22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (2237)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Jón Pálmason:

Ég get ekki látið hjá líða að segja örfá orð út af ræðu hv. þm. Ísaf. Hv. þm. sagði, að ég hefði komið eins og álfur út úr hól og ekki skilið, hvað hér var um að ræða. En hv. þm. gáði ekki að því að koma með neina fræðslu um það, sem ég ekki áður vissi. Þar af leiðandi eru þessi ummæli hans gersamlega tilefnislaus og furðulega ósvífin. Þessi hv. þm. ætti líka allra manna sízt að bregða um vanþekkingu eða mælgi, því af hvorutveggja er hann ríkari en flestir eða allir aðrir, sem sæti eiga í þessari deild. Að öðru leyti hefi ég ekkert honum að svara, því hann fór ekki út í það að sýna, að ég hefði á nokkurn hátt sýnt vanþekkingu mína á þessum hlutum, enda er þetta svo einfalt mál, að það liggur ljóst fyrir. Ég hefi að vísu enga sérþekkingu á síldveiðum, en ég hefi hlustað á umr. um þetta mál og fengið þær upplýsingar, sem hv. flm. hafa haft fram að færa, og eftir þeim upplýsingum virðist mér ekki nauðsyn fyrir hendi að kasta þessu fé úr ríkissjóði. Ég játa, að það er rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að þessi tollur á útfluttri síld er ósanngjarn, en þar með sé ég ekki nauðsyn á því að láta lög um lækkun hans verka aftur fyrir sig, eins og hér er farið fram á.

Annars virðist það nokkurn veginn ljóst, eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, hvernig á þessu stendur. Hv. þm. Ísaf. vék að því, sem áður hefir verið upplýst og alkunnugt er, að um þetta hafi farið fram samningaumleitanir fyrir síðustu kosningar, sem hafi leitt til þess, að Alþfl. hafi gefið ákveðin loforð, Framsfl. um þessa greiðslu loðin svör, en Sjálfstfl. hafi eðlilega neitað að gefa nokkur ákveðin loforð fyrir sína ókosnu þm. Eftir þessu er það augljóst, hvað það er, sem hér er á ferðinni. Það er ekkert annað en það, að hér er allhá kosningaskuld, sem á að greiða úr ríkissjóði fyrir Alþfl., og skal ég taka það fram, að ég mun ekki ljá atkv. mitt til þess, að sú skuld verði greidd, hvað liðlegir sem aðrir þm. verða í að ljá sig til þess.