03.10.1934
Sameinað þing: 2. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

Kosning til efrideildar

Þorsteinn Briem:

Ég vil nota fyrsta tækifæri, sem gefst, til að mótmæla úrskurði hv. forseta í gær, sem snertir mig sérstaklega.

Ég fæ ekki annað séð en að það sé bein og tvímælalaus skylda forseta samkv. 48. grein þingskapa, að láta fara fram kosningu um alla þá lista, sem fram koma, sbr. og 46. grein þingskapanna.

Ég geri því kröfu um, að hæstv. forseti beri úrskurð sinn undir atkvæði þingsins.

Veit ég enga heimild í þingsköpum fyrir forseta til þess að vísa lista, sem honum hefir verið afhentur, frá kosningu, enda virtist hv. forseti ekki líta svo á í fyrradag, að sér væri það heimilt.

Forseti og einstakir þingflokkar geta auðvitað litið svo á lögin sem annað, að þau ættu að vera á annan veg. En það er þó jafnan skylt að fara eftir lögum, ekki sízt þar sem um jafnskýr og ótvíræð ákvæði er að ræða sem hér er.

Aðferð hv. forseta í gær er þess eðlis, að ætla mætti, að Alþingi hiki við að samþykkja.