02.04.1935
Efri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Magnús Guðmundsson:

Ég er alveg undrandi yfir því, að hæstv. ráðh. skuli ekki finna ástæðu til að svara neinu í þessari löngu og ýtarlegu ræðu hv. 1. þm. Reykv. Það bendir til þess, sem mig uggir, að í þessu máli eigi lítið að skeyta rökum. En auk þess, sem ég benti á áðan, finnst mér æði flasfengið að samþ. þetta frv. nú, einmitt á sama þinginu, sem við erum í þann veginn að fresta af því, að því er sagt er, að það þykir svo óvíst um fjárhagsafkomu ríkisins í framtíðinni. Þetta frv. kemur til með að kosta ríkið mikið, ef að lögum verður og þau komast í framkvæmd, og þess vegna finnst mér ekki til of mikils mælzt, þó farið sé fram á, að afgreiðsla þess bíði til haustsins, ekki sízt ef það er svo, sem ég hygg, að ekki eru neinar líkur til, að frv. komi að notum, þó það verði samþ. nú. Væri þá nær að nota tímann í sumar til þess að ná samkomulagi um málið. því eins og hv. 1. þm. Reykv. hefir nú upplýst, þá segja háskólakennararnir hér einum rómi á fundi, að það verði að teljast óhjákvæmilegt lágmarksskilyrði fyrir fjárframlögum af háskólans hálfu, að brtt. mínar verði samþ., og það var ástæðan til þess, að ég bar þær fram. Ég skil ekki, hvernig hæstv. ráðh. ætlar að láta samþ. frv. eins og það er; það er alveg óforsvaranlegt, þegar maður hefir það svart á hvítu, að þeir menn, sem yfir fénu ráða, munu ekki leggja það fram nema fullnægt sé þessu skilyrði. Undir slíkum kringumstæðum er það ekkert annað en skollaleikur að vera að samþ. frv.

Mér kom það einkennilega fyrir að heyra hæstv. ráðh. segja, að það hefði verið óþarfa fyrirspurn hjá mér, þegar ég spurði, hvað lægi í því skilyrði af hálfu háskólans, sem prentað var í niðurlagi aths. við frv. eins og það var flutt í byrjun. Ég spurði af því ég vildi fá svar hæstv. ráðh. um það, hvort hann væri samþykkur því, sem segir í bréfi háskólaráðs, sem ég héti hér í höndum. En hann svaraði þessu eiginlega ekki neinu. Ég varð að líta svo á, að þar sem háskólaráðið hefir verið með í þessari atkvgr., sem hv. 1. þm. Reykv. nefndi, þá geti hæstv. ráðh. ekki lengur byggt á samþykki þess fyrir þessu frv., en hvort það hefir nokkurntíma samþ. það, veit ég persónulega auðvitað ekkert um.

Það hlýtur að vera á ábyrgð hæstv. ráðh., að hann sé ekki að láta samþ. hér frv., sem vitað er um, að ekki getur komið að neinum notum. Og þess vegna er hann skyldur til, að því er mér finnst, að sanna hér fyrir d., að hann hafi einhver ráð til þess að koma þessu máli í framkvæmd þrátt fyrir mótmæli háskólakennaranna allra í einum hóp.

Mér sýnast það einnig rök í þessu máli, að stúdentarnir yfirleitt eru á móti því. Það er þó mikilsvert skilyrði fyrir notum þessarar stofnunar fyrir háskólann, að hún sé vel séð af stúdentunum. Og mér er óskiljanlegt það kapp, að vilja ekki reyna þann útveg, að fresta málinu og reyna að fá samkomulag um það í sumar. ekki sízt þegar það er upplýst af hv. 1. þm. Reykv., sem ég vissi ekki áður, að það vantar alveg lóð undir þetta hús.

Annars skal ég ekki fjölyrða um þetta mál frekar. Hv. 1. þm. Reykv., sem er málinu nákunnugur, hefir gert hér sérlega glögga grein fyrir því, svo ég get þar að sjálfsögðu engu bætt við. En mig undrar, að hæstv. ráðh. og meiri hl. n. skuli enga hvöt finna hjá sér til þess að reyna að svara einhverju af þeim rökum, sem komu fram hjá hv. 1. þm. Reykv.