04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Björn Kristjánsson:

Við 1. umr. þessa máls hér í d. kom það fram, að ég ætla hjá hv. 3. landsk., sem mótmæli gegn þeim stað, sem ég hafði tilnefnt, sem sé Raufarhöfn, að þar væri verksmiðja starfandi fyrir. Nú hefi ég náttúrlega enga tryggingu og e. t. v. heldur litla von um, að þessi staður verði valinn fyrir þá væntanlegu verksmiðju, sem hér er um að ræða. Þess vegna og líka af því, að mjög óvíst er um rekstur verksmiðjunnar á Raufarhöfn framvegis, hefi ég leyft mér að bera fram brtt. við þetta frv., þar sem farið er fram á að bæta inn í það heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að kaupa Raufarhafnarverksmiðjuna og láta reka hana áfram.

Ég sýndi fram á það við 1. umr., hvað nauðsynlegt væri, að síldarverksmiðja starfaði áfram á Raufarhöfn, bæði vegna ríkissjóðs og þeirra, sem þar búa. Þrátt fyrir það, þó verksmiðjur séu starfandi á Siglufirði, Krossanesi og Vestfjörðum, hefir reynslan sýnt, að þær allar til samans hrökkva hvergi nærri til að vinna úr öllu síldarmagninu, þegar vel veiðist. Ég vil nú bæta því við það, sem ég tók fram við 1. umr., að það getur verið mjög heppilegt fyrir síldveiðiskipin, að verksmiðjurnar séu ekki mjög nærri hver annari. Að vísu er nú alllangt á milli verksmiðjanna á Siglufirði og Vestfjörðum, og má því segja, að skip, sem veiða á Húnaflóa, hafi um tvo staði að velja, þegar þau vilja selja afla sinn. En aftur af svæðinu frá Eyjafirði og austur um land er langt til verksmiðju, ef Raufarhafnarverksmiðjan leggst niður. Ég hefi talað um þetta við síldveiðimenn á Akureyri, og þeir voru sammála um, að mjög heppilegt væri að hafa verksmiðju starfandi þarna eystra, svo skipin ættu aðgang að henni, þegar veiði er þar í nánd.

En horfurnar fyrir rekstri þessarar verksmiðju eru mjög óvissar. Hún hefir alltaf verið í eigu norskra manna. Fyrir tveim árum urðu eigendaskipti, því fyrri eigandinn var kominn í fjárþrot. Tók þá við verksmiðjunni firma í Noregi, sem hefir rekið hana síðan. Það firma er að vísu öflugt fjárhagslega, svo ekki er frá því sjónarmiði hætta á, að það þurfi að hætta rekstrinum. En það kvartar um, að það hafi mjög erfiða aðstöðu á Raufarhöfn, og þá sérstaklega, að erfitt sé að fá íslenzk skip til að gera samninga um síldarsölu. Það er mjög takmarkað, sem verksmiðjan má kaupa af norskum skipum. Hún má ekki taka af þeim nema 60% af þeirri síld, sem hún vinnur úr, og það, sem verst þykir, er, að hún má aldrei hafa keypt meira af þeim á neinum tíma heldur en 60% af því, sem hún þá hefir tekið á móti. Nú getur farið svo t. d. framan af síldveiðitímanum, að ekki berist að eins mikið af síld eins og verksmiðjan getur tekið á móti, og þó þá bjóðist nóg af síld af norskum skipum, má hún ekki kaupa hana nema íslenzku skipin komi jafnhliða. Út af þessu hafa núv. verksmiðjueigendur látið í ljós, að litlar horfur væru á, að þeir vildu halda áfram rekstrinum. Og geri þeir það ekki, er sjáanlegt, að verksmiðjan leggst niður, ef ríkið kemur ekki til sögunnar, því það eru engir þarna nærlendis, sem líkur eru til, að mundu treysta sér til að kaupa og reka verksmiðjuna. Þess vegna ber ég fram þessa till.

Um þörf Raufarhafnarbúa á því, að verksmiðjan sé rekin áfram, er það að segja, að þarna hafa á fáum árum safnazt um 200 manns vegna verksmiðjunnar og í því trausti, að hún yrði rekin áfram. Bregðist sú von, er þetta fólk svo að segja dauðadæmt; það verður annaðhvort að vera þarna áfram á kostnað hreppsfélagsins eða flytja burt, sem það mun ekki eiga hægt með. Nokkur bátaútvegur er þarna, en hann er einnig háður verksmiðjurekstrinum, því útgerðin er ekki það mikil, að hægt sé að hafa sérstakan bát til að afla beitu, og því hafa útgerðarmennirnir á Raufarhöfn orðið að treysta því, að þeir gætu fengið beitusíld þegar skipin koma hvort sem er með síld til verksmiðjunnar. Um leið og þau sund lokast er bátaútvegurinn einnig dauðadæmdur á þessum stað. Hér er því um mjög mikla nauðsyn að ræða, bæði fyrir síldarútveginn í heild, og þó sérstaklega fyrir þá, sem þarna eru búsettir.

Nú hefir á þessu þingi verið auk þessa frv. flutt þáltill. í hv. Nd. um að heimila ríkisstj. að kaupa síldarverksmiðju á Vestfjörðum, sem er bankaeign. Veit ég ekki betur en sú till. hafi verið samþ., og sýnir það, að hv. þm. er ljóst, hvað nauðsynlegt það er fyrir sjávarútveginn, að þær síldarverksmiðjur verði starfandi áfram, sem starfað hafa að undanförnu. Verð ég að telja þetta meðmæli með minni till. Það verður líka að gæta að því, að hér er ekki einungis að ræða um hagsmuni verkafólks til sjós og lands. Það verður líka að gæta að því, að ríkissjóður hefir allmiklar tekjur af þessari starfsemi. Ég man ekki, hvað útflutningsgjaldið er hátt af síldarafurðunum, en það mun nema af því vörumagni, sem unnið hefir verið á Raufarhöfn, mörg þús. kr., ef ekki tugum þúsunda. Auk þess þurfa þessar verksmiðjur á allmiklum útlendum vörum að halda, og það gefur ríkissjóði einnig beinar tekjur. Ennfremur má benda á, að Eimskipafélag Íslands hlýtur að hafa allmiklar tekjur af flutningi síldarafurðanna, þar sem vörumagnið er mjög mikið.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta, en vona, að hv. d. taki till. minni vinsamlega. Ég skil ekki í, að nein hætta sé á, að frv. dagi uppi eða verði fellt, þó brtt. mín sé samþ., því ég vona, að hv. þm. Nd. sé einnig ljóst, hvað óheppilegt er, að á þessum tíma leggist niður atvinnufyrirtæki, sem rekin hafa verið að undanförnu.

Ég vil bæta því við, að ef þessi till. fæst ekki samþ., sé ég ekki annað fyrir en að Raufarhafnarbúar verði að sækja um atvinnuleysisstyrk til ríkisins. Virðist þó eðlilegra, að fólki sé hjálpað til að lifa af heilbrigðum atvinnurekstri heldur en að veita því atvinnuleysisstyrk í stórum stíl.