23.11.1935
Efri deild: 77. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

158. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Ingvar Pálmason:

Hv. frsm. segist ekki sjá hættuna af því að samþ. þetta frv. Ég hefi nú ekki haldið því fram, að frv. væri hættulegt, heldur að það væri svona frekar til óþurftar heldur en gagns. Og skal ég svo ekki pexa um það meir.

Hv. frsm. telur það óviðeigandi að svipta menn atvinnu í fullum starfskröftum. Ég hefi ekki orðið var við, að menn væru álitnir vera í fullum starfskröftum 65 ára gamlir. Það er ekki almennt litið svo á, þó hv. frsm. kunni að gera það.

Hv. frsm. var að tala um það, að hér væri ekki um langan starfsdag að ræða, þar sem sjaldan kæmi fyrir að unnið væri að mati nema part úr degi. Ég vil ekki segja: mikil er trú þín, kona, heldur: mikil er fáfræði þín, maður. Ég bý nú í minna útgerðarplássi heldur en hv. þm., en þar er oft staðið frá morgni til kvölds við að meta fisk, því þó það sé ekki nema 1—2 þús. pakkar, sem á að meta, þá er það talsvert mikið verk. Og ég hafði satt að segja haldið, að það væri svo mikill fiskur að meta hér í Reykjavík, að ekki væri verið að leika sér að því að vinna 2—3 tíma á dag.

Þá vildi ég aðeins benda á það, að samkv. gildandi l. er heimild til þess að framlengja starfstíma embættismanna til 70 ára aldurs, ef þeir þykja til þess nógu ernir. Mér skilst því, að ekki þurfi neina lagabreyt. til þess, að 65 ára gamall matsmaður geti haldið áfram starfi sínu, ef yfirmatsmaður telur hann svo ernan, að hann sé starfinu vaxinn. Þetta sýnir enn frekar, hversu óþarft er að samþ. frv., enda engin ástæða til að taka upp heimild, sem er í gildandi l.