21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Guðmundsson:

Hv. frsm. fjvn. hefir alveg misskilið mig, ef hann hefir skilið mig svo, að ég hefði á móti því, að áætlað væri fyrir fyrningum. Ég sagði. að þetta mætti gera með einni færslu í rekstrarreikningi, sem kölluð væri t. d. fyrning ríkissjóðseigna. Hitt virðist mér ekki rétt, að skrökva upp greiðslum til fyrninga í 30–40 stöðum í frv. og taka það svo aftur í sjóðsreikningi. Það gladdi mig, að hv. frsm. var sammála mér um þetta, og ég geri ráð fyrir, að þetta geti aldrei staðið lengi, heldur verði fljótlega úr því bætt. Þessir liðir eru uppdiktaðir með öllu, enda mun það koma á daginn síðar, og þýðir því ekki að vera að deila um þetta, en mér virðist sem hv. fjvn. hefði getað lagfært þetta nú. Það verður gaman að sjá landsreikninginn fyrir 1931. Þar á að vísa til fskj. með hverjum lið. Ef um fskj. væri að ræða með þessum fyrningarliðum, ætti það að vera kvittun frá ráðh. um, að hann hefði tekið fé þetta úr sjóði ríkisins, en ég er þegar sannfærður um, að slíkt kemur aldrei til, því að enginn ráðh. mun fást til að skrökva þessu. Annars þýðir ekki að deila frekar um þetta; reynslan mun fljótlega sanna mál mitt, og það er hægt að bíða þangað til.