30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

2. mál, kosningar til Alþingis

Eiríkur Einarsson:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. við 27. lið a. í brtt. hv. stjskrn., og lýtur hún að útreikningi til uppbótarsæta í tvímenningskjördæmum. Ég vildi gjarnan víkja að skýringu þessa málsatriðis nokkrum orðum áður en gengið verður til atkv. um tillögurnar, og sný ég mér að því einu, því að aðrir munu verða til að tala um önnur atriði frv. og brtt., er ég get leitt hjá mér. Þegar samin var breyt. á stjskr., var það gert með þeirri aðalhugsjón, að lýðræðið væri haft í öndvegi og jafnframt gætt eftir sem áður réttar hinna dreifðu landsbyggða. Þetta hefir verið efnt svo vel og skipulega, að hin gamla kjördæmaskipun hefir verið látin haldast, þótt miklar breyt. hafi orðið um fólksfjölda í mörgum kjördæmanna, sem eru orðin næsta fámenn, en önnur aftur vaxin til fjölmennis. Engar undantekningar hafa verið gerðar frá þessu; markmiðið er, að kjördæmin njóti sem allra bezt réttar síns, þannig að minnstu kjördæmin, eins og Seyðisfjörður, A.-Skaftafellssýsla, Strandasýsla o. s. frv., halda eftir sem áður óskertum rétti sínum til að hafa fulltrúa á þingi, jafnt og hin stóru og fjölmennu einmenningskjördæmi, t. d. Gullbringu- og Kjósarsýsla, og hin sama meginregla átti auðvitað einnig að gilda um tvímenningskjördæmin. Þar átti eigi heldur neinu að halla um hið gamla fulltrúaval. En þegar ég tek þetta til athugunar og ber fram brtt. við hið fyrirhugaða skipulag um uppbótarþingsæti, þá er það af því, að mér virðist til muna hallað rétti tvímenningskjördæmanna. Skýlaus réttur þeirra er, að þau séu hvorki betur né lakar sett en önnur kjördæmi hlutfallslega. Og nái það jafnrétti jafnt til hinna hreinkosnu fulltrúa og aðstöðunnar til uppbótarþingsæta. En í frv. eins og það hefir nú verið afgr. frá hv. Nd. er gengið inn á þennan rétt með tvennu móti. Það er fyrst, að kjósendur í tvímenningskjördæmum mega velja á milli, hvort þeir vilja heldur kjósa einn eða tvo fulltrúa. Þetta má að vissu leyti kalla réttarbót, en það er nokkur truflun samfara því, að frambjóðendurnir hafa ekki báðir vissu fyrir því, að þeir verði studdir saman, heldur að hægt sé að agitera á víxl. Þetta vil ég álíta, að hafi nokkra skerðingu í för með sér fyrir gagnkvæmt öryggi flokksframbjóðenda, og álít ég því heimildina galla.

Þá er einnig annað, sem er bein skerðing á sjálfsögðum rétti, að það er útilokað, að flokkur, sem ekki hefir náð fulltrúa í þingsæti í tvímenningskjördæmi, fái nema eitt uppbótarsæti. Dæmi þessa misréttis með einmennings- og tvímenningskjördæmum, er kemur fram í þessu, er fljótfundið. Við getum tekið 2 jafnfjölmenn kjördæmi, t. d. Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu. Húnavatnssýsla hefir notað lagaheimild þá, sem er til, og skipt sér í 2 kjördæmi, en Skagafjörður ekki, svo að Húnavatnssýsla er 2 kjördæmi, en Skagafjörður tvímenningskjördæmi eins og áður. Nú geta menn hugsað sér, að sami flokkur nái báðum aðalþingsætunum í Húnavatnssýslum, en annar flokkur sé þar aðeins lítið eitt liðfærri og standi mjög nærri því að hafa komið fulltrúum að. Þá er ekkert því til fyrirstöðu, að sá flokkur fái 2 uppbótarsæti. En eftir reglum frv. er útilokað, að Skagafjörður verði hins sama aðnjótandi, þó að atkvæðatölur væru hinar sömu og í Húnavatnssýslu. Mér finnst, að með þessum ákvæðum, sem komin eru inn í kosningal.frv., sé áhallinn orðin nógur og sé þar engu við að bæta. En eftir brtt. stjskrn. er haldið áfram að halla rétti tvímenningskjördæmanna með því, að þegar annar frambjóðandi flokks í tvímenningskjördæmi nær kosningu, þá nálgast það að vera útilokað, að hinn frambjóðandinn frá sama flokki fái uppbótarsæti. Þetta stafar af því, að deila á með 2 í samseðlatölu tveggja frambjóðenda. Svo að ef frambjóðandi, er keppir um uppbótarsæti, fær 700 atkv. sameiginleg með öðrum, getur hann ekki haft not af nema 350. Að vísu má samkv. umræddum lið brtt. stjskrn. skeyta við hann, svo að öll atkv. koma honum að liði, ef hans flokkur kom engum að sem aðalþingmanni. En lengra nær það ekki. Sé svo litið á mismuninn, sem er í þessum efnum á Húnavatnss. og Skagafirði, til að halda því dæmi, þá er þarna um skýlaust misrétti til uppbótarsæta að ræða. Hv. frsm. n., 1. landsk., sagði, að þetta ætti að skilja svo, að eins og deila á með 2 í atkv. þess, sem næst stendur, eins sé deilt með 2 í atkvæðatölur hinna flokkanna, og náist hlutfallstalan þannig sem réttust. En ég get ekki séð, að þessi skýring sé skráð í brtt., svo að ég get ekki tekið hana til greina. Enda helzt misréttið gagnvart einmenningskjördæmum óbreytt eftir sem áður. Ég veit, að í sumum af hinum núv. tvímenningskjördæmum verður það illa tekið upp, þegar það skýrist fyrir kjósendum, að þeir séu álitnir einskonar annars flokks vara; en það verða þeir, ef þessari aðferð á að beita.

Ýmsir kunna nú að segja sem svo: Frá mínu sjónarmiði getur okkar flokkur ekki beðið neinn skaða af þessu. En stjórnmálaflokkar þessa lands eru eigi fremur en annarsstaðar nein eilífðarblóm, og það, sem gerist þessum þingflokki í hag þetta árið, getur orðið honum að tjóni næsta ár. Þingmenn eru skyldugir til þess að fara eftir sanngjörnum grundvallarreglum í löggjafarstarfinu. Og ég skil ekki, að nokkur þm. kosinn í tvímenningskjördæmi ljái þessari brtt. sitt fylgi, eins og í haginn er búið af stjskrn. Hv. 1. landsk. sagði, að tvímenningskjördæmin væru vön að kjósa tvo fulltrúa; það er alveg rétt, enda telja þau það sinn fulla lagarétt. 2000 kjósendur í Árnessýslu hafa jafnmikinn rétt til tveggja fulltrúa á þing eins og 1000 í annari Húnavatnssýslu og 1000 í hinni. Þessari brtt. stjskrn. var ekki ymprað á fyrr en á síðustu stundu, og getur slíkt þá orðið meinlegt og skotið skökku við. Ef hin svo nefnda „víxl-regla“ leiðir til þess, sem hún eflaust gerir, að lítil kjördæmi geti átt von á uppbótarsæti, þá má ekki skerða rétt kjördæma með mikið atkvæðamagn, svo sem tvímenningskjördæmin, til þess að tryggja sér sinn rétt eftir reglunni um annaðhvert sæti eftir atkvæðamagni. Frá kjósenda sjónarmiði er þetta eingöngu sjálfsögð krafa um, að tvímenningskjördæmin fái að njóta jafnréttis við einmenningskjördæmin. Menn gætu haldið, að tvímenningskjördæmin væru svo á fallanda fæti, að þau ættu ekki rétt til sömu aðstöðu og lítil einmenningskjördæmi. En ég get lýst þeim í stuttu máli. 2 þeirra eru austanfjalls og eru ein blómlegustu héruð á landinu. 2 þeirra eru meginið af einum landsfjórðungi, Múlasýslurnar, og 2 af þeim, Skagafjörður og Eyjafjörður, eru blómleg héruð og kjarni Norðlendingafjórðungs. Auðvitað er ekki til annars ætlazt en að þau haldi sínum rétti að kjósa 2 fulltrúa, en ég álít, að þeirra réttur eigi einnig að vera jafn til uppbótarsæta og einmenningskjördæmanna. Að því miðar brtt. mín á þskj. 237, að svo megi verða.