24.11.1934
Efri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (3142)

130. mál, vátryggingar opinna vélbáta

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er komið frá Nd. og var flutt þar af sjútvn. þeirrar hv. d. En mþn. sú, sem skipuð var til þess að athuga ástæður sjávarútvegsins, hefir samið frv. og gert aths. þær, sem frv. fylgja.

Frv. þetta er þess efnis, eins og hv. dm. mun kunnugt, að það mælir fyrir um vátryggingu opinna vélbáta. Er í því tekin upp ný stefna í tryggingarmálum, sem sé sú, að ákveða skyldutryggingar. Það er öllum ljóst, sem nokkuð til þekkja, að vátryggingar á smærri fiskiskipum og fiskibátum er í megnasta ólagi. Opnir vélbátar og smærri vélbátar hafa yfirleitt alls ekki verið vátryggðir. En þeir bátar, sem hafa verið það stórir, að hægt hefir verið að nota þá sem veð, hafa verið vátryggðir, a. m. k. eitthvað af þeim. Að það hefir verið undir hælinn lagt, hvort bátarnir hafa verið vátryggðir eða ekki, sést bezt á því, að í haust hafa blöðin og útvarpið flutt fregnir af tveimur bátstöpum fyrir Norðurlandi, og í bæði sinnin hefir það fylgt fregninni, að bátarnir hafi verið óvátryggðir.

Það er hægt að segja, að það sé í rauninni eðlilegt, að smábátar hafi ekki verið vátryggðir hér á landi. Íslendingar hafa frá alda öðli stundað fiskiveiðar á opnum bátum, og menn hafa verið gamla laginu svo vanir, að hafa bátana óvátryggða, að þeir hafa ekki breytt um. Þó að bátarnir séu nokkuð dýrari nú en þeir voru áður, vegna vélanna, þá virðist það vera alvanalegt, að þeir séu ekki tryggðir. Hitt er hverjum manni ljóst, að það er alltaf mjög mikil hætta í því fólgin að hafa þennan flota óvátryggðan. Mþn. í sjávarútvegsmálum telur, að til séu 400 opnir vélbátar á öllu landinu. Ég hefði hugsað, að þeir væru fleiri, og mér er a. m. k. kunnugt um, að það er til mikill fjöldi af yfirþiljuðum bátum á svipaðri stærð og opnu bátarnir, svo að ef þeir eru taldir með, þá er þessi floti miklu stærri.

Það mun vera öllum ljóst, að hér er um talsvert mikið alvörumál að ræða, og ég tel vel farið, að þetta frv. hefir komið fram, þó að ég hinsvegar telji þá tryggingu, sem hér er verið að stofna til, aðeins lítið brot af því, sem gera þarf á þessu sviði. En mér er það mikið gleðiefni, að með þessu frv. er gengið inn á þá braut, sem ég hefi þótzt sjá fyrir löngu síðan, að væri sú eina leið, sem árangurs mætti vænta af. En það er sú leið, að lögbjóða þessar tryggingar. Ég vil í þessu sambandi geta þess, að ég hefi nú fyrir skömmu átt tal við hr. Jón Gunnarsson, forstjóra Samábyrgðarinnar, og hann hefir sagt mér það, að hann af sinni löngu reynslu væri orðinn sannfærður um það, að tryggingar á fiskiflota okkar kæmust aldrei í sæmilegt horf, fyrr en þær yrðu lögboðnar.

Þó að ég hafi nú látið í ljós ánægju mína yfir þessu frv., þá hefir sjútvn. Ed. komizt að raun um það, að ástæða sé til þess að breyta frv. að nokkru. Í fyrsta lagi leggur n. til, að 2. gr. frv. falli burt. Í þeirri grein eru tryggingarskilyrði og vátryggingargjald ákveðin, en n. lítur svo á, að slík skilyrði og ákvæði eigi að vera og verði að vera ákveðin með reglugerð, og sérstaklega af þeirri ástæðu, að menn eru hér að þreifa sig áfram um það, hvernig skuli haga iðgjöldunum. Það er alveg sjálfsagður hlutur að hafa um þetta reglugerð, en ekki að fastbinda það með l., enda munu slík ákvæði sem þessi vera sett með reglugerð í öllum vátryggingarfélögum. Ég skal taka það fram, að þetta atriði var sérstaklega borið undir Jón Gunnarsson, forstjóra Samábyrgðarinnar, og að hans áliti á þessi grein tvímælalaust að falla niður.

Önnur aðalbreyt., sem n. hefir lagt til, að gerð yrði, er sú, að upp í frv. eru teknir ekki einungis opnir bátar, heldur líka yfirþiljaðir bátar, allt að 6 tonna stærð. Ástæðan til þess, að n. hallaðist að þessu, er sú, að hún lítur svo á, að þegar skipa á þessum málum, þá verði að skipa þeim eftir flokkum. Og n. lítur svo á, að þennan lægsta flokk sé hæfilegt að miða við 6 smálestir. Þetta atriði hefir einnig verið borið undir forstjóra Samábyrgðarinnar, og hann áleit, að takmörkin mættu ekki vera neðar en að miða við 6 smálestir. Ef frv. er látið ganga fram eins og það nú er, þá ná ákvæði þess aðeins til opinna vélbáta, en það er vitað, að mikill fjöldi er til af yfirþiljuðum bátum af svipaðri stærð, og er eigendum þeirra ekki gert að skyldu að tryggja þá í þessum samábyrgðarfélögum. En það er eitt hið mesta mein tryggingarfélaganna, að ekki er hægt að fá alla hlutaðeigendur til þess að ganga í sama félagið, og á því hefir strandað víðast hvar úti um landið. Það hafa einstaka menn, og þá einkum þeir, sem hafa haft mikið um sig og verið vel efnum búnir, talið sér ávinning í því að tryggja ekki báta sína. Þess vegna er það augljóst af þeirri reynslu, sem fengin er, að það eina, sem dugir í þessum efnum, er að lögbjóða tryggingarnar. Að þessu athuguðu virðist það vera næsta fráleitt að setja lög um nokkurn hluta af þessum smærri bátum, en sleppa öðrum. Af þessum ástæðum verð ég að telja, að þessar brtt. sjútvn. séu ekki aðeins til mikilla bóta, heldur líka séu þess eðlis, að frv. nái ekki fyllilega tilgangi sínum, ef þessi breyt. verður ekki samþ. Til þess að rökstyðja mál mitt frekar en orðið er, get ég t. d. bent á það, að í einu héraði, þar sem ég þekki til, munu vera um 40 svonefndir trillubátar. Þeir eru allt að því 4 til 5 smálestir að stærð. Meira en helmingurinn af þessum bátum eru yfirþiljaðir. Eftir frv., eins og það nú liggur fyrir, eru eigendur þessara báta ekki skyldaðir til þess að vera í ábyrgðarfélagi, en það mundi valda því, að erfiðleikarnir við að koma slíkum félagsskap á stað, eins og hér um ræðir, yrðu meiri, hversu mikil þörf, sem er annars fyrir hann.

Aðrar breyt. hefir n. ekki lagt til, að gerðar verði á frv., nema hún leggur til, að fyrirsögnin verði orðuð á annan veg, bæði vegna þeirrar breyt., sem hún leggur til að gerðar séu, og með því að hún telur, að fyrirsögnin sé betur orðuð, ef henni er breytt á þennan veg.

Ég vænti þess svo að endingu, að hv. d. taki breyt. vel og samþ. þær, og svo að lokum frv. sjálft.