24.11.1933
Efri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (1152)

11. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Björn Kristjánsson:

Ég á hér eina brtt. um að taka upp í símalögin tvo spotta í mínu kjördæmi, og ber hana fram eftir ítrekuðum óskum fjölda manna.

Önnur línan á að liggja frá Skinnastað að Austaralandi og er 6 km. á lengd. Hin á að liggja frá Skinnastað að Garði í Kelduhverfi, og er sú vegalengd 18 km. Þó er aðgætandi, að þessar tvær línur liggja saman frá Skinnastað að Jökulsarbrú, og mætti nota á þeirri leið sömu staura og sömu línu.

Þessar brtt., eins og aðrar við þetta frv., eru bornar fram af nauðsyn héraðsbúa. Fyrst er síminn var lagður, voru óskir um þessar línur ekki háværar, af því að allir sáu, að rétt var að leggja fyrst og fremst áherzlu á langlínusambandið. En eftir að sími kom frá Kópaskeri að Skinnastað fóru menn að láta í ljós mjög eindregnar óskir um þessar línur. Þessar línur myndu að engu leyti spilla langlínusambandinu, þar sem þær mundu verða framlenging á aukalínu, sem ekki stendur í beinu sambandi við langlínuna. Ég skal ennfremur bæta því við, að önnur línan, að Austaralandi, liggur að bæ við fjölfarinn fjallveg milli Hólsfjalla og Axarfjarðar. Þarna er kominn bílfær vegur, sem verður enn fjölfarnari, þegar búið er að bæta inn í hann þætti á Jökuldal og að Möðrudal og þannig tengt saman vegakerfi Norður- og Austurlands. Eftir að Reykjaheiðarvegur var fullgerður hófst þegar mikil umferð um Hólsfjöll strax í sumar. Ef Austfirðir bætast við vegakerfið, verður ferðamannastraumurinn ákaflega mikill. En báðar þessar símalínur liggja fast við þjóðveginn. Hér í grennd eru sumir hinna fegurstu staða á landinu, svo sem Dettifoss og Ásbyrgi, sem draga að sér fjölda fólks. Ég held óhætt sé að fullyrða, að þetta verði eftirsóttir staðir af ferðafólki framvegis, enda hefir mér skilizt á vegamálastjóra, að hann ætlaði að leggja afleggjara upp að Svínadal og Dettifossi. Þætti mér ekki ólíklegt, ef sá vegur verður lagður, að við Svínadal mundu verða reistir sumarbústaðir, þegar tímar liða. En sá aukni ferðamannastraumur, sem ég hér geri ráð fyrir, mundi bæði auka þörfina fyrir símasamband og tekjuvonir af því. Ég hefi talað við landssímastjóra og hann við samgmn., og mælti hann með brtt.