21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

50. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Páll Þorbjörnsson:

Fyrir síðasta þingi lá frv., sem gekk mjög í sömu átt og þetta, um bæjargjöld á Akureyri. Í umr. um það mál var að nokkru leyti vikið að þeim lögum, sem hér liggja fyrir til breyt. um bæjargjöld í Vestmannaeyjum, og farið er fram á, að verði látin haldast áfram. ég vil segja, að með þessum lögum hafi verið lagt út á þá óheillabraut, að leyfa bæjarfélögum að afla sér tekna á þann hátt að leggja á borgarana þau gjöld, sem koma jafnþungt niður á þeim aumustu og fátækustu eins og þeim, sem eru vel aflögufærir og jafnvel efnaðir. Það hefir sýnt sig, að önnur bæjarfélög vilja óðfús komast inn á þessa sömu braut og Vestmannaeyjakaupstaður, og eru nú komin fram frumv. í þá átt fyrir Akureyri og Siglufjörð. Má því búast við, að hvert bæjarfélagið á fætur öðru fari fram á þetta við Alþingi, og vil ég benda á, að það er full ástæða til þess fyrir hv. þdm. að gera sér það ljóst. hvaða afleiðingar það hefir fyrir landsmenn yfirleitt, ef bæjarfélög Reykjavíkur og Akureyrar t. d. fengju leyfi til að leggja þetta gjald á vörur, sem þangað eru fluttar og eru síðan seldar íbúum annara héraða. Þessir aðalhafnarbæir eru miðstöðvar vöruflutninga frá útlöndum og gætu því samkv. þessari heimild um vörugjald lagt skatta á íbúa í fjarlægum landshlutum, er rynnu í bæjarsjóðina. Hv. þm. Vestm. hefir haldið því fram, að við jafnaðarmenn færum með rökvillur, þegar við segjum, að þessi vörugjöld hljóti að hækka verð á vörum til neytenda. En það er ekki rétt hjá honum; þessi skattur er beinlínis lagður á neytendur varanna, og tiltölulega þyngst á þá, sem sízt geta undir honum risið. Það má ef til vill til sanns vegar færa, að verð sumra vörutegunda hækki ekki jafnmikið og tollinum nemur. En það liggur í hlutarins eðli, að verzlanir verða yfirleitt að leggja gjaldið á vörurnar, þó að þær ef til vili undanskilji sumar vörutegundir að einhverju leyti og leggi þeim mun meira á aðrar, þá kemur það nokkurnveginn í sama stað niður. Hv. þm. taldi, að gjaldið kæmi mjög vægt niður á kornvörur og sykur, en síðar sagði hann, að nú væri farið að leggja það freklega á vörur eins og t. d. skófatnað. Ég þarf nú raunar ekki að upplýsa hann um það, að sykur, kornvörur og skófatnaður eru að því er þetta snertir í sama vöruflokki í Vestmannaeyjum. Og sjá allir, hvaða sanngirni muni vera í því að leggja jafnt gjald á sömu þungaeiningu í þessum vörum, þar sem t. d. 100 kg. af skófatnaði eru 10. sinnum verðhærri en 100 kg. af smjörlíki; þessi tollur er einnig mjög lítill á skófatnaði í samanburði við smjörlíki. Langversti annmarkinn á þessu gjaldi er sá, að það er þungaskattur á vörur, en ekki verðskattur. Annars er óþarft að ræða frekar um þetta; hv. 1. landsk. skýrði ýtarlega frá því í sinni ræðu, að skoðanir manna í Vestmannaeyjum væru mjög skiptar um þessi gjöld, þannig að allur þorri almennings er svo að segja undantekningarlaust óánægður með þau og hefir fundið, hvað þau koma ósanngjarnlega niður á borgarana. Þau verka þannig, að hinir efnaðri á meðal bæjarbúa bera lægri útsvör en ella, sem þó eru frekast farir um að gjalda til bæjarþarfa, enda berjast þeir nálega einir fyrir því að viðhalda þessu rangláta gjaldi.

Ég vil að lokum minna hv. þdm. á það, að samskonar frv. og þetta var fellt á síðasta þingi, og vænti ég, að Alþingi felli einnig þetta frv. nú, eins og frv. um bæjargjöld á Akureyri.