12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Umr. um samningana hafa hér aðallega snúizt um þá hlið þeirra, er að síldveiðum veit. Ég skal ekki fara langt út í það, því að á því sviði eru til ýms atriði, sem ég er ekki gagnkunnugur. En ég vil í fáum orðum slá því föstu, að ég er, eins og ég hefi þegar látið í ljós, mjög hræddur um, að samningarnir séu óheppilegir fyrir afdrif ísl. síldveiði. En það er ekki nema reynslan ein, er getur til fulls skorið úr um framkvæmdahlið málsins. Menn geta farið í löggjöfina og grandskoðað hana og rannsakað eftir þeim föngum, sem fyrir liggja, en það, sem sagt hefir verið um framkvæmdirnar, er allt á getgátum byggt. Ég hefi ekki haft þessa hlið máls mikið að umræðuefni og mun heldur ekki gera það. En ég hefi hinsvegar vakið umtal um það, hvort hæstv. stj. muni gera þetta mál að fráfararatriði, og lýst því, að slíkt falli mér ekki í geð, því að ég lít svo á, að þetta mál sé svo vaxið, að það þoli ekki að vera dregið inn í flokkadeilur. Þetta mál er utanríkismál og verður að sæta annari meðferð en ágreiningsefni þingflokkanna. Þetta held ég fast við og álít ótækt athæfi stj. að draga með þessu móti sjálfa sig inn í flokkapólitíkina, og ég vil skora á stj. að sætta sig við, þó hún þurfi að hverfa frá því að gera málið að kabinetsspursmáli. Þetta er sjálfsögð krafa, og mundi sjálfsagt að gera hana til hvaða stjórnar, sem er. Það liggur engin ásökun í orðum mínum, því að enn hefi ég ekki heyrt af munni stj., að hún ætlist þetta fyrir, heldur er þetta viðvörun, svo að hæstv. stj. komist ekki í slíkt öngþveiti að óyfirveguðu. Um samningana er það að segja, að sem stendur eru fæstir ánægðir með þá. En það er ekkert eins dæmi að því er snertir utanríkismál, að eitthvað sé svo vaxið í þeim, að ekki þyki ljúft að ganga inn á þá skilmála, þótt menn séu e. t. v. nauðbeygðir til þess, svo að í gildi gangi aðrir hollir, sem bundnir eru við þá. Það getur komið fyrir, að hagsmunir rekist svo á, að það er ekki hægt að gera þær kröfur til sjálfs sín eða annara, að ganga ekki að öðru en því, sem maður er ánægður með. Þetta er því miður svo.

Nú ber þetta mál þannig að hjá okkur í þessari deild, að samningurinn er samþ. með miklum atkvæðamun í Nd., eða með 19:6 atkv., að 3 þm. fjarstöddum. Þegar á að líta á það, hver leið sé líklegust til að fá Íslendinga til að standa saman um það, sem gera þarf í þessu máli, þá væri náttúrlega ekki álitlegt, ef það yrði ofan á, að tekin yrði upp sú aðferð með litlum atkvæðamun í þessari hv. d., sem hefir orðið undir með miklum atkvæðamun í hinni deildinni. Þetta út af fyrir sig gerir mig nú hikandi í því að vilja leggjast á móti því, að sú heimild sé veitt hæstv. stj., sem í þessu frv. felst. Ég held fast við þá skoðun mína, sem ég lét í ljós við 1. umr. þessa máls, að þegar litið er yfir málið í heild frá upphafi og til þessa dags — og til framtíðarinnar; þá er höfuðatriðið það, að haldið verði áfram þeim aðgerðum, sem nauðsynlegar eru til þess að losa okkur undan þeirri nauðsyn, að hafa markað fyrir saltkjöt í Noregi. Þá fyrst, er við höfum gert þær ráðstafanir, erum við alveg frjálsir í samningum við Norðmenn. Ég hefi ekki heyrt neinar mótbárur móti þessu; og ég geri mér eiginlega sterkar vonir um, að það muni vera hægt að sameina menn um aðgerðir í þessa stefnu. Og ef menn verða sammála og samtaka um það, þá leiðir það til þess að losa okkur undan því að þurfa að láta Norðmönnum í té nokkur þau fríðindi við síldveiðar og fiskveiðar hér, sem okkur er sárt um.

En til þess að koma slíku í framkvæmd, þá er auðvitað æskilegast fyrir okkur að skapa okkur þá aðstöðu, að við getum valið okkur þann tíma, sem okkur þykir heppilegastur. Nú ber þetta mál þannig að, að það eru því miður sérstakar ástæður, sem gera það alveg sérstaklega erfitt á þessu augnabliki að vita, hvar við stöndum að því er snertir getu okkar til þess fljótlega að losast við saltkjötsmarkað í Noregi. Það er öllum hv. þdm. vitanlegt, að þótt lítið sé um það talað, þá stendur þetta mál í nánustu sambandi við þá samninga, sem nú standa yfir, en eru ófullgerðir, milli okkar og Englendinga, um gagnkvæma verzlun milli landanna. Ég get ekki, fremur en áður, gert nokkur einstök atriði í þeim samningaumleitunum að umtalsefni, en get þó ekki annað en minnt á það, að þannig stendur það mál, að af þeim 3 þús. smál. af kindakjöti, sem við nú sem stendur þurfum að flytja út árl., höfum við ekki vissu fyrir á þessu augnabliki að geta orðið af með nema ¼ hlutann til Englands. Við höfum að vísu vonir um að selja meira, jafnvel allt að því að halda þeim markaði, sem við höfum notið þar síðastl. ár, sem mun nema allt að því 3/4 hlutum af kindakjötsútflutningnum.

Sú eina ósk, sem ég hafði fram að bera í utanríkismálanefnd, eftir að samningar voru orðnir fullundirbúnir, var sú, að þeir mættu að öllu leyti bíða þangað til séð yrði um úrslit samninga við England.

Ég þarf ekki að útlista það, hvílíkan mun það gerir á getu okkar til þess að losna fljótlega við markaðsþörf í Noregi, hvort við fáum að flytja til Englands ¼ eða 3/4 af því kjötmagni, sem við þurfum að selja út. En á þessu augnabliki er ómögulegt um þetta að vita. Þess vegna tel ég, að þessi tími sé fyrir okkur Íslendinga svo óhentuglega valinn sem nokkur tími getur verið, til þess að taka ákvörðun um það, að losa okkur til fulls við þörf fyrir norska saltkjötsmarkaðinn.

Ég álít þess vegna, að aðstaðan heimti það í raun og veru, að við tökum okkur frest til ákvörðunar um þetta, þangað til samningunum við England er lokið. Þá fyrst getum við vitað, hve mikið kjötmagn við þurfum að gera ráðstafanir til að útvega markað fyrir.

Nú hefir það verið margtekið fram, af þeim, sem eru óánægðir með þessa samninga, að aðalkostur þeirra sé sá, að þeir eru uppsegjanlegir með 6 mán. fyrirvara. Þeir eru gerðir til eins árs í senn. Ef við göngum að þeim nú, þá getum við látið þá falla úr gildi einhverntíma á tímabilinu frá 1. marz til 1. júní næsta ár. Það er fastlega búist við því, að samningum við England verði lokið nú á þessu vori eða sumri. Getum við þess vegna vonazt eftir því a. m. k., að þegar við komum saman á næsta þingi — og kannske áður en við slitum þessu þingi — þá getum við haft nauðsynlegt yfirlit yfir það, hvaða ráðstafanir þarf að gera kjötmarkaðsins vegna. Ég legg þess vegna í þessu máli mesta áherzlu á það, að eins og nú stendur álít ég okkur nauðbeygða til að útvega okkur frest, til þess að geta tekið fullnaðarákvörðun í málinu. Þennan frest getum við útvegað okkur með því að veita stj. heimildina, sem frv. fer fram á, og veita hana sem beina bráðabirgðaráðstöfun. Og frestinn eigum við þá fyrst og fremst að nota til þess að koma löggjöf okkar í það horf sem þarf, til þess að við höfum sæmilega aðstöðu í slíkum samningum yfirleitt. Í því horfi er löggjöf okkar því miður ekki nú. Hefir að vísu komið fram frv. á þessu þingi til þess að bæta úr, en er ekki komið neitt áleiðis.

Í öðru lagi álít ég, að við eigum að nota frestinn til þess að gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar kunna að verða, eftir að ensku samningunum er lokið, til að útvega markað fyrir það af okkar útflutta kindakjöti, sem við getum ekki fengið að verða af með á enskum markaði. En það segir sig sjálft, að það er ómögulegt að taka ákvörðun um slíkar ráðstafanir nú, meðan við höfum enga hugmynd um það, hvort það verður ¼ eða 3/4 af öllu útflutningskjötmagni, eða einhversstaðar þar á milli, sem þarf að finna nýja leið fyrir.

Ég þarf ekki að endurtaka neitt af því, sem ég sagði við 1. umr. um það, sem ég er óánægður með í þessum samningi. En af þessari höfuðástæðu, sem ég hefi nefnt, þeirri algerðu óvissu, sem nú um stund er um niðurstöðu hliðstæðra samninga við England, þá mun ég ekki sjá mér fært að leggjast á móti því, að stj. fái sem hreina bráðabirgðaráðstöfun þá heimild, sem farið er fram á í frv. Og ég vona svo, að sú tillátssemi mín og margra af þeim, sem greiddu atkv. með þessu frv. í Nd., geti orðið til þess, að við verðum samtaka betur heldur en nú gæti orðið, bæði um undirbúningsráðstafanir, sem þarf til þess að losa okkur undan þeirri nauðsyn að gera slíka samninga við Norðmenn, og um uppsögn samninganna og nýja verzlunarsamninga við þá, þegar þar að kemur, sem ég fyrir mitt leyti vona, að ekki verði langt að bíða, ef samningarnir við Englendinga ekki enda með neinum ósköpum fyrir okkur.