11.11.1935
Efri deild: 66. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (2281)

91. mál, fávitahæli

Frsm. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

Allshn. hefir orðið sammála um að mæla með frv., en þó með nokkrum breyt., sem að vísu eru mest formbreytingar, þannig að ákvæði færast á milli greina og greinar eru orðaðar um án þess að meining frv. breytist. Helzta nýmælið er við 2. gr. Þar er bætt við ákvæði um það, að þær stofnanir, sem samið er við um að taka við fávitum til hjúkrunar eða námsvistar, hafi þeim starfsmönnum á að skipa, sem fullnægi skilyrðum kennslumrh. um undirbúning eða reynslu í starfinu. N. lítur svo á, að þörf sé að hafa í frv. ákvæði þessu til tryggingar.

Þá hefir n. borið fram tvær brtt. við 3. gr., önnur þeirra er aðeins orðabreyt., sem leiðir af breyt. á 1. gr. Hin breyt. er við síðari málsgr. greinarinnar og er um það atriði, að í stað þess að ákveða í frv. að sett séu sérstök lög, þegar skólaheimili eru komin, um skólaskyldu þeirra fávita, sem hægt sé að kenna, þá finnst n. réttara, að þegar skólaheimili eru orðin nægileg í landinu, þá verði af kennslumálaráðh. sett ákvæði með reglugerð um þetta efni, og þá jafnframt um nauðsynlega sérmenntun fávitakennaranna.

Við 5. gr. hefir n. einnig gert nokkra breyt., en hún er að mestu formsbreyt. og gert ráð fyrir nánari ákvæðum með reglugerð. Við 6. gr. er aðeins formsbreyt., og finnst n. betur fara, að ráðh. skipi eftirlitsn. með heimilum þessum og hælum heldur en heilbrigðisstjórn setji hana.

N. lítur svo á, að lögin séu þörf og eigi fullkominn rétt á sér. Hinsvegar er ekki gert ráð fyrir útgjöldum til byggingar heimilanna nema jafnóðum og fé er veitt til þeirra í fjárl., svo fullkomlega er tekið tillit til getu ríkissjóðs. Um bráðabirgðaákvæðið, um greiðslu á kostnaði af framfærslu fávitanna, nægir að vísa til þess, að það bráðabirgðarákvæði gengur ekki eins langt eins og bráðabirgðarákvæði annars Frv., sem hér er borið fram að tilhlutun ríkisstj.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um málið, nema tilefni gefist til þess, en legg til, að það nái fram að ganga.