12.11.1934
Neðri deild: 34. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Thor Thors:

Við hv. þm. Barð. flytjum hér brtt. á þskj. 303, þess efnis, að hinu nýja skipi, sem á að koma í stað Suðurlands, skuli einnig ætlað að annast flutninga um Breiðafjörð, á sama hátt og eigi sjaldnar en e/s Suðurland hefir gert undanfarin ár. — Ennfremur flytjum við viðaukatill. á þskj. 403 við brtt. okkar, þess efnis, að kvöðin skuli hvíla á skipinu, unz séð er fyrir þessum flutningum með öðru jafnfullkomnu móti, að dómi atvmrh. Við leggjum mikla áherzlu á, að þessar brtt. okkar verði samþ.

Nú í ár hefir Suðurland farið 8 ferðir til Breiðafjarðar og haft viðkomu á Arnarstapa, Sandi, Ólafsvík, Grundarfirði, Stykkishólmi, Búðardal, Króksfjarðarnesi og Salthólmavík. Það eru því þrjár sýslur, sem hafa notið góðs af þessum ferðum Suðurlands: Snæfellsnessýsla, Dalasýsla og Barðastrandarsýsla.

Um nokkur ár þar áður hefir skipið farið aðeins 4 ferðir og útgerðarfélagið fengið 1000 kr. styrk fyrir ferðina. En útgerðarfélagið fékk nú í ár 6500 kr. styrk úr ríkissjóði fyrir 8 ferðir skipsins til Breiðafjarðar, og vegna þess er félaginu skylt að flytja erlendar vörur til Breiðafjarðar fyrir helmingi lægra farmgjald en strandferðaskipin taka. Skipið hefir jafnan haft mikla flutninga, og afrakstur félagsins af ferðunum hefir yfirleitt verið góður. Það er og brýn nauðsyn fyrir hlutaðeigandi héruð, að þessum ferðum verði haldið áfram; að öðrum kosti verða aðflutningar á sjó þar mjög ófullnægjandi.

Við flm. þessarar brtt. teljum rétt, að þessi kvöð á hendur útgerðarfélaginu verði ákveðin í lögunum, og álítum, að þó það yrði gert á annan hátt, þá kynni það að falla niður aftur. Væntum við, að hv. samgmn. geti fallizt á að taka aftur 1. lið brtt. sinnar á þskj. 361, en hann gengur út á það, að um ferðir skipsins utan Faxaflóa fari eftir ákvæðum í fjárl., ef félagið nýtur styrks til ferða úr ríkissjóði. Þó að þetta ákvæði sé tekið upp í lögin, þá veitir það enga tryggingu fyrir því, að ferðum skipsins til Breiðafjarðar verði haldið áfram. Sá möguleiki getur alltaf verið fyrir hendi, að útgerðarfélagið afsali sér styrknum, og þá getur það látið ferðirnar falla niður. — Ég skal að lokum geta þess, að stjórn útgerðarfélagsins í Borgarnesi (Skallagríms) hefir tekið þessari till. okkar vel og fallizt á, að hún yrði lögfest; en á það leggjum við flm. mikla áherzlu, að þetta fyrirkomulag verði ákveðið með lögum. Það má ekki draga úr samgöngum á sjó frá því, sem nú er, til þessara þriggja héraða. Enda sé ég ekki ástæðu til þess að skertur verði réttur þessara þriggja héraða til þessara ferða, nú þegar nýtt og fullkomið skip á að taka við þeim af Suðurlandi, enda eru þetta fjölmenn og víðáttumikil héruð, sem hér eiga hlut að máli.