17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

22. mál, verkamannabústaðir

Jón Pálmason:

Ég vildi ekki láta hjá líða að mæla nokkur orð til hv. 9. landsk. Hann byrjaði ræðu sína með því að ráðleggja mér að taka mér í munn rómverska orðtækið: „Guð forði mér frá vinum mínum, fyrir óvinum mínum skal ég gæta mín sjálfur“. Mér skildist, að hv. þm. ætti við, að vinir mínir, sjálfstæðismennirnir, væru orsök í því öfugstreymi í þjóðlífinu, sem lýsir sér í flutningi fólks til kaupstaðanna. Það er ekkert nýtt að heyra þessa staðhæfingu frá flokksmönnum hv. 9. landsk., að sökum þess, að sjálfstæðismenn hafa víðast hvar verið umsvifameiri í atvinnurekstri en aðrir, séu þeir upphaf þessa öfugstreymis. Nú vita allir, sem um það vilja hugsa, að þessi atvinnurekstur hefir orðið til hinna mestu þjóðarheilla og valdið því, að fólksflutningurinn beindist ekki inn á þær brautir, að menn færu af landi burt. En þegar svo margt er komið í kaupstaðina, að atvinnuskilyrði þeirra eru tæmd, þá hleypur ríkissjóður undir bagga, hjálpar þessu fólki til að byggja sér hús og veitir stórfé til atvinnubótavinnu. Þá kalla ég, að stefnt sé í öfuga átt. Auðvitað er ég ekki á móti því, að mönnum geti liðið sem bezt. Hv. 9. landsk. hefir áreiðanlega ekki hugsað nóg fram í tímann, ef hann hefir ekki gert sér það ljóst, að í þessa stefnu er ekki hægt að fara langt. Það getur verið ástæða til þess að stofna til atvinnubóta í slæmu árferði, en að ríkissjóður fari að byggja yfir fjölda atvinnulauss fólks í kaupstöðunum, er í fyllsta máta hættuleg leið. Hv. þm. var að tala um það, að ég hefði engin ráð til að benda á í þessu vandamáli. Það er satt, að ég hefi litla trú á því, að takast megi að fá fólkið, sem komið er í kaupstaðina, til þess að flytja upp í sveitirnar aftur. En ég vil, að lífsskilyrðin í sveitunum verði svo góð, að fólkið vilji ekki fara þaðan. En stefna jafnaðarmanna er sú, að gera sem flesta efnahagslega ósjálfstæða, og því hafa þeir ekkert á móti fólksstraumnum í kaupstaðina, á mölina. - Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar, aðeins segja það, að ofan á allt annað að ætla að fara að einoka þennan húsabyggingarstyrk, finnst mér í fyllsta mæli vera að bíta höfuðið af skömminni.