14.11.1934
Efri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

27. mál, sláturfjárafurðir

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. hefir farið til Nd. og er komið þaðan aftur. Þar urðu mikil átök um það, eins og í þessari hv. d.

Breyt. á frv. eru litlar; ekki aðrar en þær, að í 3. gr. frv. var settur viðauki um það, að leyfa megi félögum neytenda að slátra þar, sem sérstaklega stendur á, þ. e. ef ekki er sláturhús á staðnum, og einnig voru rýmkuð fyrirmælin, sem leyfa nýjum samvinnufél. slátrun. Aðrar breyt. hafa ekki orðið á frv. í Nd., og ég lít svo á, að þær séu báðar meinlausar og heldur til bóta fyrir málið. Auk þessarar breyt. liggur fyrir breytingartillaga á þskj. 388, frá hv. 10. landsk.

Ég þykist muna, að ég hafi við 2. umr. þessa máls getið þess, að ef kjöt, sem fer til útlanda, félli í verði, væri varla hægt að búast við því, að innanlandssalan gæti lagt svo mikið af mörkum til uppbótarinnar, að það nægði, þegar útlenda verðið væri mjög lágt. Ég dró þetta út af þeirri staðreynd, að það er ekki nema röskur helmingur af kjötinu, sem selst innanlands. En þegar verðmismunurinn er 30 til 40 aur. á hvert kg., eða um helmingur, þá virðist mér eðlilegt, að þegar illa gengur með söluna erlendis, sé ekki hægt að ætlast til þess, að innanlandssalan ein geti borið erlenda verðið uppi.

Þessa gat ég strax við 2. umr. málsins hér í hv. d. Þegar svo fer, koma menn ekki auga á annað úrræði en að ríkissjóður hlaupi þá undir bagga. Ég er því, efni brtt. á þskj. 388 sammála og því, að þegar þörf krefur, sé nauðsynlegt, að uppbót á útfluttu kjöti komi úr annari átt en frá verðjöfnunargjaldinu.

Verðjöfnunargjaldið getur að mínu viti ekki orðið svo hátt, að vissa sé fyrir því, að það nægi, hvernig sem fer, til þess að bæta upp verð útflutts kjöts. Annað mál er það, hvort rétt sé og nauðsynlegt að setja þetta ákvæði inn í þessi kjötsölulög. Það verður að verða aðalreglan, að framleiðendur kjöts fái fyrir það sæmilegt verð án þess að uppbætur komi úr ríkissjóði, og ég er alveg sammála hæstv. landbmrh. um það, að þessi heimild er gagnslaus, ef ríkissjóður er tómur. Mér virðist þessi heimild líka vera dálítið óákveðin. Ég ætla að lesa till. upp, með leyfi hæstv. forseta:

„.... Nú verður verð útflutts kjöts tilfinnanlega lágt, svo að verðjöfnunarsjóður hrekkur ekki nærri til þess að bæta upp verð útflutts kjöts til nokkurs samræmis við kjöt á innlendum markaði“. Þetta er allt óákveðið. „Tilfinnanlega lágt“, „hvergi nærri“, og „til nokkurs samræmis“. En þegar illu fer, á ríkisstj. að hafa heimild til þess að greiða ákveðna upphæð, að ákveðnu hámarki, úr ríkissjóði til uppbótar á útfluttu kjöti.

Það fer þá eftir tvennu í framtíðinni, hver not verða af þessari brtt., ef hún verður samþ., eftir því, hverskonar mat ríkisstj. á hverjum tíma leggur á þau mörgu skilyrði, sem í till. eru sett fyrir því, að uppbót skuli greiða, og hinu, hversu vel ríkissjóðurinn býr. Ef hann er tómur, er heimildin algerlega gagnslaus.

Ég skal því játa, að eftir þeim sérstöku ástæðum, sem eru nú fyrir hendi, væri æskilegt, að blátt áfram í fjárl. verði höfð upphæð, sem notuð verði til þess að bæta upp verð á útfluttu kjöti. Flm. till. er ég sammála um það, að þeir, sem yfirleitt flytja út kjöt, séu einmitt sömu mennirnir og þeir, sem harðast hafa orðið úti vegna tíðarfarsins í ár. Mér skildist t. d., að hæstv. landbmrh. kæmi auga á þetta og hann vildi taka vel í málið. Mér finnst gæta talsverðrar ósanngirni hjá hv. till. manni, þegar hann lýsir yfir því, að hann telji hæstv. ráðh. hafa tekið illa í málið. Hæstv. ráðh. tók vel í þetta. Hann vill aðeins nota aðra leið og annan tíma, sem ég er ekki viss um, að sé óheppilegri.

Það er liður í fjárl., sem ætlaður er til þess að grípa til í þessu augnamiði. Enn liggja ekki fyrir upplýsingar um það, hvað þessi liður ætti að vera hár í næstu fjárl. Það mætti fara nálægt því, vegna þess að kjötið hefir fallið á erlendum markaði.

Ég verð að segja, að ég álít það vera vonbrigði fyrir þá, sem flytja út kjöt, ef það kemur út úr þessum ráðstöfunum gagnvart kjötinu, að verðið lækki frá því, sem það var í fyrra. Það væri óviðunandi, og því er eðlilegt, að þessir menn teldu sig verða fyrir vonbrigðum.

Ég vil leggja því lið mitt að séð verði fyrir þessu annaðhvort við afgreiðslu þessara fjárl. eða þeirra næstu.

Jafnvel þótt ég sé sammála hv. till.manni um það, að þessa leið eigi að fara, að bæta upp verð á útfluttu kjöti með fjárframlagi úr ríkissjóði, þegar verðjöfnunargjaldið nægir ekki, þá get ég fallizt á að fresta þessu, og sætti ég mig þá við það, að till. verði ekki samþ. hér núna. Ég vil ennfremur geta þess, að frv. er nú búið að ganga í gegnum báðar deildir, sínar 3 venjulegu umr. í hvorri, og kemur svo hér fram við eina umr. Það er ekki alveg víst, að hv. Nd. fallist á þessa till., þótt hún yrði samþ. hér, og þá færi frv. í Sþ., sem ekki er víst, að sé því til góðs.