26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

1. mál, fjárlög 1935

Pétur Ottesen:

Það þurfti ekki mikið fyrir því að hafa að teygja út játninguna hjá hæstv. fjmrh., að búið væri að taka burtu skilrúmið á milli framsóknarmanna og sósíalista. Þegar hann fyrra föstudag sagði, að ríkið ætti að taka í sínar hendur alla verzlun, sem eitthvað gæfi af sér, fannst mér hann óneitanlega vera nokkuð mikið farinn að hverfa af þeim grundvelli, sem flokkur hans hefir talið sig standa á til þessa, sem sé samvinnugrundvellinum. Því þegar slík skipun er komin á í verzlunarmálum, þá er með því búið að leggja alla kaupfélagaverzlun jafnt sem kaupmannaverzlun í rústir. Fjmrh. er því búinn að játa það fullkomlega, að það er þegar búið að taka í burt til fulls skilrúmið á milli samvinnu og þjóðnýtingar; fæ ég þá ekki séð, hvað lengur skilur á milli þessara flokka.

Þegar hæstv. ráðh. kom að flatsænginni, reyndi hann ekki að skríða undan teppinu. Hann spriklaði nú berstrípaður í flatsænginni og virtist kunna þar býsna vel við sig. Annars er hæstv. ráðh. beinlínis kominn í kapphlaup um einokunina við sósíalista, og svo virðist, að hann ætli jafnvel að komast fram úr meisturunum í samkeppninni. Annars má vera, að hann og aðrir framsfl.menn séu ekki ennþá til hlítar búnir að átta sig á þessu nýja tilverustigi sínu. Þeir þurfa kannske dálítinn tíma til þess, eins og andatrúarmennirnir segja að þurfi, þegar menn komi yfir um á nýtt tilverustig.

Hæstv. atvmrh. fór mörgum fögrum orðum um „Rauðku“, enda er skepnan „hold af hans holdi og bein af hans beinum“, skilgetið sósíalistaafkvæmi. Honum er sýnilega lítið um það gefið, að sjálfstæðismenn setjist með þeim á bak á skepnuna; hann veit sem er, að ef þeir gera það, þá munu þeir taka þar í taumana og kæra sig lítið um það, þótt merin ausi og prjóni, og fari á hverskonar ógangi. Þetta vita þessir háu herrar, og því vilja þeir ekki hættu á, að sjálfstæðismenn fái nokkurt tækifæri til að trufla þann þjóðnýtingarundirbúning, sem hér er verið að vinna að.

Ég hefði mikla löngun til að tala mikið við hæstv. fjmrh., en verð að láta það falla niður að mestu, þar sem tími minn er svo mjög takmarkaður. Hann var eitthvað að tala um það, að stefna Sjálfstfl. í fjármálum væri ógætileg. Það hefir nú verið sýnt fram á það, að í þeim ástæðum, sem hann reyndi að færa fram fyrir þessari staðhæfingu, var rangt með allt farið og óhlutvandlega. Því verður ekki hnekkt, að Sjálfstfl. hefir sýnt margfalt meiri gætni í fjármálum en þeir flokkar, sem farið hafa með völdin nú um hríð, og að hann hefir miklu betri skilning á því en þeir, hver nauðsyn það er, að fjármál landsins séu í góðu lagi. Hitt er alkunnugt, að þó fjmrh. gaspri hátt og mikið um fjármál, þá gætir harla lítið vits og skilnings í því gaspri. Kemur þetta ljósast fram í því, hvernig hann nú í fjármálatillögum sínum, með því að bera fram hærri fjárlög en áður eru dæmi til, snýst við hinu erfiða ástandi í atvinnuvegum og afkomu þjóðarinnar. Þessi framkoma ráðh. sýnir ljóslega, hversu gersamlega hann er sneyddur þeim eiginleikum og þeirri ábyrgðartilfinningu, sem fjmrh. þarf að hafa á slíkum erfiðleikatímum, og það, að það er ekki meira gagns að vænta af honum til að ráða fram úr þeim erfiðleikum, sem að þjóðinni steðja nú, en maðksmognum rekadrumb, sem skolar á land norður á Hornströndum og liggur þar síðan sandorpinn að eilífu nóni.

Hæstv. dómsmrh. byrjaði hér sinn vanalega blaðalestur, eins og ég var búinn að spá í dag. En eins og ég lofaði þá, ætla ég að benda hæstv. ráðh. á smáklausur í hans eigin blöðum, sem ekki myndu hollar kjötsölumálinu, ef þær væru teknar alvarlega. Í Nýja dagbl. 25. sept. er grein, sem heitir: „Óttinn við kjósendurna. Hatrið á umbótunum“. Þar segir svo m. a.: „Það er ekki ósennilegt, að einhvern morguninn verði Jón Þorláksson búinn að opna Austurvöll til hagagöngu fyrir flokksmenn sína. — Það er sem maður sjái heilar breiður af íhaldsmönnum suður í Fossvogi og inn um alla Sogamýri vera að borða ýms grös“. Og ennfremur segir svo: „Því í ósköpunum á maður að borða dýra fæðu í þessari ágætu sprettutíð meðan nóg er af grasi um allar jarðir“.

Hér er verið að benda mönnum í Rvík, sem kaupa kjötið, viðskiptamönnum bændanna, á það, að þeir geti eins farið út á Austurvöll eða suður í Fossvog og bitið þar gras, eins og að vera að éta kjöt. Haldið þið nú, góðir hlustendur, að slík storkunaryrði séu til þess að bæta fyrir kjötsölunni og tryggja, að gott samkomulag geti haldizt milli kaupanda og seljanda? Þó ýmislegt hafi verið skrifað miður þarft um kjötsöluna, þá er þetta áreiðanlega það andstyggilegasta og eitraðasta, sem sagt hefir verið um málið. Og þó er þetta skrifað af þeim mönnum, sem telja sig bera kjötsöluna fyrir brjósti.

Áður en ég lyki máli mínu ætlaði ég að benda á ekki allfáar nýjar stöður, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefir stofnað síðan hún tók við völdum. Mér telst til, að þær séu í það allra minnsta 106. Þá er og talað um að reka alla frá embættum þegar þeir eru orðnir 65—70 ára gamlir. Þessi brottrekstrarheimild stj. á að ná til allra, sem hafa verið skipaðir í starfa og er þar engum þyrmt, og það þó starfið sé ekki nema lítilfjörlegt aukastarf. Á þennan hátt getur stj. fengið 132 stöður til útdeilingar meðal gæðinga sinna. Hvílíkur hvalreki á hinni pólitísku náströnd stj. Ég hefi hér í höndum lista yfir þetta allt, sem ég hefði gjarnan viljað kynna hlustendum, en minn tími er búinn, og að svo mæltu býð ég hlustendum góðar nætur.