05.12.1933
Sameinað þing: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (1696)

80. mál, Eiðarskólinn

Páll Hermannsson:

Það vill svo til, að 1. flm. þessarar till., hv. 1. þm. S.-M., er ekki viðstaddur. Verð ég því að koma í hans stað og láta fylgja þáltill. nokkur orð. — Það hefir verið svo á undanförnum árum, að uppi hefir verið nokkur meiningamunur hjá þjóðinni um alþýðuskólana. Þetta er eðlilegt, einkum þegar litið er á það, að í þessum efnum hafa orðið stórstígar framkvæmdir og breyt. á síðasta áratug. Það er eðlilegt, að allir hafi ekki verið jafnvongóðir og vissir um, að alþýðuskólarnir myndu svara þjóðinni aftur þeim tilkostnaði, sem í þá hefir verið lagður. Þótt svona hafi verið, býst ég við, að flestir játi nú orðið þann þýðingarmikla þátt, sem alþýðuskólarnir eiga í lífi þjóðarinnar, sér staklega þess hluta hennar, sem í sveitunum býr. Ég verð að líta svo á, að svo sé nú komið, að alþýðuskólarnir komist ekki lengur undan því að svara þeirri spurningu, hvort þeir muni verða við þeim vonum, sem ýmsir hafa til þeirra borið, eða hið gagnstæða. En til þess að réttmætt sé að óska eftir réttu svari frá skólunum um þetta, verður tvennt að vera fyrir hendi: Í fyrsta lagi þurfa skólarnir að eiga velvild og skilning fólksins, sem að þeim býr, fólksins, sem á að njóta þeirra og þá líka eðlilega að styðja þá. Í öðru lagi þarf útbúnaður skólanna ytra og innra að vera þannig, að þeir geti leyst hlutverk sitt af hendi. Þegar litið er á þann skóla, sem þessi þáltill. fjallar um — Eiðaskólann —, þá vil ég virða fyrir mér og skýra frá, hvernig þessum tveim atriðum er háttað þar, þ. e. a. s. hvernig fólkið hefir búið að skólanum fyrir sitt leyti og hvernig hann er útbúinn frá hendi þeirra, sem það áttu að annast. Eiðaskóli er eiginlega elztur alþýðuskóli hérlendis. Hann tók til starfa arið 1919. Hann hvílir á l. settum 1917, og um hann er það að segja, að hann var sóttur svo, að hann var alltaf yfirfullur fyrstu árin. Varð að vísa frá mörgum umsækjendum og stundum eins mörgum og hægt var að taka við. En þetta breyttist eftir að fleiri alþýðuskólar risu upp, og ekki sízt vegna þess, að hinir nýju skólar voru að ýmsu leyti grun betur úr garði gerðir. Og svo var skólinn kominn djúpt niður arið 1932, að útlit var fyrir, að honum yrði að loka vegna þess að engir sóttu um hann. Það kom til orða jafnvel í sjálfu stjórnarráðinu að loka þessari menntastofnun. Það er ekki hægt að halda skóla starfandi, sem kostar mikið fé, nema hann sé sóttur og því einhver líkindi til, að starf hans beri árangur. En það var nú svo um Austfirðinga, að þeir höfðu ekki veitt því eftirtekt til fulls, hvað þeir áttu, þar sem Eiðaskóli var, fyrr en að því var komið, að þeir áttu að missa hann. Ég held, að þetta hafi vakið fólkið til skilnings á því, hve mikils virði þessi stofnun var því. Og eftir að svo var komið, að sama og engar umsóknir lágu fyrir, þá er umsóknarfrestur var útrunninn 1932, var hafizt handa um allar Múlasýslur og vakin hreyfing fyrir því, að skólinn fengi nemendur. Bar það þann árangur, að yngri deild skólans mátti heita fullskipuð og nú er hvert rúm skipað í skólanum. á síðastl. hausti varð að vísa umsóknum frá. Þetta bendir á, að fólkið hefir þörf fyrir þennan skóla og skilur hana. — Eiðaskóli átti 50 ára afmæli á þessu ari. Þar hefir starfað búnaðar- og alþýðuskóli í hálfa öld. Það var fullkomlega ljóst við þau tímamót í æfi skólans, að Austfirðingar kunna að meta þessa menntastofnun sína og vilja ekki missa hana, hvað sem á gengur. En hvernig er þá skólinn útbúinn? Það er um að ræða tvennskonar útbúnað á skóla. Í fyrsta lagi kennslukraftana. Um þá er það að segja, að þeir mega teljast góðir. Þeir hafa a. m. k. alltaf verið það síðan alþýðuskólinn tók til starfa. Og þeir tveir skólastjórar, sem verið hafa við hann. hafa báðir verið ágætir menn, svo að ekki þarf út á það að setja. En það er annað, sem ekki er eins vel úr garði gert. Hinn ytri aðbúnaður er gersamlega ófullnægjandi. Í fyrsta lagi er sú bygging, sem skólinn starfar í, ekki að öllu leyti haganleg. Hún er að vísu allstór, en hún samsvarar engan veginn þeim nýju skólum, sem reistir hafa verið á seinustu árum. Þetta stafar m. a. af því, að skólahúsin voru ekki í byrjun reist með það hlutverk í huga, sem þau nú eiga að inna af hendi. Árið 1907 var reist steinsteypuhús, og átti það að nægja búnaðarskólanum, en hann var einungis hugsaður 1/3 af þeirri tölu, sem nú sækir Eiðaskólann. Árið 1926 var byggt við þetta gamla hús, svo að húsin gætu fullnægt þörfum skólans eins og þær eru nú. En eins og menn skilja, þá er ógætilegt að koma öllu vel fyrir þegar byggt er smátt og smátt. Nú vil ég ekki segja, að byggingarnar á Eiðum nægi ekki sæmilega, en þó vantar þar mjög tilfinnanlega leikfimihús. Ekki hefir skólinn verið betur settur hvað samgöngur snertir. Árið 1930 — hátíðarárið mikla — varð að flytja þangað kol á klökkum. Nú er komið þolanlegt vegasamband, sem nota má þegar jörð er auð. Skólann vantar alveg það náttúruskilyrði, sem langmest mun lyfta undir hina alþýðuskólana, nefnil. jarðhitann, en hann er ekki til yfirleitt á Austurl. Úr þessu verður ekki bætt á annan hátt betur en með rafmagni. Skólinn er hitaður upp með kolum. Þar er engin sundlaug og engin rafhitun. Afleiðingin af þessu er sú, að fólkið, sem vildi sækja að Eiðum, hefir farið annað vegna betri skilyrða þar, og þannig hefir skólinn veslazt upp án þess nokkuð verulegt hafi verið aðhafzt til umbóta. Nú hefir fólkið veitt þessu eftirtekt og það vill ekki láta þessa menntastofnun drafna niður fyrir áhugaleysi hjá sér. Það er upplýst, að samtímis því, að Eiðaskoli stóð nærri tómur, voru um 20 nemendur úr Múlasýslum í öðrum alþýðuskólum, og ég veit vel, hvers vegna þessir nemendur fóru ekki að Eiðum. Það var ekki af því, að þeim þætti ekki eins vænt um Eiða, og ekki heldur af því, að þeir vantreystu kennslukröftum skólans, heldur af því, að þar vantaði skilyrði, sem aðrir skólar höfðu. Ég hitti ungan mann frá einu bezta heimilinu á Austurlandi. Hann sagði mér í vor, að hann ætlaði í Laugarvatnsskólann. Ég spurði, hvers vegna hann færi ekki heldur að Eiðum. Á Laugarvatni er sundlaug, var svarið. Merkur alþýðuskólastjóri hefir verið spurður til ráða um, hvernig ætti að auka aðsóknina að Eiðum. Byggið þið sundlaug og byggið þið rafstöð, ráðlagði hann hiklaust. Án þess er vonlaust að auka aðsóknina.

Þessum góða skólamanni skjátlaðist að því leyti, að skólasókn hefir nú aftur aukizt að Eiðum, án þess að þar hafi komið sundlaug eða rafstöð. En ég býst við, að hún vari ekki nema um stundarsakir og að álit skólamannsins hafi verið rétt, þegar lítið er á framtíðina. Ég verð að líta svo á, að hv. Alþingi verði að virða mjög mikils áhuga manna á Austurlandi, sem hefir orkað því, að skólinn, sem áður var nálega tómur, hefir nú verið endurreistur og er fullskipaður, án þess að nokkuð hafi verið að því stutt af hinu opinbera. Ég álít, að Alþingi eigi að sjá svo um, að eini skólinn í þessum landsfjórðungi sé ekki svo illa útbúinn, að það ýti unga fólkinu burt úr héruðunum til náms á öðrum skólum, og þá sumu algerlega úr landsfjórðungnum í bráð og lengd. En það rekur að því aftur, að fólkið sækir burt, ef ekki verður hafizt handa og Eiðaskóli gerður samkeppnisfær við hina aðra alþýðuskóla. Það vita allir, að sundíþróttin verður oft til þess að bjarga lífi manna. Og það er einmitt gott að kveikja þrá hjá unglingum til hollra íþróttaiðkana; það þroskar þá og hjálpar þeim á öðrum sviðum.

Ég er enganveginn á móti því, að útþráin fýsi unga menn til þess að sækja skóla í fjarlægum héruðum. En ég hefi mikið á móti því, að ungmennin sópist mjög burt úr einum landshluta til náms, án þess að nokkrir komi þangað í staðinn. Ég ætlast ekki til, að námsfólk í Múlasýslum hætti að sækja skóla annað en að Eiðum, en ég ætlast til, að þangað verði líka sótt úr öðrum landshlutum, þegar búið er að búa þann skóla eins vel úr garði og hina héraðsskólana. Ég lít þess vegna svo á, að það sé skylda Alþingis að víkjast svo vel við þessu máli, að Eiðaskóli verði fyllilega samkeppnisfær við hina skólana. Það er tvímælalaust lagaskylda. Ríkið á skólann og Eiðaeignina alla og hefir undirgengizt að reka á Austurlandi skóla og búa skólann sem bezt úr garði. Nægir þessu til sönnunar að benda á stofnlög skólans: lög nr. 36 frá 26. okt. 1917. Þar er svo að orði komizt í 1. gr., að Múlasýslur afhendi landssjóði Eiðastólseignir, og að landssjóður taki við þeim „með því skilyrði fyrir afhendingunni, að landssjóður starfræki framvegis á Eiðum, eða á öðrum hentugum stað í Múlaþingi, vel útbúinn æðri alþýðuskóla, er samsvari kröfum tímans“. Ég ætlast ekki til, að Eiðaskóli verði fyrst um sinn rekinn sem æðri menntastofnun. En skólinn svarar alls ekki kröfum tímans nú. Austfirðingar ætlast til, að svo verði og gera kröfu til Alþingis um ráð.

Í þáltill. þeirri, sem fyrir liggur, er tvennskonar efni. Í fyrsta lagi er ætlazt til þess, að stj. láti rannsaka og gera áætlanir um nokkrar umbótaframkvæmdir á Eiðum á næsta sumri. Þessar framkvæmdir eru rafstöð, sundlaug og leikfimihús við skólann. Í öðru lagi er ætlazt til, að stj. taki upp í fjárlfrv., sem hún leggur fyrir næsta þing, fjárveitingu til þessara framkvæmda.

Við flm. þáltill. förum fram á þetta af þeirri ástæðu, að það er ósk okkar og fullkominn vilji, að stj. hafi þessa fjárveitingu í huga strax og byrjað er að undirbúa fjárl. fyrir árið 1935. Það er meiningin að ýta svo á eftir þessu máli, að það verði helzt að öllu leyti unnið að þessum framkvæmdum á árinu 1935. Hinsvegar liggur það í hlutarins eðli, að öll fjárframlög til framkvæmdanna verða að ákveðast af því nýkosna fjárlagaþingi, sem væntanlega verður háð síðari hluta næsta árs.