08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

1. mál, fjárlög 1933

Bernharð Stefánsson:

Það er augljóst mál, að eins og nú standa sakir er ekki forsvaranlegt að gera till. um hækkun á útgjöldum ríkisins, a. m. k. ekki svo neinu nemi. Mér hefir verið þetta ljóst, eins og öllum ætti að vera. Sökum þess hefi ég ekki borið fram neinar verulegar hækkunartill., þótt mér sé það ljóst, að samanborið við ýms önnur héruð, er mitt kjördæmi frekar afskipt, t. d. hvað snertir framlag til vega. En þótt mér sé það ljóst, að ekki megi auka útgjöld ríkisins, svo að nokkru máli skipti, hefir það atvikast svo, að ég hefi leyft mér að bera fram tvær smátill. til hækkunar á þskj. 352. Auðvitað er þar aðeins um örsmáar fjárveitingar að ræða, og ég skal taka það fram, að ég hefði ekki borið þær fram, eins og nú standa sakir, ef ekki hefði staðið svo á, að í fjárlfrv., eins og það liggur nú fyrir, eru komnir liðir, sem ég get ekki séð, að séu á nokkurn hátt rétthærri en það, sem ég fer fram á. En um þessa liði, sem ég hér á við, hefir engin aths. komið fram, hvorki frá fjvn. né öðrum.

Fyrri till. mín á þskj. 352 undir IV. lið, er um 600 kr. styrk til Halldórs Kr. Jónssonar frá Brekku í Svarfaðardal til dýralækninga. Ég flutti þessa sömu till. á sumarþinginu og get eiginlega látið nægja að vísa til þeirra upplýsinga, sem þá komu fram um málið, bæði til þeirra skjala, sem þá lágu fyrir fjvn. og hún mun hafa kynnt sér, og eins þeirra upplýsinga, sem ég gaf hér í d. Í fjárl. þeim, sem nú liggja fyrir, er alveg hliðstæður liður, þar sem einstökum manni er veittur styrkur til dýralækninga. Af þeim upplýsingum, sem áður hafa komið fram, skal ég rifja það upp, að þessi maður hefir stundað dýralækningar frá 1913, og jafnan með góðum árangri. Hann hefir á seinustu árum fengið svo mikla aðsókn, vegna þessara lækninga sinna, að það er orðið erfitt fyrir hann að stunda búskap jafnhliða þessu starfi. Hann hefir á seinni árum verið sóttur 160–180 sinnum árlega í þessu skyni. Nú má búast við, að venjulega fari dagur í það, þegar hann er sóttur. Er því ekki lítill tími, sem eyðist frá bústörfunum til þessara hluta. Nú var hann búinn að ákveða að hætta dýralækningum og gefa sig eingöngu að búi sínu. Styrkbeiðni þessi er því fram komin vegna óska frá fjölda manna, um að hann haldi starfi þessu áfram, en það telur hann sig ekki geta, nema hætta búskap og gefa sig eingöngu við dyralækningum, en tekjur af þeim eru ekki svo miklar, að hann geti lifað eingöngu af þeim. Til þess að sýna áhuga manna norður frá fyrir því að fá manninn til þess að halda lækningunum áfram, má geta þess, að Svarfaðardalshreppur hefir þegar lofað að leggja fram í því skyni 400 kr. og hér er farið fram á 600 kr. Verður það samtals 1000 kr., og er það hið minnsta, sem hugsanlegt er, að maðurinn komist af með. Eins og kunnugt er frá sumarþinginu, þá hefir maður þessi meðmæli frá hreppstjóra, hreppsnefnd og héraðslækni. sé ég svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta.

Þá á ég enn brtt. á þskj. 352, um 500 kr. eftirlaun til Guðrúnar Jóhannesdóttur frá Samkomugerði, fyrrv. ljósmóður, en til vara 300 kr. — Hv. fjvn. hefir átt kost á að kynna sér öll gögn þessa máls. Styrkbeiðni þessi er alveg hliðstæð mörgum liðum, er staðið hafa í undanförnum fjárl. og enn eru í fjárlagafrv. því, er fyrir liggur. Mér telst svo til, að í fjárlagafrv. því, er við erum nú að ræða, séu ekki færri en 24 styrkir til fyrrv. ljósmæðra, fyrir utan styrki til fyrrv-. hjúkrunarkvenna. Það hefir engin till. komið fram, hvorki frá fjvn. eða einstökum hm., um að fella þessa styrki niður. Er því ekki annað hægt að sjá en að það hafi ekki aðeins verið stefna undanfarinna þinga, heldur sé það einnig skoðun hv. fjvn. nú og þessarar hv. deildar, að ljósmæður, sem staðið hafa vel í stöðu sinni og komnar eru á háan aldur, eigi að fá eftirlaun. Og út frá þeirri hugsun er till. þessi fram borin, því að ég fæ ekki séð eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, annað en þessi gamla ljósmóðir sé eins rétthá og aðrar ljósmæður, sem samskonar styrks njóta. Hún hefir starfað milli 40–50 ár við ljósmóðurstörf með ágætum árangri og því eðlilega hjálpað fjölda af konum, og ég hygg, að það sé nær einsdæmum ljósmóður, sem svo lengi hefir starfað, að engin kona hefir dáið af barnsförum hjá henni. Svo vel hefir hún leyst störf sín af hendi. Þá vil ég geta þess, að hún hefir eindregin meðmæli tveggja lækna, sem mest hafa starfað með henni, þeirra Guðmundar Hannessonar prófessors, er var læknir á Akureyri, og Steingríms Matthíassonar, sem nú er héraðslæknir þar. Mér virðist ekki nema um tvennt að ræða, annaðhvort að fella niður styrkinn til hinna 24 ljósmæðra, sem í fjárlagafrv. standa, og það gæti ég fallizt á, eða þá að samþykkja þennan styrk, því að hér er um tvennt alveg hliðstætt að ræða.

Þá á ég brtt. 5 þskj. 334, XXIII. lið, um að greiða til Jóhannesar Jörundssonar hafnsögumanns í Hrísey vangoldna dýrtíðaruppbót frá árinu 1928, kr. 102. Satt að segja hefði aldrei átt að þurfa að bera þetta fram sem brtt. við fjárlögin, því að þessi litla upphæð hefði átt að vera fyrir löngu greidd af stj., án þess að til þingsins kasta kæmi. Maður þessi hefir haft 300 kr. styrk á ári frá því 1928, og eins og aðrir, sem standa í 18. gr. fjárlaganna, hefir hann fengið greidda dýrtíðaruppbót af upphæðinni, nema fyrsta árið. Af hvaða óhöppum eða misskilningi það hefir farizt fyrir, veit ég ekki. Það hefir verið farið fram á að fá þetta greitt, en eigi að síður hefir engin greiðsla fengizt ennþá, en nú hefi ég von um, að þetta verði loksins greitt, sé ég því ekki ástæðu til að láta þetta smáræði koma undir atkv. og tek því þessa till. aftur.

Ég hefi þá nefnt þær brtt., er ég flyt við þessa umr. fjárlaganna. Að vísu er ég meðflm. að einni brtt., en þar sem annar maður er fyrsti flm., ætla ég ekki að ræða hana nú.