15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

44. mál, hjúkranarkvennalög

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Mér finnst vera hálfgerð mótsögn í því hjá hv. þm. Vestm., þar sem hann er að tala um það, að með brtt. minni sé eiginlega óþarflega ýtt undir það, að próflausar hjúkrunarkonur fáist við hjúkrun, en hinsvegar telur hann það sem höfuðkost þessa frv., og eiginlega það eina, sem geti forsvarað skylduákvæði frv., séu þessar tiltölulega hlaupvíðu dyr, að geta gengið algerlega fram hjá þessu ákvæði. Ég held, að hv. þm. Vestm. hefði verið réttara að athuga þetta svolítið, áður en hann fór að fella þá dóma, sem hann gerði um mína brtt.

Nú veit ég, að hann muni halda því fram gagnvart mér, að það sé meiri trygging í því, að héruðin fái að komast undan ákvæðum þessara laga, að bera þetta undir heilbrigðisstjórnina. En ég vil benda hv. þm. á það, að það er ekki eins og þessar hjúkrunarkonur, sem starfa að líknarstörfum á vegum oft fátækra eða efnalítilla félaga úti um land, starfi upp á eigin hendur, án þess að vera háðar læknis- eða heilbrigðiseftirliti, því að þær starfa undir handleiðslu viðkomandi héraðslæknis, sem vitanlega er fullfær til þess að dæma um það, engu síður en landlæknirinn — með allri virðingu fyrir honum, hver sem það er —, hvort þær séu þeim vanda vaxnar, sem þær taka á sínar herðar. Það er þess vegna ekkert í þessu, sem skilur á milli mín og hv. þm. Vestm., annað en það, að ég vil, þegar um er að ræða hina fyrirferðarminni starfsemi, sem þó er jafnmikilsverð fyrir þjóðfélagið, þá sé komizt hjá þeirri skriffinnsku, ómaki og fyrirhöfn, sem felst í því að verða, af hvaða landshorni sem er, að fara til Rvíkur og sækja um leyfi, sem ekki hafa neina yfirburði yfir þau leyfi, sem hægt er að fá í hverju einasta héraði landsins. Eftir því sem hann talaði í sinni ræðu um þessi undanþáguleyfi, er ekkert, sem ber á milli hjá okkur, annað en það, að ég vil losa héruðin við þessa gersamlega þýðingarlausu fyrirhöfn. Það getur oft komið fyrir, að þessum oft fátæka og fámenna félagsskap, sem ber uppi hjúkrunar- og líknarstarfsemi úti um land, yrði fært að halda slíkri starfsemi uppi, ef hann hefði leyfi til þess að hafa hjúkrunarkonur, sem vitanlega hefðu þekkingu í sinni grein, þó að þær hefðu ekki tekið próf, og hægt væri að fá með þeim kjörum, sem félagsskapnum væri fært að borga. Hinsvegar gæti orðið dráttur á slíkri starfsemi, þegar ætti undir högg að sækja með það, að hægt væri að fá aðrar hjúkrunarkonur en þær, sem tekið hafa próf frá hjúkrunarkvennaskóla Íslands. Þegar þær konur eru búnar að fá það lögleitt; að þær einar megi fást við alla slíka starfsemi úti um land, má búast við því, að hjá þeim komi fram þau einkenni stéttafélagsskaparins, sem alstaðar bryddir á, að þær vilji vera einráðar um, hvað þær taki fyrir starfa sinn. Úti um land, þar sem úr litlu er að spila, en þörfin er mikil fyrir þessa hjálp, veltur á miklu, að þetta sé ekki gert svo kostnaðarsamt, að þar verði mönnum um megn að ráðast í þetta.

Ég verð að brýna það fyrir þeim mönnum, sem hér vilja líta á hagsmuni og aðstöðu stéttanna, að þeir taki þetta atriði fullkomlega til athugunar, þegar um er að ræða slík sérréttindi, sem hér er verið að veita með þessum l.

Ég ætla þá aðeins að bæta því við, út af því, sem hv. þm. Vestm. sagði um till. mína um skólana, að það væri ekki fullkomið samræmi í því að kveða svo á, að leggja þessa skyldu á herðar kaupstaðaskólanna, en undanskilja alla aðra skóla landsins, að ég viðurkenni það, að það er nokkuð til í þessum aths. hv. þm. Það sem fyrir mér vakti, og eiginlega mér og landlækni, þegar við vorum að bræða ráð okkar saman um þetta, var það, að það er vitanlegt, að kaupstaðaskólarnir eru mjög fjölmennir. Hinsvegar er það svo um sveitaskólana, þegar héraðsskólarnir eru undanteknir, að þeir eru mjög fámennir og þess vegna eðlilegt, að undanþáguákvæðið nái til þeirra. Ég skal fullkomlega viðurkenna hvað héraðsskólana snertir, að þetta er ekki fullkomið samræmi, og skal þess vegna að þessu leyti taka í höndina á hv. þm. Vestm. og bera fram brtt. við mína eigin brtt., að á eftir orðinu „kaupstaðaskólum“ komi : og alþýðuskólum.