23.11.1933
Neðri deild: 17. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (886)

51. mál, strandferðir

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Hæstv. dómsmrh. talaði þannig, að mér skildist, að með þessu frv. væri loku skotið fyrir það, að Eimskipafél. gæti haldið áfram viðskiptum sínum við strendur landsins með farþegaflutninga. Þetta er misskilningur. það er einmitt gert ráð fyrir því, að eins og nú standa sakir geti ísl. ríkið ekki haldið uppi öllum þessum samgöngum og hljóti þess vegna að styrkja aðra aðila til þess að meira eða minna leyti. Og þá mundi Eimskipafél., sem hefir bezta aðstöðuna til þess að taka að sér slíka flutninga, verða fyrir valinu. Þess vegna er það í raun og veru svo, að í þessu frv. út af fyrir sig felst engin tilraun til þess að svo stöddu að breyta því hlutfalli, sem er á milli ríkisins og Eimskipafélagsins. Hér liggur aðeins fyrir að útiloka erlend skip frá því að taka viðskipti, sem íslenzk skip gætu annazt.

Hv. þm. Vestm. gerði nokkuð mikið úr því, að frv. yrði mönnum til óhagnaðar. Ég hygg hann hafi of mikið miðað við þá notkun, sem er á erlendum skipum milli Vestmannaeyja og Rvíkur, en ekki tekið tillit til þess, hvað er almennt hagfelldast fyrir landsmenn í heild. Það getur vel verið, að það sé þægilegt fyrir Vestmannaeyinga að geta þegar svo ber undir skotizt þessa leið með erlendum skipum, en það út af fyrir sig á ekki að geta orðið til þess að útiloka réttláta ráðstöfun, sem yfirgnæfandi meiri hluta landsmanna er hagkvæm.

Þá sagði hv. þm., að það kæmi úr hörðustu átt, að ég flytti þetta frv., þar sem ég væri fulltrúi fyrir Suður-Múlasýslu. En þau ummæli eru á misskilningi byggð, því að þetta frv. miðar að því að auka viðskipti við strandferðaskip ríkissjóðs og þá innlendu aðila, sem halda uppi strandferðum, og bæta hag þeirra. En með bættum fjárhag þeirra, sem stafaði af auknum og betri viðskiptum, mætti einmitt kosta meira til samgangna á lélegri hafnir og láta strjálbýlið njóta góðs af. Og ég skal benda hv. þm. á það, að þessar smáhafnir á Austfjörðum eða annarsstaðar hafa ákaflega lítið gott af þessum erlendu skipum. Það er rétt stöku sinnum, að „Nova“ kemur á nokkrar hafnir á Austfjörðum. Er enginn vafi, að ef þetta frv. verður samþ., þá fengju Austfirðir í staðinn fyrir þessar „Novu“ferðir hentugri og betri ferðir í viðbót við það, sem nú er.

Þá sagði hv. þm., að málið væri ótímabært, af því að svo lítill væri kostur farartækja. Er hægt að kalla þetta ótímabært meðan við látum okkar farartæki liggja ónotuð? því er ekki hægt að mótmæla, að meðan svo er, þá er óeðlilegt, að erlendum mönnum haldist uppi að sækja hingað viðskipti í þessari grein. Og ég hygg, að það væri miklu nær fyrir okkur Íslendinga að reyna að bæta við skipastólinn, til þess að geta orðið fyllilega sjálfum okkur nógir í þessu efni, því að við getum aldrei látið viðskipti við stóru hafnirnar bera uppi hallann af viðskiptunum við smáu hafnirnar, fyrr en viðskiptin öll eru í íslenzkum höndum. Það er ekki hægt meðan útlendingum er gert mögulegt að taka af okkur betri viðskiptin, en við sitjum uppi með þau lélegri. Þess vegna vænti ég, að þótt smágallar séu á frv., þá fái það lagfæringu í nefnd, en að „principinu“ verði ekki að neinu raskað.