08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2607 í B-deild Alþingistíðinda. (3513)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég kann ekki við að láta þetta mál fara framhjá mér því sem næst umr. laust, því ég er því að mörgu leyti ósamþykkur. Ég skal fyrst geta þess, að mér finnst flytjendur málsins ekki hafa undirbúið það nægilega. Við 1. umr. var óskað eftir því, að allshn. aflaði sér skýrslna yfir fjölda þeirra embættismanna, sem nú ættu að hverfa úr stöðum sínum samkv. þessu frv. En það hefir ekkert komið frá n. um þetta og engar upplýsingar legið fyrir aðrar en þær, sem Morgunblaðið hefir birt, og má vera, að n. telji það fulláreiðanlega skýrslu. Það var og ætlazt til, að n. kæmi fram með skýrslur um laun hvers þessara manna, eftirlaun og lífeyri, og athugaði, hvað þessi breyt. mundi kosta ríkissjóð. Þetta allt hefði n. þurft að athuga, en hér liggur ekkert fyrir af þessu. Ég skal strax taka það fram í þessu sambandi, að mér finnst tæplega hægt að svo stöddu að vísa mönnum fyrirvaralaust burt úr embættum sínum, nema sæmilega sé við þá gert. Þeir hafa nú margir hverjir svo lítil eftirlaun eða lífeyri, að það er nærri því að vísa þeim út á kaldan klakann, ef þeim er vikið frá án nokkurrar meiri ívilnunar.

Hvað snertir aldurstakmörkin, þá er ég því mótfallinn að hafa þau svona lág. Því hefir verið haldið fram af mörgum, að norrænn kynstofn héldi sér betur heldur en í suðrænum löndum, og jafnvel að Íslendingar entust hvað bezt af hinum norrænu þjóðum. Því finnst mér, að þó þessi takmörk séu ef til vill í öðrum löndum, sé ekki nauðsynlegt að hafa þau svona lág hér. Það lægsta, sem mér finnst talandi vera um, eru 68 ár, eða jafnvel ekki neðar en 70 ár. Nú getur það að vísu verið, að menn séu farnir að stirðna nokkuð til starfs, þegar þeir eru komnir hátt á sjötugsaldur, en þá er að taka það með, að mönnum verða hægari þau störf, sem þeir eru búnir að vinna að fjölda ára og orðnir vanir við.

Hvað brtt. meiri hl. á þskj. 717 viðvíkur. skal ég játa, að þær miða í áttina til þess að bæta frv.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, þar sem ég býst við, að fleiri muni taka til máls.