19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (3926)

66. mál, starfsmenn ríkisins og laun þeirra

Flm. (Jörundur Brynjólfsson) [frh.]:

Það er nú svo langt liðið frá því að þetta mál var hér til umr. síðast, að mér er úr minni liðið sitt af hverju, er ég hafði hugsað mér til andsvara hv. þm. V.-Sk. Ég vil og gjarnan gera mitt til að lengja ekki umr. úr hófi fram, og hefi því hugsað mér að stytta mjög mál mitt. En þó verð ég að drepa á nokkur atriði í ræðum andmælenda minna.

Hv. þm. V.-Sk. drap á, að það væri hæpið, að starfsmenn fengjust til að vinna fyrir hið opinbera fyrir öllu lægri laun en þeir nú hafa. Þetta veit ég, að hefir við rök að styðjast, a. m. k. um suma þeirra. Það er auðvitað mál, að ríkið verður að greiða starfsmönnum svo í laun, að þeir geti verið óskiptir við störf sín og lifað sómasamlegu lífi. Hinsvegar verður að hafa hliðsjón af kjörum og lífsmöguleikum annara stétta þjóðfélagsins, þannig að þar verði nokkurt samræmi á milli. Þetta viðurkenndi hv. þm. V.-Sk., og erum við sennilega sammála um það, en hann var að svara þeim þdm., sem vildi undir öllum kringumstæðum spara launin við starfsmenn þjóðfélagsins.

Þá taldi hv. þm. V.-Sk. tæplega rétt eða heppilegt að fækka sýslumönnum og prestum án þess að þjóðin væri um það spurð. Ég get lýst því yfir, að samkv. nál. launamálan. er sú leið, að fækka starfsmönnum þess opinbera, eina ráðið, sem við fundum til sparnaðar, sem nokkuð munar um. Um leiðir í því efni taldi n. alls ekki um annað að ræða en starfsmannafækkun. Og þá urðu fyrst fyrir n. þær stéttir, sem helzt er tækilegt að fækka, og vitaskuld verður að gera það á þann hátt, sem löglegt má teljast án þess að þjóðin sé látin ganga til atkv. um það. Ég vona, að hv. þm. V.-Sk. láti sér skiljast það, að þessar till. n. eru ekki sprottnar af áreitni gagnvart þessum stéttum. Ég viðurkenni fyllilega, að þær hafa, hver á sinn sviði, gert mikið gagn. En ef það er þjóðinni fjárhagsleg ofraun að halda þessum stéttum uppi, þá verður að draga úr útgjöldunum til þeirra, og þá er betra að framkvæma það á þennan hátt, með starfsmannafækkun, heldur en að skammta launin svo smátt, að þær búi við sultarkjör. Ég álít það miklu hyggilegra. Hér hygg ég, að við hv. þm. V.-Sk. getum átt samleið. Hann minntist á, að sýslumenn hefðu yfirleitt svo lág laun, að þeir gætu tæplega lifað af þeim, enda væri hagur þeirra flestra mjög bágborinn, svo að ekki væri við unandi. Samkv. hinni nýju skipun, eftir till. launamn., á hagur þeirra að batna. Það er alls ekki meiningin, að þeir eigi að greiða skrifstofukostnaðinn úr sínum eigin vasa; sú leiðrétting er sjálfsögð, að þeir fái hann endurgoldinn, og hafi okkur skort kunnugleika til ákvarðana um þetta, eða við verið of naumir, þá tökum við góðfúslegum bendingum í því efni. - Eins og samgöngum er nú orðið háttað í landinu, er auðvelt að fækka sýslumönnum og sameina ýmsar sýslur, vera má, að það kunni að valda einhverju tjóni í einstöku héruðum, því að góður sýslumaður getur vitanlega gert nokkurt gagn í sínu héraði, en eigi að síður er ég þeirrar skoðunar, að sýslumannafækkunin valdi ekki verulegu tjóni, og vona ég, að hv. þm. V.-Sk. skoði þessi orð mín ekki sem neina áreitni við sig. Ef hann flytur ekki búferlum innan skamms, þá eru nokkrar horfur á, að hann geti áður en langt um liður orðið yfirvald í þremur fjölmennum sýslum. Og þó að nokkuð gangi undan af þeim mannaforráðum, sem hann hefir nú, það er Austur-Skaftafellssýsla, þá hygg ég, að hin héruðin - Árnes- og Rangárvallasýslur - jafni fullkomlega þann missi. - Þetta er nú að vísu meira sagt til gamans.

Þá kem ég að prestastéttinni. Eins og kirkjusókn er nú almennt háttað hér á landi, þá held ég, að trúmálunum sé enginn voði búinn, þó að prestum verði fækkað til muna, og af því mundi ríkissjóði sparast fé til muna. Enda er sú ráðstöfun fyrst og fremst gerð af sparnaðarástæðum. Ég ætla svo ekki að fjölyrða um það meira, og hirði ekki um að tefja tímann á því að víkja frekar að einstökum till. í nál.

Hv. þm. V.-Sk. drap á það, að við hefðum í launamn. starfað á fullvíðtækum grundvelli. Ég get tæplega viðurkennt það. Ég get ekki betur séð en að það hafi verið nauðsynlegt að afla sem fullkomnastra upplýsinga um afkomu ýmsra stétta þjóðfélagsins og efnahag þjóðarinnar í heild. Og þó að um þetta kunni að vera skiptar skoðanir, þannig að sumum finnist, að það hefði ef til vill mátt sleppa einhverju af þeim gögnum, sem n. hefir safnað, þá hygg ég, að það sé fátt í nál., sem ekki skiptir máli.

Út af því, sem ég hefi áður vikið að íhlutun þess opinbera eða ríkisvaldsins um launagreiðslur hjá einkafyrirtækjum, þá skal ég láta þess getið, að ég mun bráðum leggja fram till. um það, og fjölyrði því ekki um þá hlið málsins fyrr en þær koma til umr. Og ég mun flytja þær sem einstaklingur, en ekki í nafni n.

Í þáltill. um skipun launamálan. voru bein fyrirmæli um það, að fundnar yrðu leiðir til þess að hafa áhrif á launagreiðslur hjá einkafyrirtækjum til samræmis við launahæð hjá starfsmönnum ríkisins. En þar greindi nm. á um leiðir, og um það, hvernig á því máli skyldi taka, því að vitanlega er hægt að beita til þess ýmsum aðferðum. Auk þess vannst n. ekki tími til að taka slíkar launagreiðslur til athugunar í heild. Þess vegna flyt ég einn frv. um það efni.

Hv. þm. V.-Sk. taldi mikil vandkvæði á því að sameina rekstur allra banka í landinu undir eina stjórn. N. taldi sig ekki hafa nægilegan kunnugleik á því sviði og gerði heldur engar till. um það.

Þá sagði hv. þm. ennfremur, að n. hefði sérstaklega átt að gera till. um að samræma laun hinna nýrri embættis- og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana við laun þeirra eldri, sem ákveðin eru í launalögum. Það þykist n. hafa gert. Hv. þm. beindi því jafnframt til mín, að sum af þessum nýju embættum hefðu verið stofnuð að stjórn míns flokks, og þá með miklu hærri launum en áður hefði tíðkazt hér almennt. Það má vel vera, að þetta sé að nokkru leyti rétt, þegar borið er saman við launataxta samkv. launalögunum frá 1919. En ef aftur á móti er litið á aukastörf fjölmargra eldri embættismanna, sem hafa föst laun samkv. launalögunum, og athuguð aukalaun þeirra, eða svokallaðir bitlingar, þá er fjarri því, að laun hinna yngri starfsmanna séu hærri.

Laun ýmsra hinna eldri embættismanna ásamt aukagreiðslum komast fullkomlega eins hátt og þau laun, sem samið hefir verið um á síðari árum við þá margumtöluðu launamenn í ríkisstofnunum.

Ég segi þetta ekki til þess að andmæla því, að þörf hafi verið á að samræma launagreiðslur ríkisins til eldri og yngri starfsmanna. Heldur vildi ég láta það koma skýrt og greinilega fram, að launagreiðslur til hinna nýrri starfsmanna eru ekki hærri en það, sem margir hinna eldri fá greitt samtals úr ríkissjóði, nema síður sé.

Ég held, að ég láti svo staðar numið. Ég hefi drepið á helztu atriðin, sem fram hafa komið í umr. og mestu máli skipta.

En svo ég víki enn að málinu í heild, þá tek ég það fram, að það er ekki hægt að ræða hvert þessara launalagafrumvarpa út af fyrir sig; þau grípa svo hvert inn í annað. Hjá því geta hv. þdm. ekki komizt; þess vegna er eðlilegt, að nokkuð togni úr umr., sérstaklega um þetta fyrsta aðallaunafrv. En ég vona, að það verði minna rætt um hin frumv., sem fylgja því hér næst á dagskránni, a. m. k. við 1. umr.

Ég endurtek svo fyrri ósk mína um að frv. verði vísað til 2. umr. og nefndar. Mér skilst, að það muni verða samkomulag um að skipa sérstaka n. í málið. Um leið og hún tekur það til meðferðar, vænti ég, að hún taki til óspilltra mála og afli þeirra gagna og upplýsinga, sem henni finnst nauðsynlegt. Og ég vil vona, að hvort sem þingið aðhyllist okkar till. eða ekki, þá sýni það málinu alúð og alvöru, því að þess mun full þörf. Ég vona einnig, að við hv. þm. V.-Sk. getum orðið samtaka um að hrinda málinu eitthvað áleiðis. Vera má, að ég hafi lagt fullmikið upp úr andmælum hans gegn frv., og þar sem hann lagði áherzlu á, að því yrði komið sem fyrst í mjúka sæng í n. til svefns - (GSv: Og til þess síðar að rísa úr rekkju.), má vera, að hv. þm. hafi ætlazt til þess, að n. athugaði frv.; ef sú hefir verið meining hans, þá greinir okkur minna á en mér fannst við fyrsta álit.