23.03.1935
Efri deild: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (2744)

73. mál, fangelsi

Sigurjón Á. Ólafsson [óyfirl.]:

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, og vil ég gera hér grein fyrir honum.

Ég verð að játa, að ég álít tilefni þessa frv. í öllum aðalatriðum réttmætt, þar sem ákveðnar kröfur liggja fyrir úr ýmsum héruðum, þó að ég verði hinsvegar að játa, að ríkissjóður hafi á þessum tímum annað við fé sitt að gera heldur en verja því til fangelsisbygginga.

En það mun m. a. hafa vakað fyrir fjvn., þegar hún flutti frv. á síðasta þingi, að rýmkun áfengislöggjafarinnar gæfi tilefni til þessa. Meiningin mun hafa verið sú, að í öllum stærri kauptúnum gæfist færi á að bjóða ölóðum mönnum inn í þægileg húsakynni. Við þessu er ekkert að segja, úr því sem komið er, að okkur hefir tekizt að búa löggjöfina svo úr garði. Þetta er þá sennilega nauðsynlegt framhald.

En ég gerði fyrirvarann sérstaklega við brtt., sem hér liggur fyrir. Í frv. var ekki skýrt ákveðið, hvort fangelsið í Reykjavík gæti heyrt undir ákvæði þess. Því vildi n. kveða hér skýrar að orði. Frá því fangelsi hefir verið til í Reykjavík, hefir ríkið haft allan kostnað þess. Það var upphaflega byggt af ríkinu, og það hefir verið rekið af ríkinu. Með þessari brtt. er ótvírætt sett það ákvæði, að Reykjavíkurbær greiði helming rekstrarkostnaðar, meðan ekki þarf að byggja nýtt fangahús. Sá kostnaður nemur ekki minna en 8000 kr., og sé ég ekki ástæðu til að láta þann kostnað lenda á Reykjavík, m. a. af því, að ég hygg, að fangelsið hér í Rvík megi skoða sem ríkisfangelsi, því það hefir tekið við föngum víðsvegar af landinu. Ég tel því ekki rétt að koma kostnaðinum á Rvíkurbæ, frekar en áður hefir verið, og meðfram af því, að ég hygg, að Rvíkurbær leggi fyllilega sinn skerf fram til ríkissjóðsins, og því er óþarft að hlaða á Rvík byrðum, sem hún hefir ekki áður haft. Ég mun því greiða atkv. gegn brtt. þessari, en láta frv. hlutlaust að öðru leyti, af því mér skilst, að eitthvert húsnæði þurfi yfir óróaseggina, a. m. k. þá ölóðu.