02.12.1933
Efri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (1288)

63. mál, áveitur

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Þegar þess er gætt, að áveitur hér á landi, sem fleiri en ein og ein jörð búa að, eru þegar orðnar svo víða og svo stórar, að þær jafnvel ná yfir 20 þús. hektara lands, þá verður tæplega hjá því komizt að athuga, hvernig sé um viðhald þeirra og umsjá, hvort því sé í raun og veru sá gaumur gefinn, sem nauðsyn krefur. Þegar athugaður er undirbúningur áveitnanna, stofnun þeirra og framkvæmd til að byrja með, eru lagaákvæðin samfelld og greinileg. Flóaáveitan er t. d. byggð á mjög ýtarlegri löggjöf frá 1917 og héraðssamþ. og áveituverkið sjálft er framkvæmt af hinum færustu mönnum, með nákvæmni og samvizkusemi. Sama er að segja um ýmsar aðrar áveitur; þær eru byggðar á samfelldum, heilsteyptum lagaákvæðum, vatnalögum og samþykktum, svo alltaf er á vísan að róa, hvernig til þeirra er stofnað. En þegar svo kemur að þeim ákvæðum, sem eiga að fjalla um viðhald og umsjón áveitnanna, er allt á dreifingu, sem illt er að átta sig á. Í Flóaáveitulögunum segir að vísu, að umsjá áveitunnar skuli falin manni, sem atvmrh. samþykkir, en svo er ekki meira um það sagt, hvernig t. d. umsjá áveitunnar skuli hagað. Til þessa verks hefir nú að undanförnu valizt maður, sem að öllu leyti er mjög góður og gegn, en eigi að síður eru þessi ákvæði svo skörðótt, að þau virðast ekki viðunandi.

Að því er snertir Skeiðaráveituna eru ákvæði um umsjá og viðhald hennar einnig mjög ófullkomin; þar er sérstakt eftirlit og yfirumsjá; þannig er það einnig um Miklavatnsmýraráveitu og aðrar samáveitur, sem gerðar hafa verið með ríkisstyrk. Ég teldi miklu heppilegra, að einum og sama manni væri falið yfireftirlit með öllum þessum stóru áveitum, sem liggja svo að segja hlið við hlið. Væri t. d. valin til þess maður frá Búnaðarfélagi Íslands, gæti hann haft einnig á hendi mælingar fyrir smávatnsveitur fyrir bændur o. fl.

Auk þeirra þriggja áveitna, sem ég hefi nefnt her, eru viðar allstórar áveitur, eins og t. d. í Skagafirði og Húnaþingi, og færi bezt á, að yfirumsjá allra slíkra áveitna væri sameiginleg; á þann hátt fengist bezt trygging bæði fyrir þá, er að áveitunum búa, og ríkið, sem þar á mikilla hagsmuna að gæta, að allt fari ekki í handaskolum.

Til nokkurrar sönnunar því, hversu viðurhlutamikið ýmsum þykir að hafa eftirlitið, með áveitunum svona á dreifingu, má geta þess, að á aðalfundi Flóaáveitufélagsins hefir hvað eftir annað komið fram og verið samþ. till. um heilsteyptara skipulag í þessum efnum. En þar er áveitan stærst, og því auðsæjast, hve mikið er í húfi. Og það er hægt að vísa til margs fleira, sem bendir í þá átt, að fyrirkomulagið þurfi að bæta og breyta því í heilsteypt og öruggt skipulag. Í þáltill. felst bending til stj. um að fela Búnaðarfél. Ísl. yfirumsjón með áveitunum. Ég vil taka fram, að þetta er engin tilviljun, að bent er á Búnaðarfél. Ísl. Þetta er ekki samskonar tilvísun og oft á sér stað, þegar verið er að fela stj. að undirbúa eitthvert mál, að há er henni boðið að leita aðstoðar og álits fleiri og fyrri félaga og stofnana og einstaklinga, rétt eins og stj. sjálfri geti ekki með nokkru móti dottið í hug að leita til þessara aðilja. Ég tel þetta orðinn hreinasta óvana og hortitt í okkar lagagerð. Það er eins og hér sé einhver hottentottastjórn við völd, en ekki víðsýnir og menntaðir Íslendingar. Nei, þessar bendingar þarf ekki að setja inn í svo margar þáltill. og lagafrv. Þetta er nú aðeins innskot til mótsetningar því, sem hér er ætlazt til um beina íhlutun Búnaðarfél. Ísl., sem er ekkert handahófsinnskot í þessari till., heldur sett þar fyrir það eitt, að það er sérstök nauðsyn og ástæða til þess að fela Búnaðarfél. þetta starf, því er nú einu sinni þannig háttað, að mál sem þetta kemur heim við það hlutverk, sem Búnaðarfél. er ætlað að vinna. Þess vegna er skorað á ríkisstj. að fela félaginu undirbúning að skipulagningu og síðan yfirstjórn áveitnanna. Það munu máske heyrast raddir um það, hvort Búnaðarfél. hafi vinnukraft til þess að bæta við sig þessu starfi. Því skal ég engu um svara, en ég segi bara, að Búnaðarfél. má ekki skorta vinnukraft til slíks. Ég sé ekki betur en að því sé trúað fyrir svo þýðingarmiklu starfi, að félagið megi ekki skorta mannafla til skyldustarfa sinna. Landslýðurinn verður að geta leitað með fullu öryggi til þeirrar stofnunar, og þangað og ekki annað á að vera að leita um verklega og fræðilega yfirumsjá stóráveitnanna. Það, sem því hefir vakað fyrir mér og hefir komið fram á fundum á áveitusvæðunum, er þetta, að Búnaðarfél. verði gert að hafa yfirumsjón með stóráveitunum. Þar er ekki endilega átt við, að það skuli hafa hið svo að segja daglega eftirlit með flóðgörðum og skurðum, heldur er starf þess allt annað. Það þarf menn með yfirgripsmikilli þekkingu til þess að leggja á ráðin og leiða verkin. Þó stóráveiturnar fyrir austan séu ekki orðnar gamlar, þá er þegar greinilega komið í ljós, að stíflugarðar og skurðir eru farnir að bila og að þeir þurfa viðhald, og einhverjir verða að raða þar fyrir og sjá um framkvæmdir, svo að niðurstaðan verði ekki sleifarlag og tjón. Þess vegna þarf sameiginlega umsjón með þessum stóru og dýru mannvirkjum, umsjón, sem rækt er af þekkingu og alúð. Það er eins með þessi mannvirki og t. d. hús, sem byggð eru, eða jarðir, að þau verðmæti hrörna fljótt, ef viðhaldið vantar. Og með fyrirtæki eins og stóráveiturnar, sem búið að vera verja í milljónum kr. úr ríkissjóði, má það ekki koma fyrir, að viðhald þeirra sé vanrækt. Það skiptir ríkið og einstaklinga afskaplega miklu, að slík verðmæti séu ekki forsómuð. Þetta, um stofnun sameiginlegs yfirlits um meðferð stóráveitnanna, er aðalefni till., og ég vil treysta því, að hv. d. sjái sér fært að ýta á ríkisstj. með að láta semja lög um þetta nauðsynjamál.

Þá er annað atriði till. um samræmingu á greiðslu á stofnkostnaði stórra áveitufyrirtækja. Það er m. ö. o. að mér finnst rétt, eins og till. ber með sér, að þar sem Flóabændurnir fengu á síðasta þingi mikilsverða og þakkarverða liðkun sinna áveitumála, er komin voru í hinar mestu ógöngur, þá sé einnig sjálfsagt að líta á það, hvort ekki væri sanngjarnt, að aðrar áveitur, sem líkt stendur á um, en búa nú að öðrum og miklu lakari greiðslukjörum, kæmust undir sömu eða svipuð ákvæði og Flóaáveitan, ef ríkissjóður sæi sér fært að samræma á þann hátt viðhorf sitt gagnvart þessum fyrirtækjum. Um þetta atriði skal ég svo ekki fara fleiri orðum, en treysti þar sanngirni þings og stjórnar.

Síðasti liður till. er um það, hvort ekki þætti tiltækilegt að stofna tilraunastöð á áveitusvæðunum. Þetta mál hefir oftlega verið rætt á áveitufundum, þar sem það hefir verið einróma álit fundanna, að ráð væri nauðsynlegt. Á búnaðarþingum hafa og hvað eftir annað verið gerðar um það ályktanir, en þær hafa ekki verið ákveðnari en svo, að allt hefir runnið út í sandinn. Það hefir verið ágreiningur um það, hvar slík stöð ætti að standa, hvort hún ætti að vera á hinum stóru áveitusvæðum austanfjalls eða í Borgarfirði, í sambandi við búnaðarskóla, miðast við áveitur eða búskap almennt o. s. frv. Ég ætla ekki að blanda mér inn í. þá deilu, en vil aðeins minna á það, eins og drepið er á í grg. till., að þetta er af búendum á áveitusvæðunum talin ákaflega mikil nauðsyn, vegna hinna stöðugu breyt. þar, bæði á graslagi vegna áveitu, af breyttum búnaðarháttum, þar sem sauðfjárræktin er að leggjast niður, en nautgriparæktin að koma í staðinn. Vegna þess og fleira, er mætti telja, vantar bændurna jafnóðum góðar og faglegar leiðbeiningar. Til þess að gefa þær þarf kunnáttumenn, sem sjálfir leggja hönd á plóginn. Ég býst við, að allir sjái það, að hér er um brýna nauðsyn að ræða. Mér er alveg sama um það, hvort hér væri horfið að því að setja upp tilraunastöð eða tilraunabú. Með tilraunastöð meina ég stofnunina með þrengra starfsviði og hugsa mér hana rekna með hin sérstöku áveitumál fyrir augum, en tilraunabú á að merkja fyrirtæki í stærri stíl, og að verksvið þess nái út fyrir áveitusvæðin að öllu því, er til slíks búskapar heyrði. Höfuðatriðið er, að stjórn tilraunanna sé sæmileg og til ávinnings til þekkingar í áveitumálum. Ef hinsvegar ekkert er gert til þess að fá tryggilega reynslu kunnáttumanna á þessum efnum, þá myndast meðal fólksins, vegna þekkingarleysisins, einskonar hjátrú og hleypidómar um þessi vafaatriði í búskapnum, sem upp koma vegna mikilla breyt. á búnaðarháttum. Bændur vita ekki, hvernig fóðra á nautpening á því heyi, sem áður var notað handa sauðfé, hvaða hlutföll eru heppilegust í fóðurblöndun, hverjar hreyt. verði á gildi heysins vegna graslagsbreytinganna o. s. frv. Ef ekkert er til að styðjast við í þessu efni, þá þróast hleypidómarnir og svo myndast einhverjar handahófsreglur um þessi atriði, sem engin trygging er fyrir, að nálgist það, sem réttast er. Hvaða leið yrði nánar ákveðin í þessu efni, skal ég ekki ræða frekar, en ég vona, að hv. þdm. sé ljóst, að þekking og handleiðsla, er að þessu lýtur, hafi afarmikið að segja í smáu sem stóru.

Ég get svo látið máli mínu lokið, en ég treysti því, að hv. þd. sjái sér fært að samþ. till. í heild sinni. Þó ég hinsvegar leggi aðaláherzluna á fyrsta atriðið, þ. e. a. s. stofnun á samfelldu eftirliti eða umsjá áveitnanna, þá tel ég einnig hin síðari atriði till. mjög þýðingarmikil.