09.11.1934
Efri deild: 34. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (2596)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Mér finnst óviðkunnanlegt, að skýringar skuli ekki fylgja frv., því þó að breytingarnar, sem á því hafa verið gerðar, séu ekki víðtækar, þá eru þær þó nokkrar. Og skal viðurkenna, að það var mikil þörf á að breyta fyrirkomulaginu á skipun útvarpsráðs. Það er óviðfelldið að binda kosningarrétt útvarpsnotenda við það, að þeir séu í einhverju útvarpsnotendafélagi. Það er erfitt að sýna fram á, að það sé á neinni skynsemi byggt. Sá, sem greiðir sitt gjald, á rétt á því að hafa íhlutunarrétt um skipun útvarpsráðs. Hann nýtur auðvitað dagskrárinnar, hvort sem hann er í nokkru félagi eða ekki. Ég álít tvímælalaust til bóta að gera kosninguna almenna og að útvarpið sjálft gangist fyrir henni. En aðrar breyt., sem gerðar hafa verið, eru ekki jafnheppilegar. Áður var útvarpsráðið skipað af ákveðnum aðilum, eða eins og einn maður orðaði það í fyrra, af kennimannastétt landsins. Einn maður var kosinn af háskólanum, einn af kennurum og sá þriðji af þjóðkirkjunni. Þetta er ekkert óeðlilegt, að kennimannastéttin hafi nokkurn íhlutunarrétt um það, hvað þessi þjóðskóli, sem útvarpið á að vera, ber á borð fyrir þjóðina. Meginið af því, sem útvarpið flytur, á að vera á einhvern hátt fræðsluefni og hafa áhrif á uppeldi þjóðarinnar. Mér finnst því, að það sé ekki rétt að svipta þessa aðila rétti til þess að útnefna menn í útvarpsráð. Eftir frv. á Alþ. að kjósa nokkurn hluta útvarpsráðsins. Menn færa auðvitað þá ástæðu fyrir þessu, að Alþ. leggi til féð, eða ríkissjóður, og að grundvöllur starfseminnar byggist á því. En þetta er í raun og veru veik ástæða og nálgast það að vera hugsunarvilla. Útvarpsráðinu kemur það ekkert við, þó að hið opinbera leggi fram féð. Það á eingöngu að ráða dagskrá útvarpsins. Alþ. hefir engin skilyrði til þess að ráða því, hvernig dagskrá útvarpsins er hagað. Ef Alþ. legði nokkuð til þeirra mála, þá væri það helzt pólitík, og myndi það ekki vera heppilegt. Kosning Alþ. í útvarpsráð myndi fara fram eftir pólitískum skoðunum, en eins og kunnugt er, á að reyna að girða fyrir það, að pólitík komist inn í útvarpið. Það verður því að teljast óheppilegt að láta eina algerlega pólitíska aðilann í landinu kjósa nokkurn hluta útvarpsráðs, þó að ég á hinn bóginn óttist það ekki, að Alþ. geti ekki skipað fullsæmilega menn í útvarpsráð, sem geta vel starfað þar ópólitískt, þó að þeir eigi sér þennan pólitíska uppruna. Ég tel það ekki til bóta, að útvarpsráðið á sjálft að kjósa formann sinn, og á hann enga sérstöðu að hafa. Hann verður fundarstjóri og hefir sömu skyldur og aðrir. En það væri eðlilegt að skipa hann sér og að hann hefði sérstöðu innan útvarpsráðsins. Reynslan hefir sýnt, að starf formannsins getur orðið umfangsmikið, og hefir mér alltaf fundizt, að fela mætti honum mikið af störfum útvarpsstjóra.

Það má benda á í þessu sambandi, að útvarpsstjóra eru ákveðin 7500 kr. laun, og dýrtíðaruppbót að auki. Mér finnst, að þetta fari í öfuga átt við þá skoðun, sem kemur fram í fjárl.frv. stj., að ekki beri að greiða dýrtíðaruppbót af launum, sem fara yfir 4500 kr. Það er óeðlilegt að ákveða þetta um embætti, sem ekki er vandasamara en önnur embætti með svipuðum launum.

Mér finnst einnig óviðkunnanlegt, að ætlazt er til, að l. gangi þegar í gildi. Útvarpsráðið, sem nú er, á þá að víkja, ef l. verða samþ. Ég get ekki séð, að störf útvarpsráðs breytist svo, að það geri neitt til, þó að það starfi út sinn tíma. Það liggur ekkert á, að slíkar breyt. komi fyrr en á eðlilegum tíma. Mér finnst, að annars kenni of mikillar frekju, og að það líti svo út, sem það liggi á að koma ákveðnum mönnum út úr útvarpsráðinu. Mér finnst heppilegt að ákveða, að breytingin komi til framkvæma, þegar útrunninn er starfsfrestur þeirra manna, sem nú skipa útvarpsráð. Mér er lítt skiljanlegt, hvers vegna liggur á að hraða breytingunni. Ég vil láta þessi ummæli fylgja frv., áður en það fer til n.