21.12.1935
Sameinað þing: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

1. mál, fjárlög 1936

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Út af fyrirspurn hv. þm. Borgf. í sambandi við lækkun styrks til Fiskifélagsins skal ég taka það fram, að ég lít svo á, að eins og rekstri Fiskifélagsins er nú hagað, þá tel ég ekki líkur til, að félagið geti haldið áfram í sama horfi og það hefir starfað, ef lækkun styrksins verður samþ. og að öðru óbreyttu. Mér er kunnugt um það, að fjárupphæð sú, sem Fiskifélagið fær, er mjög vel notuð. Forseti félagsins telur og, að ekki sé hægt að halda alla núv. starfsmenn félagsins, en ég tel mikinn skaða að hverjum þessara manna fyrir sig. Fiskifélagið hefir starfað með framsýni. Það hefir stutt beint og óbeint tvo efnilega menn til vísindanáms erlendis, sem komnir eru nú í þjónustu þess, og má vænta, að verði að góðu gagni. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég geri allt, sem í mínu valdi stendur, til þess að Fiskifélagið geti haldið áfram að njóta þeirra starfskrafta, er það nú hefir, þrátt fyrir það, þó styrkur til félagsins lækki, og ég hefi hugsað mér það helzt á þann hátt, að ýmsar stofnanir, sem ýmist eru opinberar eða háðar því opinbera, kaupi vinnu þessara manna hjá Fiskifélaginu að einhverju leyti, svo félagið þurfi ekki að fækka sínum mönnum.