08.11.1934
Efri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2312 í B-deild Alþingistíðinda. (3168)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég þarf litlu að bæta við það, sem segir í nál. samgnm. N. hefir yfirleitt tekið þann kostinn, að fara eftir till. landssímastjóra um þær till., sem hér liggja fyrir. Enda má segja það í aðalatriðum, að bezt muni gefast jafnan að fara eftir till. forstjóra hinna opinberu stofnana.

N. leggur á móti breyt. á línustöð að Dalatangavita, í samræmi við það, sem farið er fram á í brtt. 49. Hún telur, að fengnum upplýsingum, að lítið öryggi sé á að fá veðurskeyti svo, að í lagi sé, ef farin er þessi leið. Eftir uppástungunni er farið fram á, að lína liggi frá Brekku í Mjóafirði, en við það verður að fara gegnum a. m. k. tvær aukastöðvar til þess að ná sambandi við Seyðisfjörð. Hin leiðin er beint samband við Seyðisfjörð. Og þar sem þessi lína og stöðin á Dalatanga er alveg sérstaklega ætluð til þess að ná ábyggilegum veðurfregnum frá Austurlandi, sem talið er, að verði bezt náð frá Dalatanga, þá leggur n. á móti því að rýra þetta öryggi. Að vísu mundu 4 bæir við Mjóafjörð komast í talsímasamband með þeirri leið, sem stungið er upp á í brtt., en á landssímalínunni er ekki venjulegt að skipa stöðvum svo þétt, en jafnvel ein stöð á þessari leið mundi rýra öryggi fyrir veðurskeytum í tæka tíð. Álits veðurstofunnar hefir verið leitað og leggur hún einnig á móti þessari breyt., af þeim sömu ástæðum, sem ég hefi greint.

Línan, sem nefnd er í 2. brtt., leggur n. til, að sett verði í ritsímalögin, og er það eftir till. landssímastjóra. Þessi staður er afskekktur, og auk þess er þar um slóðir beitutekja Austfjarða, líklega helzt Norðfjarðar, og er mönnum því símasamband nauðsynlegt, eins og líka fyrir byggðina, sem síminn á að liggja um.

Um línuna frá Búðum til Hafnarness, sem 3. brtt. fjallar um, er það að segja, að hún hefir verið einkalína, en viðhaldið ákaflega mikið vanrækt, og not línunnar virðast hafa farið ákaflega mikið þverrandi. Sjö einkastöðvar eru á þessari línu, en talsímagjöld utan línunnar hafa verið sáralítil seinustu árin. Virðist því vera hér lítil þörf að taka upp þessa línu. Hér verður það líka þungt á metum, að verði sú regla upp tekin, að landssíminn yfirtaki einkalínur, þá mundi sá kostnaður innan skamms nema hundruðum þús. kr. Yrði þá sennilega að heimta gjald fyrir samtöl á þessum línum, en eins og nú er, eru þau gjaldfrí innan einkalínusvæðisins, ef ekki er farið gegnum neina símastöð. Landssímastjóri er mjög á móti þessu. Og meiri hl. n. er sömu skoðunar, að hvorki sé nauðsynlegt í þessu tilfelli né heppilegt að ganga inn á þá braut, að gera einkalínur að landssímalínum, allra sízt þegar þess er gætt, að mörg héruð, sem hafa mikla þörf fyrir síma, eru enn símasambandslaus. Þau ættu að sitja fyrir öðrum framkvæmdum í þessu máli.

Þá er í 4. till. nefnd lína frá Geirólfsstöðum að Arnhólsstöðum. N. mælir eindregið með því, að hún verði samþ. Hér stendur svo á, að byggðin er klofin um lengri tíma árs, vegna þess að mjög illfær á rennur um hana, og þeir, sem austan árinnar búa, geta ekki notað stöðina að vestanverðu. Þessi lína er líka aðeins 4—5 km.

Þá eru brtt. á þskj. 117. Landssímastjóri leggur á móti fyrri till., og meiri hl. n. er sammála um, að hér sé um fyrirkomulagsatriði að ræða, sem verður að athuga, þegar þessi símalína verður lögð, frá Hesteyri og að Sæbóli í Aðalvík, og telur ekki þörf á, að þetta verði sett í l.

Um aðaltill. á sama þskj. leggur landssímastjóri til, að þessi nöfn verði tekin upp svo sem þar er orðað. Nú er það svo, að mikill hluti þessarar línu er í ritsímalögunum nú, frá Stað í Grunnavík að Höfða í sama hreppi. En eigi þeir Norðurstrandamenn að komast í símasamband, þá verður það ekki á annan hátt en þann, að leggja línu frá Höfða að Furufirði, enda mælir landssímastjóri með till. N. er sammála um að samþ. till.

Till. á þskj. 126 er líka um skipulagsatriði. Er farið fram á að setja tvær stöðvar í sama hreppi. Nú er það svo í framkvæmdinni, að venjulega er ekki nema ein talstöð í hverjum hreppi, sem kostuð er af símanum. Þó eru dæmi um fleiri stöðvar í einum hreppi, en þá starfræktar fyrir ekki neitt, eða hreppurinn geldur eitthvað. Og vilji hreppsbúar í Öngulstaðahreppi hafa tvær stöðvar, þá er ekki nema eðlilegt, að þeir kosti aðra sjálfir. En ef tvær stöðvar yrðu teknar í ritsímalögin, mundi koma allur sá hópur hreppa, sem hafa sömu ástæður, og heimta það sama.

Þá eru till. á þskj. 149. Landssímastjóri telur, að þessar línur komi ekki að notum nema á einum bæ, endastöð á hverjum stað, ef þær verða landssímalínur, en telur hinsvegar sjálfsagt, að þær verði einkalínur með samband á hverjum bæ, og fengjust þá hin fyllstu not línunnar.

Landssímastjóri segir ennfremur í lok sinnar greinargerðar:

„Kröfurnar og takmarkið er, að síminn komist heim á hvern bæ, og að bæir í sömu byggð, sem hafa mikið saman að sælda, þurfi ekki að bókfæra hvert einasta samtal“.

Þá er till. á þskj. 266. N. mælir með því, að þessi lína verði tekin upp í ritsímalögin, og er landssímastjóri því samþ. Ekki má skilja það svo, að allt sé fengið með því að bæta nýjum línum inn í ritsímalögin. Það líða oftast ár og jafnvel áratugir svo, að ekki kemur til framkvæmda. Ég get í því sambandi bent á línur í Norður-Ísafjarðarsýslu, sem hafa staðið í ritsímalögunum frá 1913 og ekkert hefir verið unnið að. Og sama dæmi er um 1—2 aðrar línur frá 1913, að þær eru ekki enn lagðar. Eigi að síður er rétt að taka þær línur inn í ritsímalögin, sem álíta verður nauðsynlegar landssímalínur. En eins og ég gat um áðan, er engin vissa fyrir, að allar áætlaðar línur verði lagðar. Og það er alveg víst, að það mundu ekki hafa komið talsímalínur á marga þá staði þar sem búið er að leggja einkalínur, vegna þess, að ríkissjóður kostar þær aðeins að 2/3 hlutum, en héraðsbúar hitt. Og einkalínur í sveitum eru ákaflega þægilegar fyrir viðkomandi menn, að geta talað innan sveitar gjaldfrítt. Og í þeirri sveit, sem hér er um að ræða, eru mjög mikil sveitaviðskipti, og greiddi símasamband ekki lítið fyrir þeim.

Það hefir fallið niður, sennilega í handriti hjá mér, ein brtt., þar sem n. var búin að ákveða að samþ. till. landssímastjóra.

Þá vil ég geta þess, að fallið hefir niður úr handriti hjá mér „lína norðan Bala að Eyjum við Bjarnarfjörð“. Landssímastjóri hefir mælt með þessari línu, og mun n. flytja brtt. til leiðréttingar á þessu til 3. umr.