17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

23. mál, tilbúinn áburður

Frsm. (Jón Pálmason) [óyfirl.]:

Eins og ég tók fram áðan, hefir landbn. ekki borið sig saman um þær brtt., sem nú síðast hafa komið fram, á þskj. 115 og 123. En flest þau atriði, sem þar koma fram, hafa allmikið verið rædd innan n., og býst ég því við, að meiri hl. hennar leggi á móti, að þær verði samþ.

Svo ég víki fyrst að brtt. á þskj. 115, frá þeim hv. 6. þm. Reykv. og hv. 11. landsk., þá hefi ég komið nokkuð að því við fyrri umr., hvort einkasala skuli vera áfram á áburðinum eða ekki. Frá mínu sjónarmiði er í heild sinni ekki heppilegt, að höft séu á verzluninni, en hér stendur alveg sérstaklega á. Fyrst og fremst er þetta nauðsynjavara, og í öðru lagi veitir ríkið styrk til kaupa á henni, og því mjög erfitt að koma við úthlutun styrksins nema verzlunin sé öll á einni hendi. Eins og öllum er kunnugt, sem fylgzt hafa með þessum málum, hefir þessi vara verið háð sérstöku hringvaldi á erlendum markaði, og því hægara að ná hagkvæmum kjörum í stórum kaupum. Og það, sem sérstaklega mælir með því í mínum huga að fallast á þessa tilhögun, er það, að þessi verzlun hefir gengið betur en aðrar einkasölur, og geri ég ráð fyrir, að það stafi fyrst og fremst af því, að hún hefir selt að mestu kontant. - Ég hefi svo ekki meira um þetta að segja, en ég tel, að hér standi svo sérstaklega á, að ég vil ganga inn á að fylgja frv.

Þá skal ég snúa mér að því atriði, sem mikið hefir verið rætt um á síðustu árum, sem er styrkur til landflutninga á áburðinum. Það er rétt, að ríkið hefir styrkt að nokkru flutning á landi á undanförnum árum, en annmarkar á því hafa orðið margir og reynzt erfitt að gera menn ánægða, og því orðið úr þrætur og missætti, eftir upplýsingum þeirra manna, sem um þau mál hafa fjallað. Ég vil líka benda á, að það virðist lítið réttlæti í því, að sá, sem býr 30-35 km. frá höfn, fær engan styrk, en sá, sem býr 36-40 km. frá höfn, fær fullan styrk, enda tæplega hægt að fá fullt réttlæti. Styrkur þessi hefir verið jafn á allan áburð, eftir þyngd, og komið þeim til góða, sem lengst eiga að flytja. Það hefir verið sama verð á áburðinum á öllum höfnum og því vinningur fyrir þá, sem búa við afskekktustu hafnirnar. Það má vitanlega um það deila, hve langt á að ganga í slíkum styrkveitingum, en landbn. hefir ekki talið ástæðu að ganga lengra í þessu máli, en álítur heppilegra að gera það fremur á öðrum sviðum. Hefir nefndin því orðið sammála um að mæla með, að frv. yrði samþ. óbreytt, að undantekinni brtt. hv. 2. þm. Reykv.

Þá skal ég víkja að ræðu hv. þm. V.-Húnv. og brtt. hans á þskj. 123. Það er rétt hjá hv. þm., að upphaflega var til þess ætlazt í 1., að ríkissjóður greiddi allan kostnað við innflutninginn, að frádregnum 2-3%. En raunverulega hafa þau aldrei verið framkvæmd á þessum grundvelli. Ég tel því harða kröfu að fara fram á, að nú verði greiddur hærri styrkur en verið hefir á undanförnum árum. Hv. þm. las upp mikið af tölum um innflutning á áburðinum og úthlutun styrksins 1929-l932 og fór rétt með þær tölur. En viðvíkjandi styrknum 1932 er það að athuga, að þá varð styrkurinn svo hár vegna þess, að þá féll á verzlunina gengistap, sem nam tugum þúsunda kr., því verð var ákveðið áður en vitað var um gengisbreytinguna, og varð því styrkurinn miklu hærri en til var ætlazt í upphafi. Það er að vísu rétt hjá hv. þm. V.-Húnv., að styrkurinn yrði lægri en hann var síðast, ef till. hv. 2. þm. Reykv. verður samþ., því þá var hann 46 þús. kr. En þetta fer vitanlega eftir því, hve mikið er keypt. En það er mjög erfitt fyrir þá menn, sem um þetta fjalla, að vita ekki fyrirfram um, hvað ganga má út frá miklum styrk pr. smálest. Afleiðingin mundi þá oftast verða sú, ef verð væri ákveðið of lágt, að ríkissjóður yrði að greiða mismuninn eftir á, því örðugt myndi reynast að innheimta hann hjá hverjum einstökum kaupanda. Annars munu hv. meðnm. mínir í landbn. gera grein fyrir afstöðu sinni til þessarar brtt., ef þeim þykir ástæða til.