsins, sínu sérstaka merki. Enginn tollgæzlumaður þyrfti að vera stundinni lengur í vafa um það, hvort vara væri lögleg eða ólögleg, en ég geri ráð fyrir, að þörf yrði á nokkru meira eftirliti en áður. — Ég hefi þá minnzt á brtt. um niðurfellingu eldspýtnanna, og um starfsmennina, en þar að auki á ég sjálfur brtt. við frv., sem ég ætla að fara um fáeinum orðum. Ég var að tala við hv. 2. þm. S.-M. viðvíkjandi frv. mínu um rafveitulánasjóð, og er ég vonminni en áður um það, að það nái fram að ganga á þessu þingi. Þar gerði ég ráð fyrir, að hagnaðinum af tóbakseinkasölunni yrði varið til þess að byggja rafmagnsstöðvar í kaupstöðum, eftir reglum, sem settar eru fram í því frv. og skýrðar í grg. þess. En sem sagt, ég er orðinn vondaufur um, að það frv. nái fram að ganga nú, þar sem stutt er orðið eftir af þingi. Reynslan hefir sýnt það, að úr því að fjárl. eru afgreidd, er ekki beðið boðanna með þingslit. Þó að ég hefði hugsað mér að verja hagnaðinum til þessara hluta, er ekki svo að skilja, að ótal aðkallandi framkvæmdir séu ekki fyrir hendi, þar sem þörf er fjár. Frv. um rafveitulánasjóð verður tæpast samþ. nú, þó að tóbakseinkasölulögin komist kannske í gegnum þingið. Og þar sem ekki er útlit fyrir, að neitt verði úr fjárveitingu þessari til rafveitulánasjóðs, hefi ég borið fram brtt. þess efnis, að ágóðanum af einkasölunni skuli varið að helmingi til framkvæmda á lögum um byggingu verkamannabústaða, en hinum helmingnum til styrktar byggingar- og landnámssjóði, samkv. l. frá 1928, sem ég er mjög fylgjandi, þó að ég sé ósamþykkur þeim í einstökum atriðum. (JakM: Eru þetta formleg hrossakaup?) Ég álít báðar þessar framkvæmdir mjög mikilvægar, svo þar þurfa engin hrossakaup að koma til. Þó er ástandið svo nú, að þörf fyrir auknar atvinnubætur er afarbrýn; það verður að ganga fyrir öllu öðru að reyna að skapa atvinnu fyrir allan þann mikla fjölda verkamanna, sem nú gengur atvinnulaus. Þess vegna hefi ég í niðurlagi brtt. sett inn heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að verja tekjum tóbakseinkasölunnar óskiptum til atvinnubóta fyrst um sinn, og skulu þær framkvæmdar í samráði við stjórn Alþýðusambands Íslands. Ég álít, að það verði að bæta úr því, sem er mest aðkallandi fyrst, áður en hugsað er um annað, og því vona ég, að þessi brtt. verði samþ. ég á aðra brtt. við þetta einkasölufrv., og er hún við 10. gr., og er aðeins orðabreyt. til þess að samræma þá grein frv., ef brtt. mín á þskj. 174 verður samþ. Ég ætla að taka það fram, að til er ætlazt, að þessi einkasala nái til allra tegunda af tóbaki og eldspýtum, þ. á m. til þessara „eilífu“ eldspýtna, sem nú er talað mikið um, og haldið er, að gera muni gerbreytingu í öllu, sem viðkemur eldspýtum.