29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Guðbrandur Ísberg:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, um bæjargjöld á Ísafirði, er eitt af þremur frv. með svipuðu nafni, sem borin hafa verið fram í þessari d. Tvö þeirra hafa nú verið afgr., annað þeirra, um bæjargjöld í Vestmannaeyjum, hefir verið afgr. til Ed., hitt frv., um bæjargjöld á Akureyri, var fellt við 2. umr.

Þessi tvö frv. voru sama eðlis, þau heimiluðu bæði að leggja á vörugjöld til bæjarsjóðs. Skoðanir manna á þessum frv. voru nokkuð skiptar. Jafnaðarmenn lögðust á móti þeim af þeirri ástæðu, að þetta kæmi jafnt niður á öllum, sem vörunnar neyttu, jafnt ríkum sem fátækum. var því ekkert við því að segja, þó að þeir út frá sínu sjónarmiði greiddu atkv. á móti frv. Framsóknarmenn aftur á móti voru á móti frv. um bæjargjöld á Akureyri af þeirri ástæðu, að þar væri einnig seilzt til manna, sem byggju utan Akureyrar. Aftur á móti greiddu þeir atkv. með frv. um bæjargjöld í Vestmannaeyjum til Ed.

Hér liggur nú fyrir þriðja frv. af þessu tægi, frv. um bæjargjöld á Ísafirði, og það er byggt á allt öðrum grundvelli. Vil ég þegar taka það fram, að ef það hefði verið byggt á sama grundvelli og hin tvö frv., þá hefði ég hiklaust greitt því atkv. hér er aftur á móti gert ráð fyrir, að ríkissjóði sé aflað tekna á tvennan hátt, annarsvegar með fasteignagjöldum, mjög breytilegum, og hinsvegar með bæjarrekstri á uppskipun.

Það hefir verið bent á það hér, að þessi bæjarrekstur á uppskipun getur verið ákaflega hæpin leið til tekjuöflunar fyrir bæjarsjóð. Það er viðurkennt yfirleitt, að opinber rekstur sé dýrari en hjá einstaklingum. Þar er miður gætt hagsmuna atvinnurekstrarins. Því er hætt við, að ef ekki yrðu hækkuð þau gjöld, sem hingað til hafa verið greidd fyrir uppskipun vara, þá yrði hagurinn lítill. Það er því augljóst, að þó látið sé í veðri vaka, að afgreiðslugjöldin muni ekki hækka, þó bærinn taki skipaafgreiðslu alla í sínar hendur, þá muni eigi svo verða í reyndinni, heldur reka fljótt af því, að gjöldin yrðu hækkuð. Ég er mótfallinn opinberum rekstri bæjarfélaga á uppskipun, tel slíkan rekstur betur kominn í höndum einstaklinga, þann veg. verði hann borgurum hagkvæmastur og ódýrastur.

Viðvíkjandi fasteignaskattinum, þá er hann ákaflega mismunandi, eins og bent hefir verið á, eða frá 1% til 1‰. Þetta hljóta menn undir eins að reka augun í, en hinu bjóst ég þó ekki við, að það lægi á bak við, sem nú hefir verið yfir lýst, að þetta mismunandi háa gjald sé sett með það fyrir augum, að leggja megi það á eftir efnum og ástæðum. Þessu var lýst yfir af hv. 1. landsk. Hann orðaði það svo: Ég tel það kost við álagninguna, að henni má haga eftir efnum og ástæðum þeirra manna, sem fasteignirnar eiga. — Ég vil leyfa mér að mælast til þess við hv. þm. Ísaf., sem flytur þetta mál, að hann taki vel eftir þessari yfirlýsingu, sem ég skrifaði orðrétt upp eftir hv. 1. landsk. Þetta gerir æðimikinn mun. Það má benda á það með nokkrum rétti, að breytileg ákvæði um fasteignagjald gerir æðimikinn mun. Það má benda á það með nokkrum rétti, að breytileg ákvæði um fasteignagjald eru til í öðrum l., en þar er þó alstaðar útilokað, að hægt sé að leggja það á eftir efnum og ástæðum.

Hv. 8. landsk. benti réttilega á það, að með þessu móti yrði að færa gjald af húseign ýmist upp eða niður, eftir því hver eigandinn er. Ef maður, sem er talinn ríkur, á hús skuldlaust, skulum við segja, þá fær hann ákveðið fasteignagjald samkv. sínum efnahag. En svo selur hann húsið manni, sem á það í skuld og á engar aðrar sérstakar eignir, þá á að verða breyt. á þessu gjaldi, því að það skal vera lagt á eftir efnum og ástæðum. Þannig getur verið, að verði að breyta aftur og aftur fasteignagjaldi af sömu eigninni, og með þessu er þá komið út í hreinar ógöngur.

Með þessu er þó ekki sagt, að ég eða við sjálfstæðismenn séum því mótfallnir, að sum gjöld séu lögð á eftir efnum og ástæðum. við viðurkennum t. d., að rétt sé að leggja útsvör á eftir efnum og ástæðum og einnig tekju- og eignarskatt, ekki aðeins hækkandi eftir hækkandi eignum og tekjum, heldur einnig stighækkandi. Svo langt getum við gengið. En það er til of mikils mælzt, að fara fram á það, að við göngum svo langt, að samþ. það, að bein fasteignagjöld verði lögð á eftir efnum og ástæðum, eins og hér er lýst yfir, að eigi að gera. Ég hlýt að ganga út frá því, að hér sé ekki um misskilning að ræða, þar sem fyrir liggur yfirlýsing af hálfu hv. 1. landsk. þó mætti kannske beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. Ísaf., hvort hann hefir nokkuð við nefnda yfirlýsingu að athuga. sé svo, gerir hann væntanlega grein fyrir sinni skoðun á því atriði.