17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (1881)

5. mál, útflutningsgjald

Pétur Ottesen:

Eins og menn muna, varð nokkur ágreiningur um það hér í Nd., hvort réttmætt væri að hækka skatt á útflutningi fiskiúrgangs, og varð það ofan á að hækka hann allverulega. Þeir, sem þennan skatt eiga að greiða, kveinkuðu sér mjög undan þessari hækkun, þar sem ekki er um verðmeiri vöru að ræða heldur en fiskbein eru. Það hefir verið gerð tilraun til þess að draga úr þessum skattþunga í hv. Ed. með því að kveða svo á, að útflutningsgjald til bæjar- og hafnarsjóðs eigi að dragast frá, þannig að gjaldið, sem greiðist í ríkissjóð, nemi því, sem á vantar 3 kr. af hverjum 100 kg. Af því að þetta er orðað þannig, vildi ég koma með þann skilning á þessu máli, að það eru vitanlega venjuleg hafnargjöld, sem hér kæmu til frádráttar, þannig að öll hafnargjöld, sem greidd eru af þessari vöru, kæmu til frádráttar hjá þeim, sem þennan skatt greiða.