22.08.1931
Efri deild: 39. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

132. mál, hýsing prestssetra

Jón Jónsson:

Í frv. þessu er styrkupphæðin til húsa á prestssetrum ákveðin 18 þús. kr., en þetta þykir mér nokkuð há upphæð og ekki í samræmi við það, sem samþ. var hér í hv. d. í gær, um að styrkur bænda til bygginga mætti ekki fara yfir 10000 kr. úr byggingar- og landnámssjóði. Sú upphæð var látin nægja handa bændum, og ég sé ekki, að það sé ástæða til að gera prestum það hærra undir höfði en þeim, enda liggja engin sérstök rök að því, að prestar þurfi að hafa meiri húsakost en bændur.

Ég vil stilla meira í hóf en gert er ráð fyrir í frv., því að þar er ekki einungis ætlazt til þessa framlags úr ríkissjóði, heldur geta prestar fengið allt að 8000 kr. lán úr kirkjujarðasjóði, sem þeir eiga að borga vexti af. Ég held, að við höfum ekki ráð á að reisa stærri hús en þau, sem hægt er að koma upp fyrir 20 þús. kr., enda hlýtur að vera hægt að koma upp sæmilegu húsi fyrir það fé, einkanlega þar sem byggingarkostnaður er ólíkt minni til sveita en í kaupstöðum, sökum þess að byggingarefni er þar víðast við hendina og kaupgjald lægra.

Þá á ég einnig brtt. við 28. gr. frv., sem segir, að ef svo skyldi fara, að á einhverjum tíma væri ekki nægilegt fé fyrir hendi í kirkjujarðasjóði, þá skuli ríkissjóður veita lánið. Mér virðist óheppilegt og óviturlegt að ætla að gera ríkissjóðinn með þessu að lánsstofnun. Ef svo skyldi fara, sem ég álít nú ólíklegt, að kirkjujarðasjóður hefir ekki nægilegt fé til að annast þessi lán, þá lít ég svo á, að leita beri til fjárveitingavaldsins og að það á hverjum tíma ráði bót á þeim vandkvæðum, sem af þessu kann að leiða.

Þá legg ég til að breytt verði fyrirsögn frv. Í frv. er bæði talað um peningshús og íbúðarhús, og því legg ég til, að fyrirsögn verði: Frv. til laga um hýsing prestssetra.

Vona ég, að brtt. mínar nái fram að ganga, og svo frv. í heild, því að það er allmerkilegt.