06.03.1933
Efri deild: 17. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í C-deild Alþingistíðinda. (4863)

62. mál, niðurjöfnunarnefnd í Reykjavík

Flm. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Mér kom það ekki með öllu á óvart, þó að samþm. minn, hv. 2. landsk. andaði á móti þessu frv. Gat hann þó ekki mælt á móti því út frá stefnu síns flokks, því að í frv. er nú farið fram á það eitt, að svo mikilvægt málefni sem skattálöguvaldið er og niðurjöfnunarnefnd fer með, sé í höndum réttra og hlutfallslega kjörinna fulltrúa borgaranna á hverjum tíma. Það er í rauninni það sama, sem farið er fram á hér að því er snertir þetta eina, en þó mikilvæga málsatriði, og við hv. 2. landsk. hlið við hlið höfum farið fram á í stjórnarskrárbreyt. þeim, sem legið hafa fyrir síðasta þingi að því er snertir afgreiðslu málsins, þ. e. a. s. að valdið yfir landsmálunum yfirleitt skuli vera í höndum fulltrúa, sem séu kosnir þannig, að atkvæðisrétturinn njóti sín jafnt og að meiri hl. eigi að ráða.

Þessi skipun, sem nú er á niðurjöfnunarnefndinni í Rvík, styðst hvorki við það, sem er venja í útlöndum og hæstv. forsrh. réttilega benti á, og ekki heldur styðst hún við það meginatriði, að sjálfsákvörðunarréttur borgaranna fái að njóta sín í þessum efnum eins og öðrum. Fyrir því er nú farið fram á þessa litlu breyt., sem er í samræmi við aðrar breytingar, sem gerðar hafa verið nýlega á löggjöfinni um bæjarmálin í Rvík. Borgarstjórinn, sem kominn er í stað þess embættismanns, sem ríkið áður lagði til og hafði atkvæðisrétt, er nú atkvæðisréttarlaus í bæjarstjórninni og þeim n. bæjarstjórnarinnar, sem hann á sæti í yfirleitt. En sú skipun niðurjöfnunarnefndarinnar í Rvík, sem verið hefir nokkur undanfarin ár, hefir, ef svo má segja, fært flokki hv. 2. landsk. flokkslegan ávinning, og mér kom ekki með öllu á óvart sá mannlegi breyskleiki hjá honum, að hann mundi láta flokkshagsmuni ráða, þegar árekstur yrði milli flokkshagsmuna annarsvegar og lýðræðishugsjónanna hinsvegar. Þó hefi ég sannreynt hitt, að hann hefir glöggan skilning á lýðræðishugsjónunum, þegar þær fara ekki í bága við hans flokkshagsmuni, t. d. í stjórnarskrármálinu.

Hitt kom mér á óvart og þótti leiðinlegt, að frá hæstv. forsrh., sem þetta mál heyrir ekki undir yfirleitt, þar sem það er sveitarstjórnarmál og heyrir að mestu leyti undir annað ráðuneyti en hans, andaði kalt til þessa frv. hér við þessa umr. Út af því, sem hann sagði um kostnaðinn af niðurjöfnun útsvara, vil ég vekja athygli hans á því, að í frv. hefir verið tekið upp samskonar ákvæði og nú gildir. Nú er svo ákveðið með tilskipun, sem hefir lagagildi, að Reykjavíkurbær skuli greiða 1/3 af kostnaðinum við skattstofuna í Reykjavík, að frátöldum launum skattstjórans. Hæstv. ráðh. taldi réttara, að þar kæmi ½ í staðinn fyrir 1/3. Ég skal enga afstöðu til þess taka út af fyrir sig, því að þetta er einstakt atriði í málinu, sem samkv. eðli sínu á að koma til athugunar í n.

Ég get engan veginn fallizt á hina mótbáruna, sem hæstv. ráðh. kom með, að það væri ekki rétt að breyta skipun niðurjöfnunarnefndarinnar í Rvík fyrr en löggjöf yrði sett um það, að láta nokkurnveginn eða alveg ákveðinn skatt koma í staðinn fyrir niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum. Ég viðurkenni það fullkomlega, að það er orðin brýn þörf á því að setja, fyrir Reykjavík a. m. k., löggjöf um bæjargjöld, einnig á þessu sviði, í stað niðurjöfnunar eftir efnum og ástæðum, því að bærinn er orðinn svo mannmargur, að niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum getur ekki lengur byggzt á því, sem þó er grundvöllurinn í slíkri skattaálagningu, en það er það, að niðurjöfnunarmennirnir geti yfirleitt haft persónulegan kunnugleika á högum og háttum gjaldendanna. Þetta er ekki lengur fyrir hendi og það er orðið tímabært að fá lögleiddar fastar reglur, álíkar þeim, sem gilda erlendis. Það mál hefir nú átt erfitt uppdráttar. Um 1917 hafði bæjarstjórn Reykjavíkur undirbúið það mál og eftir ýtarlegan og vandaðan undirbúning var lagt hér fyrir þingið frv., og var þar settur ákveðinn skattstigi í staðinn fyrir niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum. Þetta frv. náði ekki fram að ganga. Þá var það flutt, að ég ætla, af þm. Reykv. Á næsta þingi var það flutt sem stjfrv. og með svipuðum ummælum og hér hafa fallið um nauðsyn þessa, en fékk ekki framgang að heldur. Á því ári og næsta ári á eftir urðu svo miklar verðlagsbreytingar, að það varð mjög erfitt að gera sér grein fyrir þeim breyt. á tekjuþörfinni, sem þar af stafaði, og erfitt að finna skattstiga, sem gilt gæti til frambúðar um niðurjöfnun gjaldanna.

Nú er það að vísu svo, að nokkur undirbúningur er byrjaður að slíkri löggjöf fyrir Reykjavík, en ég get ekki gert mér vonir um, að hún verði fljótt tilbúin eða geti fengið fljótan framgang, vegna þess að það er umfangsmikið og vandasamt mál. Ég tel það þó miklu máli skipta, að á meðan sú löggjöf er í smíðum sé til í bænum niðurjöfnunarnefnd, sem geti verið réttur spegill af vilja og skoðunum borgaranna í þessum efnum, því að sú nefnd á fyrst og fremst að leggja bæjarstjórninni til þær uppástungur, skýringar og leiðbeiningar, sem þarf að byggja á í þessu efni, en niðurjöfnunarnefndin eins og hún er nú skipuð er enginn fulltrúi borgaranna í Rvík á þessu sviði.

Ég ætla ekki að svo stöddu að fara lengra út í þá annmarka, sem við það eru, hvernig niðurjöfnunin er nú framkvæmd, en vil geta þess, að bæjarstj. í Rvík, sem er rétt kosinn fulltrúi borgaranna, sér sig hvað eftir annað tilneydda að breyta stórlega athöfnum niðurjöfnunarnefndarinnar á þann eina hátt, sem hún hefir vald til, og það er að gefa eftir útsvör, þó að það hafi í för með sér tekjumissi fyrir bæjarsjóð. Það má benda á nýframkomin dæmi þess, að bæjarstj. sér sig tilneydda að grípa fram fyrir hendur niðurjöfnunarnefndarinnar - eins og hún er nú skipuð - með því að gefa eftir stórar útsvarsfjárhæðir til að vernda atvinnuvegi bæjarins frá stórum áföllum.

Þetta á ekki að ganga svona til. Reykvíkingar eiga að njóta þess þjóðfélagsréttar eins og aðrir, að meiri hl. ráði í þeirra mikilvægustu málefnum. Skyldi meiri hlutanum mistakast, verður hann að bera ábyrgð á því og á fyrir það afhroð að gjalda. Þessi árekstur, sem nú er milli meiri hl. í niðurjöfnunarnefndinni og meiri hl. í bæjarstj., á ekki að eiga sér stað. Ég vona fastlega eftir því að þurfa ekki að skilja andmæli hæstv. forsrh. sem andmæli gegn því, að málinu verði vísað til 2. umr. og athugunar í n.