17.12.1934
Efri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

7. mál, gengisviðauki

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég vona, að ég þurfi ekki að misnota rétt minn, þar sem þetta á aðeins að vera aths., eftir því sem hæstv. forseti segir, en ég held, að það hefði verið hægt að telja mínu fyrstu ræðu það. Þó mun ég nú reyna að verða stuttorður. Ég vildi aðeins svara hv. 4. landsk. nokkrum orðum. Mér þykir vænt um það, hvernig hann bregzt við þessu máli, ég var að vorkenna honum að þurfa að fylgja því, en hann ber sig bara mannalega og sýnist ekki skorta kjark til þess að fylgja nú því máli, sem hann áður hefir barizt gegn og flokksmenn hans, því ómögulegt er að neita því, að í þessu máli ganga þeir ekki einu sinni þvert á móti fyrri ræðum sínum og atkvgr., heldur algerlega gegn sinni stefnu. Það mætti minna á hin gífurlegu ummæli þessara manna um verðtollinn, þennan ránsfeng, þessa blóðsugu, sem þeir hafa kallað hann, þennan svívirðilega og gífurlega rangláta skatt á fátæklingunum. Það er ómögulegt annað fyrir hjartagóða menn eins og mig en að kenna í brjósti um þessa menn nú, fyrir að beita sér nú fyrir slíku máli. Hér þýðir ekki að benda á, að þetta þurfi að samþ. af því það vanti tekjuauka. Hv. Alþfl.menn hafa nú ekki verið í vandræðum, þó svo hafi staðið á fyrri. Þeir hafa bent á beina skatta. Þeir hafa meira að segja haldið því fram, að það ætti ekki að hafa neina tolla, heldur aðeins beina skatta. Auðvitað áttu þeir að halda hinu sama fram enn, ef þeir vildu vera sjálfum sér trúir, — en hvernig fór? Það verður að segja það eins og það er, að Alþfl. ber skarðan hlut frá borði í skattamálunum í viðskiptum við Framsfl., þó nokkur hækkun hafi verið gerð á tekju- og eignarskattinum. Hv. þm. sagði, að það væri mest undir því komið, hvernig skattinum væri varið. Ef honum væri varið rétt, þá hefði það ekki eins mikla þýðingu, hvernig hans væri aflað, og okkur ætti að vera nóg að heyra þetta. Hv. þm. sagði, að Sjálfstfl. hefði á síðasta þingi beitt sér á móti verðtollinum af skattapólitískum ástæðum. Þetta er ekki rétt. Sjálfstfl. notaði þetta mál þá til þess að knýja fram annað mál hér í þessari hv. d. Það var stjórnarskrármálið, þó það kannske hafi ekki verið notað eins lengi sem svipa á það mál eins og átt hefði að vera.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um innflutningshöftin og gjaldeyrishöftin, þá er það um innflutningshöftin að segja, að í raun og veru eru þau afnumin með samningunum við Spánverja. Og við önnur viðskiptalönd okkar hér norður í álfunni verður alls ekki fullkomlega hægt að beita innflutningshöftum. Ég hygg, að stj. hljóti að sjá, að gagnvart Ítölum getum við það ekki heldur. Við kærum okkur líklega ekki svo mjög um nýja samninga við Ítali. Auk þess er það þjóð, sem hefir miklu betri aðstöðu til að útvega okkur flestar þær vörur, sem við þurfum á að halda. Ég játa það, að gjaldeyrishömlur ná ekki heldur þessum tilgangi, að loka úti erlendan varning, en þær geta gert það tvennt, að beina viðskiptum okkar að vissum þjóðum og að halda uppi verði á okkar gjaldeyri. Hitt skal ég fúslega játa, að gjaldeyrishömlur gera ekki sömu verkanir í framkvæmdinni og innflutningshöft, því það er ekki alltaf hægt að neita að greiða áfallnar skuldir í útlöndum. En þetta sannar það, að ef á að bæta greiðslujöfnuðinn við aðrar þjóðir, þá mun það koma á daginn, að til þess er ein leið, og aðeins ein, og hún er sú, að spara. Ég hefi kallað það að minnka kaupgetuna. Það er yfirleitt óvinsælt orð að segja mönnum að spara, en það er þó það ráðið, sem alviðurkennt er, að rétt er og hvergi skeikar. Kenningar hæstv. ráðh. um það, að auka beri kaupgetuna í landinu og svo eigi að loka hana inni, er ekkert nema hreinasta fjarstæða. Kaupgeta sem orsakast fyrir blómgun atvinnuveganna, er góð, en kaupgeta, sem framkölluð er með sérstökum ráðstöfunum, er auðvitað hreinasta vitleysa.

Hæstv. ráðh. sagðist ætla að bæta verzlunarjöfnuðinn við útlönd á einu ári. Ég ætla að bíða og sjá, hvernig hann stendur við orð sín. Ég veit, að reyndin verður sú, að eftir árið stöndum við einu ári nær gjaldþroti en áður, — hinu óumflýjanlega þjóðargjaldþroti. Það er alveg rétt hjá hv. 4. landsk., að ósýnilegum skuldum verður hrúgað upp erlendis þangað til við erum komnir í þrot. Þess vegna verður að skera niður útgjöld ríkisins. Valdaflokkar þingsins hafa nú tekið það ráð að afla sér vinsælda með því að auka útgjöldin, auka kaupgetuna, reynt að fleyta þjóðarbúinu áfram á ímynduðum möguleikum, — en hve lengi stendur það? Það er alveg eins og kaupmaður, sem er að verða gjaldþrota, færi til, keypti sér loðkápu, pípuhatt og gullúr, ferðaðist um og gisti á fínustu hótelum, allt til þess að reyna að halda sinn lánstrausti. En það vita allir, hvernig þetta endar. Kaupmaðurinn stendur brátt einn uppi með sitt gjaldþrot. Eins er þessu farið með okkar þjóð nú, hún hefir keypt sér dýra loðkápu, hatt og gullúr, hún ber sig ríkmannlega, en hefir litlu úr að spila, og endirinn verður þjóðargjaldþrot. Það er ekki gaman að standa hér á Alþ. og spá þessu, en þessar spár hljóta að rætast, ef þannig heldur áfram sem nú horfir.