22.11.1934
Efri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2591 í B-deild Alþingistíðinda. (3496)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég býst við, að almennt sé talið, að heppilegt sé að setja einhver ákvæði um aldurshámark starfsmanna ríkisins. Ekki aðeins sökum þess, að slíkir menn standi svo illa í stöðum sínum, heldur einnig af því, að það er sanngjarnt, að þeir rými til fyrir ungum og efnilegum mönnum, sem hafa fullan rétt á stöðunum. Það er ekki rangt, út af fyrir sig, að taka unga krafta í þjónustu ríkisins. En það fylgir böggull þessu skammrifi. Gallinn við þetta frv. er sá, að það er eingöngu tekið fram, að þessir embættismenn skuli fara frá, þegar þeir hafa aldur til, en það er ekkert tekið fram um afleiðingarnar af þessari ráðstöfun eða neitt frekar séð fyrir þessu. Embættismenn, sem starfa í þjónustu ríkisins, eru mjög illa launaðir samanborið við aðra starfsmenn. Embættismenn, sem hafa á hendi ábyrgðarmiklar trúnaðarstöðum fyrir ríkið, eru verr launaðir heldur en menn, sem vinna við einstaklingsfyrirtæki. Þetta ósamræmi gengur meira að segja svo langt, að ríkið sjálft greiðir þeim mönnum. beint og óbeint, miklu hærri laun, sem starfa utan við embættaskipulagninguna. Milliþ.nefnd ræður ekki svo til sín skrifara, að honum séu ekki ætluð hærri laun heldur en ríkið sér sér fært að greiða sínum embættismönnum. Þetta atriði hlýtur að koma til greina í sambandi við það ákvæði frv., að hægt sé að segja: þú hefir haft góð laun, og þess vegna ættir þú að vera kominn í það góð efni, að þú gætir hvílt þig, þegar þú ert orðinn 65 ára gamall. Lífeyririnn nægir þér.

Þetta er ekki hægt að segja við íslenzka embættismenn. Þeir eru svo illa launaðir. Mér finnst þess vegna óhjákvæmilegt að setja í þessi sömu lög ákvæði um eftirlaun, sem skuli ganga til þessara manna, sem þannig fara frá fyrr en annars var áætlað, þegar launa- og lífeyrislögin voru sett. Ef það verður ekki gert, þá bætist ný ástæða fyrir þessa menn til þess að vera óánægðir með sín kjör. Því að þetta er raunverulega ekkert annað en óbein lækkun á launum þeirra, þar sem starfstími þeirra er styttur.

Í þessu frv. er farið fram á, að embættismenn fari frá 65 ára, en geti fengið framlengingu, en séu skyldugir til að fara frá, þegar þeir eru orðnir 70 ára gamlir. Það er ekki hægt að miða þetta ákvæði við samsvarandi ákvæði í löggjöf nágrannaþjóðanna. T. d. hafa háskólakennararnir 12000 kr. laun til 65 ára aldurs. Í því tilfelli er þetta ákvæði mjög eðlilegt. Þeim er sagt að rýma til fyrir yngri vísindamönnnm. Það er skiljanlegt. En hjá þjóð, sem ekki hefir efni á að greiða sínum starfsmönnum sæmileg laun, horfir þetta allt öðruvísi við.

Hæstv. ráðh. vitnaði í tilhögunina í Landsb. í þessu efni. Þar kemur fram þetta sama. Bankarnir greiða sínum starfsmönnum miklu hærri laun en ríkið greiðir sínum starfsmönnum. Auk þess er lífeyrisákvæðið þar miklu ríflegra. Lífeyrissjóður ríkisins fyrir allan þann sæg starfsmanna, sem í þjónustu þess er, er ekki nema 50000 kr., en í bankanum 25000 kr. fyrir þann litla hóp, sem þar vinnur. Þeir, sem fara frá í bankanum 65 ára gamlir, eiga því við ágæt kjör að búa. En aftur á móti verður að hlaupa undir bagga með mönnum, sem unnið hafa hjá ríkinu til 65 ára aldurs, til þess að þeir verði ekki þurfamenn, þegar þeir láta af starfinu. Eigi því að setja lög um þetta atriði, verður um leið að setja ákvæði um einhver eftirlaun handa embættismönnum, þegar þeir fara frá. Það er ófært að láta þessa menn vera komna upp á ákvæði fjárl. Það hefir stundum reynzt örðugt að koma ákveðnum mönnum í fjárl. Yfirleitt má segja, að ófært sé að láta þessa menn lifa á bónbjörgum, í stað þess að hafa fast ákvæði um þetta atriði.

Hæstv. ráðh. talaði um, að það væri samkomulagstilraun, sem fælist í því að láta aldurstakmarkið leika á 5 ára tímabili, frá 65—70 árum. Að vissu leyti er þetta samkomulagstilboð. En aftur á móti er það varhugaverð leið, að hópur manna sé látinn vera alveg háður duttlungum þeirra, sem eru við völd í það og það skiptið. Það má tvímælalaust gera ráð fyrir því, að þessu verði stundum misbeitt af hálfu þess opinbera. Ráðh. getur hæglega notað þetta vald til þess að rýma burt þeim, sem hann vill, en látið hina sitja. Samkv. ákvæði þessa frv. fer það meir eftir „pólitískri“ heilsu hlutaðeigandi embættismanns heldur en líkamlegri heilsu hans, hvort hann er látinn halda embætti sínu eða látinn fara. Ég beini þessum orðum ekki sérstaklega til núv. stj. Það má gera ráð fyrir, að þannig verði þetta framkvæmt í framtíðinni. Ég hefi því, að heppilegra verði að hafa fast aldurshámark. Ég er sannfærður um, að ef selja á aldurshámark, þá má ekki hafa það lægra en 70 ár. T. d. mætti hafa það 69 ár, og svo heimild um 1 árs framlengingu. Þetta er peningaatriði, sem hér kemur til greina.

Nú vil ég víkja að þeim áhrifum, sem þessi ákvæði hafa á lífeyrissjóðinn. Ég hefi að vísu ekki spurt sérfræðing um þetta, en ég tel þó, að þetta hefði þau áhrif á hann, að það yrði að breyta ákvæðunum um hann, svo að hann tæmdist ekki alveg við þetta. Mér skilst, að fleiri myndu þurfa styrk úr þessum sjóði en gert var ráð fyrir í upphafi, og þess vegna þyrfti sennilega að endurskoða, hvort hann þyldi slíka viðbót.

Hæstv. ráðh. talaði um, að ómögulegt væri að sjá, hversu mikið það kostaði fyrir ríkið að hafa gamla embættismenn í þjónustu sinni. Það er rétt, að það er ein orsökin til þess, hve embættin eru stundum illa rækt, en vissulega heldur ekki nema ein. Það sýnir reynslan. Hæstv. ráðh. þýðir ekki að vitna í eitt dæmi, sem hafi átt sér stað nýlega, þar sem embættið var slælega rækt sökum þess, að gamall maður sat í því. Það má nefna mörg dæmi um lélega embættisfærslu bæði hjá ungum embættismönnum og gömlum. Það ber einnig á það að líta í þessu sambandi, að þeir, sem lengi hafa haft embætti á hendi, hafa líka fengið æfingu við það, og auk þess geta þeir bætt upp þann orkumissi, sem stafar af aldrinum, með aðstoð annara manna.

Ég fyrir mitt leyti get ekki verið því mótfallinn, að sett sé lagaákvæði um hámarksaldur embættismanna. Ég vil aðeins, að farið sé hægt og varlega í sakirnar, sökum þess að okkar aðstaða er önnur en t. d. annara þjóða í þessu efni, og eins af því, að hægara er að færa sig upp á skaftið seinna eftir vild. Eins verður líka að athuga það, að það er nauðsynlegt að gera einhverjar ráðstafanir gagnvart þeim embættismönnum, sem fara úr stöðum innan 65 ára aldurs, því að laun þeirra eru svo lág.