24.11.1934
Efri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi borið fram 4 brtt. við þetta frv. — 1. brtt. er kannske óþörf, nefnil. að laun útvarpsstjóra séu ekki ákveðin nema þangað til laun hans verði ákveðin í launalögum. Þetta á í raun og veru að gerast af sjálfu sér, ef launalögin verða einhverntíma endurskoðuð, því að sérstöðu hafa starfsmenn við ríkisstofnanir enga fram yfir þá, sem eru í launalögum. Enda er bersýnilega ákaflega mikið ósamræmi milli þessara launa og yfirleitt launa í launalögum.

En ég vil nota tækifærið til að spyrja hæstv. kennslumálaráðh., hvernig á því standi, að launin eru ákveðin svo há sem raun ber vitni í þessu frv. Fyrst og fremst er því yfir lýst, og fjárl. bera það með sér, að stj. hefir hugsað sér að afnema dýrtíðaruppbót á laun embættismanna, ef komið er fram yfir upphæð, sem er miklu lægri en hér er ákveðið. Og nýlega var útbýtt till. frá stjórnarhluta hv. fjvn., þar sem svo er ákveðið, að dýrtíðaruppbót skuli ekki greiðast, ef laun og dýrtíðaruppbót fari nú fram úr 5 þús. kr. En hér eru einum manni ætluð 7500 kr. laun og dýrtíðaruppbót. Ég finn ástæðu til að spyrja hæstv. stj., þar sem hún virðist sannfærð um, að 5 þús. kr. séu mjög svo rífleg laun fyrir hvern embættismann, hvað til þess ber, að hún síðan stendur bak við l., sem ákveða einum embættismanni, sem vissulega hefir ekki nema miðlungsembætti á hendi að vanda og ábyrgð, laun, sem eru gersamlega í ósamræmi við stefnu hæstv. stj. Og af því að stjórnarblöðin hafa nú síðustu dagana verið alveg sérstaklega viðkvæm um skoðanir manna í þessum efnum og hugsanlegt ósamræmi í þeim, þá þætti mér ekki einskis vert að fá skýringu á þessu fyrirbrigði.

Ég hefi nú ekki borið fram till. um breyt. á þessu atriði. Ég álít þessi laun ekki nema rétt nægjanleg til þess, að maðurinn geti látið ríkinu í fé sitt starf, en ósamræmið er ákaflega mikið.

2. brtt. mín er í nokkrum liðum og í samræmi við það, sem ég hefi sagt við fyrri umr. um það, hvernig skuli skipa útvarpsráð. Ég sé enga ástæðu til, að Alþingi kjósi þrjá menn í útvarpsráð. Það getur verið, að þótt þeir séu kosnir eftir pólitískum línum, þá verði þeir ekki pólitískir fulltrúar í útvarpsráðinu. En mér finnst alveg óþarft að stofna pólitískt til kosningar manna, sem nauðsynlega þurfa að starfa ópólitískt.

Heyrt hefi ég eina ástæðu færða fyrir, — að útvarpið lifi aðallega á tekjum úthlutuðum af Alþingi, og sé því venjuleg ríkisstofnun. En útvarpsráðið hefir vitanlega enga meðgerð með fjármál útvarpsins, heldur hefir útvarpsráðið, ef svo má segja, hina andlegu hlið útvarpsins til meðferðar, að ákveða dagskrárefnið, fréttaflutning o. fl. Sé ég ekki, að þetta þurfi íhlutunar Alþingis við.

Ef menn vilja ekki stíga sporið hreint út, að láta útvarpsnotendur kjósa allt útvarpsráðið, t. d. að formanni undanteknum, þá finnst mér fara vel á því, að þær stofnanir, sem hingað til hafa útnefnt sinn manninn hver, haldi því áfram. Útvarpið er vissulega skóli fyrir þjóðina, og hlutverk þess er að miklu leyti þess eðlis. Það er því ekki nema eðlilegt, að þeir aðilar, sem helzt er falin fræðsla þjóðarinnar, nefni sinn manninn hver í útvarpsráðið. Hlutdeild þjóðkirkjunnar í skipun útvarpsráðs er næsta eðlileg, þar sem einn talsvert stór liður í starfsemi útvarpsins hefir verið guðsþjónustur, sem útvarpað er. Og það er þáttur, sem ég ætla, að mjög margir vilji engan veginn rýra á neinn hátt. Þess vegna er ekki nema eðlilegt, að kirkjan hafi sinn fulltrúa í ráðinu. Og ennfremur, að þeir, sem annast almenna fræðslu í landinu, nefni einn fulltrúa, og að lokum háskólinn fyrir hönd hinna svokölluðu æðri mennta. Ég hefi þess vegna borið fram þessa till., til þess að þeir, sem ekki hafa trú á pólitíska kosningu í útvarpsráð, hafi tækifæri til að sýna það við atkvgr.

Hinir liðirnir eru í sambandi við þann fyrsta, að nema burt þau ákvæði, sem snerta kosningu Alþingis á þessum mönnum, — nema d-liðurinn, sem er till. í samræmi við seinni part a-liðs 2. brtt. Ég tel heppilegt, að ráðh. útnefni formanninn og að hann hafi nokkra sérstöðu sem nokkurskonar framkvæmdarstjóri útvarpsráðs, eins og hingað til, á því sviði, sem vald ráðsins nær til.

Brtt. um, að II. kafli falli niður, er náttúrlega talsvert róttæk; en ég hefi borið hana fram í samræmi við mína skoðun á verzlunarmálum landsins yfirleitt. Verzlun með útvarpstæki er þar engin undantekning. Ég álít hana bezt komna í höndum einstaklinga, og ekki vafasamt, að útvarpsnotendur hefðu með því fyrirkomulagi notið á ýmsan hátt betri viðskipta hingað til. T. d. var lengi strangleiki um það, að tækin væru borguð út í hönd. En á hinn bóginn getur ríkið fengið allar tekjur, sem það nú fær, með einföldum tolli einum saman. Tollinn nefni ég að vísu ekki í till., en að sjálfsögðu yrði hann ákveðinn hæfilegur, svo að útvarpið þyrfti einskis í að missa.

Þessi einkasala er nokkuð dýr. Forstjóri hennar hefir — eins og aðrir utan launal. — allrífleg laun; í sjálfu sér ekki óeðlilega há, en hærri en hliðstæðir embættismenn. Á starfsemi hans persónulega deili ég ekki; það ég þekki til, virðist hann starfa með mikilli lipurð.

En nú hefir þótt nauðsynlegt að fela útvarpsstjóra umsjón með þessari verzlun, og hefir hann 2 þús. kr. fyrir. Allt leggst þetta nú á verzlunina.

4. brtt. er um, að ákvæði til bráðabirgða falli niður. Ég skil nefnilega ekki í, hvernig í ósköpunum liggur svona mikið á. Það er alveg eins og að menn haldi, að útvarpsráðið muni hafa endaskipti á landi og þjóð, ef það fær að enda út sinn starfstíma. Mér finnst það svo sjálfsagður og eðlilegur hlutur, að svo lítilfjörleg breyt. sem þessi sé látin koma eðlilega inn í rás viðburðanna, þannig að hið nýja útvarpsráð tæki við þegar tími hins fyrra er endaður. En að grípa til slíkra ráðstafana sem þeirra, að sama Alþingi, sem afgr. þessi l., rjúki þegar í stað til að kjósa þessa menn, og að síðan sé stofnað til kosninga um land allt, það er ekki hægt að afsaka nema þegar einhverjir stórkostlegir hagsmunir eru annarsvegar, t. d. ef stöðva á rekstur fyrirtækis, sem er farið á hausinn, eða þess háttar. Mér er þessi bráðflýtir alveg óskiljanlegur, ef ekki eru einhverjir persónulegir hlutir blandaðir inn í málið. Ég álít alveg nóg, að þessi lög öðlist gildi nú þegar, en að hið nýkosna útvarpsráð taki ekki við fyrr en hitt hættir. Fyrir því hefi ég sett í c-lið 2. brtt. minnar, að kosning í hið nýja útvarpsráð skuli fara fram svo tímanlega, að henni sé lokið áður en starfstíma fyrir útvarpsráð er lokið.