10.12.1935
Efri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (3741)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Magnús Guðmundsson:

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. viðurkenndi, að ástandið væri erfitt í Sauðárkrókshreppi, en það væri víðar illt ástand, og því væri ekki ástæða til að hjálpa í þessu tilfelli. Það er lítil hjálp í því að segja þeim, sem er í vandræðum nú og þarfnast hjálpar, að hann skuli kannske fá hjálp að ári. Þetta svar hv. þm. er því bara út í hött. Ég vil leggja sérstaka áherzlu á það, sem hv. frsm. minni hl. fjhn. sagði, að hér væri um það eitt að ræða að firra þetta sveitarfélag vandræðum í bili, með því að leyfa því að taka sérstakan skatt í eitt ár, þó því aðeins, að héraðið allt samþ. Mál þetta liggur þannig fyrir, að héraðið, sem verzlun sækir á Sauðárkrók, vill hjálpa hreppsfélaginu. Ef meiri hl. hér á Alþingi segir svo: Þetta megið þið ekki gera, - þá finnst mér það alls ekki forsvaranleg aðferð. Hér stendur svo á, að fjöldi fólks hefir flutt til Sauðárkróks síðustu árin, og er fátækraframfærslan þar orðin svo þung, að hreppurinn rís ekki undir henni, sökum hins gífurlega atvinnuleysis. Gangi hv. þm. því á móti frv., þá fæ ég ekki annað séð en að það sé af eintómri meinsemi gert. Eins og tekið er fram í frv., þá er það m. a. sett sem skilyrði fyrir því, að leggja megi þennan skatt á, að meiri hl. almenns hreppsfundar samþ. það. Nú vill svo til, að í gær var haldinn almennur hreppsfundur á Sauðárkróki um þetta og þar samþ. einum rómi að leggja þetta gjald á, ef heimild til þess fengist. Er því ekki hér um neitt flokksmál að ræða, svo þeirra hluta vegna er hv. þm. óhætt að samþ. frv. Nú er ekki nóg með það, að hreppsbúar Sauðárkróks samþ. þetta, heldur verður sýslunefnd Skagafjarðarsýslu að gera það líka, en hana skipa fulltrúar frá hverjum einasta hreppi sýslunnar, þess héraðs, sem verzlun sækir á Sauðárkrók. Ég fæ því ekki séð, hvernig ætti að fara sanngjarnari leið en þetta. Hér spyrja íbúar héraðsins um það eitt, hvort þeim leyfist að fara svona að til þess að hjálpa einu sveitarfélagi, sem er illa statt fjárhagslega. Það er því hart, ef Alþingi neitar um annað eins og þetta.

Eins og kunnugt er, þá hefir eitt slíkt mál verið samþ. hér á Alþingi, heimildin til álagningar vörugjalds í Vestmannaeyjum. Aftur var svipað mál, sem snerti Siglufjörð, fellt, og það munu vera afdrif þess frv., sem hv. 1. þm. Eyf. setur fyrir sig; nú. Annars á ég bágt með að trúa því, að þessi hv. þm., sem sjálfur hefir flutt hér í þinginu samskonar frv. og þetta, fari að ganga á móti þessu frv. En verði sú raunin á, að hann geri það, getur það ekki stafað af öðru en því, að hann hafi fyllzt einhverjum „fitonsanda“ af því að frv. hans var fellt.

Ég vil nú að síðustu leyfa mér að fara fram á það, að þessu héraði, sem hér á hlut að máli, verði ekki meinað þess af hálfu löggjafarvaldsins að fara til bráðabirgða þessa leið, sem það biður um, til þess að hjálpa þessu fátæka og aðþrengda sveitarfélagi. Að neita slíkri beiðni tel ég alls ekki sæmandi fyrir Alþingi. Það þýðir ekkert að segja við þann, sem svangur er í vetur: Þú skalt fá að borða næsta vetur. - Hið sama gildir í þessu tilfelli um Sauðárkrókshrepp. Það er engin hjálp fyrir hann nú, þó að á næstu þingum verði ef til vill sett lög um nýja tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög, og það bætir ekkert úr neyð þessa hreppsfélags, þó að einhver önnur hreppsfélög kunni jafnvel að vera enn verr stæð. Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það svart á hvítu, að hv. deild lofi þessu frv. ekki að verða að lögum þetta eina ár, sem um er beðið.