27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Jón Pálmason:

Ég hefi skrifað undir þetta nál. á þskj. 266 með fyrirvara og ætla þess vegna að segja örfá orð viðvíkjandi afstöðu minni. Þessi fyrirvari nær ekki til þess, að ég sé á móti frv., og ég hefi ekki heldur borið fram brtt. við það. En ég tel, að þessar ráðstafanir nái of skammt til þess að geta orðið að tilætluðum notum.

Mér var það frá upphafi ljóst, að kreppulánin komu ranglátlega niður, með tilliti til þess, hvort lánið var tekið til greiðslu á föstum skuldum eða lausum skuldum. Einmitt þess vegna er nú nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að lagfæra þetta, og í þessa átt stefnir frv. En svo er gert ráð fyrir hækkun vaxta frá því, sem verið hefir 2 síðastl. ár þrátt fyrir ákvæði þessa frv. Ég tel því of skammt gengið eins og nú horfir við. Í því liggur minn fyrirvari, en af því ég sá brýna þörf á að koma þessu í gegn á þessum hluta þings, sá ég ekki ástæðu til að bera fram brtt., því ég sá, að það er til muna betra að fá þessa lausn, sem í frv. felst, heldur en enga lausn.

Um aðrar hliðar málsins skal ég ekki fjölyrða. Ég vænti þess, að það sé tryggt, að frv. fáist samþ. í því formi, sem það nú er, og er þá á valdi þeirra, sem með fjármál fara, hverjar frekari ráðstafanir er hægt að gera síðar.