04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

1. mál, fjárlög 1936

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég verð að vera stuttorður, vegna þess hve lítinn tíma Sjálfstfl. á eftir, og formanni flokksins er ætlað nokkuð af þeim tíma.

Hæstv. fjmrh. belgdi sig mjög út, þegar hann svaraði mér og sagði, að það sæti verst á mér af öllum sjálfstæðismönnum að álasa stj. fyrr og síðar fyrir óstjórnlegar skattpíningar, þar sem ég væri formaður Sálfstfl. í bæjarstj. Rvíkur, og það væri kunnugt, hvers gífurlega há gjöldin væru til bæjarins. Þau hefði vaxið frá 1929–1935 um 91%, úr 1929 þús. upp í 3185 þús. kr.

Munurinn á gjaldahækkun Rvíkurbæjar og ríkissjóðs er aðallega sá, að gjaldahækkun ríkissjóðs kom aðallega, þegar fyrrv. ríkisstj. batt ríkissjóði þá bagga, sem hann er nú að sligast undir. En gjaldaaukning Rvíkurbæjar hefir aðallega orðið á kreppuárunum eftir 1930, þegar hann varð að mæta þeim örðugleikum, sem af kreppunni stöfuðu. Getuleysi ríkissjóðs nú stafar af þeim byrðum, sem lagður voru á ríkissjóðsjálkinn á veltiárunum. Þess vegna er það, hvað erfiðleikar ríkissjóðs eru miklir nú.

Hinsvegar vil ég benda þessum fávísa ráðh. á það, að sá munur er á með ríkissjóð og bæjarsjóð, að bæjarsj. ræður ekki nálægt því að öllu lyti útgjöldum úr bæjarsjóði, því að stjórn og þing hefir aðstöðu til þess að auka útgjöld bæjarsjóðs. Ég hefi áður svarað þessum ásökunum hæstv. ráðh. því að hann hefir áður komið með þær. Get ég endurtekið það svar með því að segja frá því, hvaða útgjaldabálkar bæjarsjóðs hafa vaxið mest. Launagreiðslur hafa hækkað úr 80000 upp í 215000, um 135000 kr. Hvers vegna? Af því að bæjarstj. hefir ekki umráð yfir lögreglunni, heldur lögreglustjóri. Lögreglan hefir verið aukin samkv. hans kröfu. En lögreglustjóri hefir á hendi alla framkvæmd í þessu, og á bæjarsjóður þar allt undir hagsýni hvers, sem með mál þessi fer.

Annar liðurinn er fátækraframfærslan. Sá liður hefir vaxið um 442000 kr. Þar er þess fyrst og fremst að gæta, að á þessum kreppuárum hefir bæjarsjóður ekki einu sinni orðið að standa undir sínum eigin útgjöldum, heldur líka fyrir sveitarfélög, sem hafa ekki getað staðið í skilum með framfærslu sinna þurfamanna.

Sjúkrakostnaður hefir varið um 54000 kr. Fjórði liðurinn, atvinnubætur, voru engar 1929, en á fjárhagsáætlun þessi ár hefir orðið að taka 465000 kr. til þeirra þarfa, eða því sem næst eins mikið og ríkissjóður verður að leggja til atvinnubóta á öllu landinu. Þetta er líka afleiðing af kreppunni.

Þá er barnafræðslan, sem stjórn og þing ráða. Sá liður hefir hækkað um 233000 kr., og það ætti hæstv. fjmrh. að vita, að barnafræðslan er starfrækt eftir l., en ekki samkv. samþykkt bæjarstjórnar. Þar við bætist gagnfræðaskóli, sem er líka starfræktur samkv. l. frá Alþingi, og byggingarsjóður verkamanna, sem er líka lagður á af löggjöfinni, samtals 97000 kr. Þetta er samtals 1426000 kr. Þar við bætist innlimun Skildinganess, sem er framkvæmd eftir lagaboði frá Alþingi og kostar bæinn um 90000 kr., og loks kaup á landi við Skerjafjörð, sem öll bæjarstjórnin er sammála um.

Þarna er þá gerð grein fyrir allri þeirri hækkun, sem orðið hefir á undanförnum árum og hæstv. ráðh. talaði um.

Hæstv. ráðh. sagði, að þau laun, sem bærinn greiddi, væru hærri en þau laun, sem ríkisjóður greiddi. Það er rétt, að á pappírnum greiðir bæjarsjóður hærra en ríkissjóður. En lögmælt laun hjá ríkissjóði er allt annað en það, sem hann borgar. Hæstv. ráðh. talaði um, að borgarstjóri hefði 17000 kr. í laun, en þau eru 16800. En einn embættismaður hjá ríkinu hefir 9000 kr. í lögmælt laun og 8000 að auki. Hæstv. ráðh. segir, að borgarritari hafi 9000 kr. laun. En einn fulltrúi hjá ríkinu hefir í laun 6000 kr., en á rúmlega hálfu ári hefir hann fengið önnur 6000, eða samtals 12000 kr.

Hæstv. ráðh. talaði líka um laun rafmagnsstjóra og hafnarstjóra. Það er rétt, þeir hafa mikil laun, en tilsvarandi launagreiðslur er hægt að finna hjá opinberum starfsmönnum, t. d. ákvað fyrrv. stj. laun búnaðarbankastjóranna, og það var ekki stj., sem sat 1933, sem gerði það, heldur var það stj., sem sat 1930. sem ákvað þau laun, og þau eru sambærileg við þau laun, sem þessir tveir menn hafa hjá þessum tveimur fyrirtækjum. Þessi belgingur ætti því að fara úr hæstv. ráðh. út af samanburðinum.

Ég get ekki stillt mig um að vekja athygli hv. 4. landsk. á því, þegar hann var að reyna að réttlæta stjórnarflokkana með því, að þeir hefðu lækkað nauðsynjavörutollinn í fyrra — bann nefndi kaffi- og sykurtoll —, ég vil minna hann á það, að hækkunin á kaffitollinum var unnin upp með hækkun á kaffibætistollinum, og samtímis var stórkostlega hækkaður munaðarvörutollur og tollur á vörum, sem eru almennar nauðsynjavörur og koma því eins niður á gjaldgetu almennings í landinu eins og sykurtollurinn.

Ég skal svo ekki eyða meiri tíma að þessu sinni, vegna þess að hv. formanni flokksins er ætlað það, sem eftir er.