30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (4234)

48. mál, lögreglustjóra í Bolungavík

Sveinbjörn Högnason:

Hv. þm. N.-Ísf. vildi halda því fram, að ekki væri um neinn meiri hl. að ræða, þar sem einn nm. hefði ekki tekið neina afstöðu. Ég get lýst því yfir, að hann vildi ekki ganga inn á málstað minni hl., og hann telst þar af leiðandi með okkur, sem erum á móti frv.

Hv. þm. talaði um það, að engin sveit mundi vilja greiða 3- 4 þús. kr. til þess að fá lögreglustjóra. Ég fyrir mitt leyti get ekki séð annað en að það mundu flestar sveitir, hvað fámennar sem þær eru, vilja það. Um það, hvað ríkisstj. ætli að gera, ef borgararnir hætta að vilja inna þetta starf af hendi, þá kemur mér sú spurning einkennilega fyrir sjónir. Ég veit ekki betur en að bæjarfógetinn á Ísafirði hafi sérstakt fé úr ríkissjóði til þess að hafa umboðsmann til að innheimta tekjur ríkisins. Í frv. um skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta eru sýslumanninum á Ísafirði ætlaðar 13 þús. kr. til skrifstofuhalds, og ég er sannfærður um, að þessi háa upphæð er að miklu leyti miðuð við það, að hann þarf að hafa sérstakan umboðsmann.

Mér virðist það harla einkennilegt að styrkja sérstaklega fjölmennustu héruðin með sína sveitarstjórn. Og ég tel það afarvarhugaverða braut, ef á að stofna hvert lögreglustjóraembættið á fætur öðru á þessum tímum, þegar vitað er, að það er vilji þjóðarinnar, að dregið sé úr embættum. Ég veit heldur ekki betur en að þessi hv. þm. hafi tekið undir þann söng.

Það er fyrirsjáanlegt, að þetta hefir ekki aðeins í för með sér útgjöld til þess að stofna þetta embætti, heldur kemur svo líka röðin áfram. Eins og sést á frv. um skrifstofufé bæjarfógeta og sýslumanna, þá er til þessa eina lögreglustjóra, sem þegar hefir verið samþ. af þinginu, ætlaðar 500 kr. til skrifstofuhalds. Þetta getur því verið útgjaldasamt fyrir ríkissjóð, og ég vil mjög alvarlega vara við því nú á þessum tímum að fara inn á þá braut.