21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Thor Thors:

Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum til þess að svara hv. þm. Hafnf. En ég vil aðeins minna hann á, að hann hefir breytt afstöðu sinni undir umr. málsins, þar sem hann helt því ákveðið fram við 1. umr., að ekki ætti að hugsa um kennslu að svo stöddu, og við hefðum því byrjað á öfugum enda. Studdi hann mál sitt þá aðallega með því, að háskólaráðið væri búið að tala og hefði tjáð sig samþ. frv. skipulagsn. En nú hefir það einróma lýst yfir því, að það hafi frá upphafi talið æskilegra frekara samband við háskólann en það frv. gerir ráð fyrir. Einmitt vegna þessarar umsagnar verð ég að telja, og ég veit það raunar, að allur þorri háskólaráðs er okkar frv. fylgjandi í raun og veru, hvað sem kann að hafa komið fram á yfirborðinu.

Hv. um. talaði öðruvísi en jafnaðarmenn tala stundum, a. m. k. þegar þeir eru í minni hl., því að þá er allt hægt að gera. En nú er ekki hægt að gera annað en það, sem er kleift og sanngjarnt og rétt. Það er nú svo, að það er lítið, sem munar á því um atvinnudeild og rannsóknarstofnun, hvað er kleift. Atvinnudeild hefir nær engan aukinn kostnað í för með sér fram yfir rannsóknarstofnun. Það er sanngjarnara að samþ. atvinnudeild en rannsóknarstofnun, þegar tekið er tillit til þess, í hvert öngþveiti stúdentar eru komnir í vali á námsgreinum. Það er réttara að samþ. atvinnudeild einmitt út frá því sjónarmiði, að það þarf að finna einhverja nýja leið til þess að beina stúdentastraumnum inn á.

Hv. þm. taldi að lokum, að háskólaráð hefði gert rétt í því að samþ. þetta, sem það fékk hjá skipulagsnefnd, því að á þann hátt yrði stúdentum gert mest gagn í þessu efni. Ég vil benda honum á það, að fyrsta kastið verður nær ekkert gagn að þessu fyrir stúdenta, þar sem kennsla byrjar ekki fyrr en einhvern tíma í framtíðinni, þegar háskólaráði, atvmrh., og skipulagsnefnd þóknast. Hér er seilzt svo langt út í framtíðina, að vitanlega er ekki auðvelt að tala um það gagn, sem stúdentar hafa af því, að frv. frá skipulagsnefnd verði samþ.