21.12.1935
Sameinað þing: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

137. mál, fjáraukalög 1933

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ástandið í bænum í augnablikinu veldur því, að í þessum umr. er tekið að ræða almennt um það, hvernig beri að nota lögreglu í landinu. Mér skilst allir vera á einu máli um það, að í þessu ríki verði að vera til vald á bak við ríkisstj. og Alþingi, og ekki eingöngu þessar tvær stofnanir, heldur líka önnur stjórnarvöld í landinu. Þar eð menn eru á einn máli um þetta, þá er hitt aukaatriði í þessu máli, hvernig til ríkislögreglu er stofnað og varalögreglu á sínum tíma. Enn minna er um hitt vert, hvort tekizt hafi vel eða illa val á nokkrum mönnum í lögreglu. Hitt er aðalatriðið: Ætlast Alþingi til, að ríkisstj. hafi á hverjum tíma á bak við sig vald til þess að halda uppi lögum í landinu? Er svo komið, að Alþingi sé ljóst, að á þessu sé nauðsyn? Ég þykist að vísu vita, að ríkisstj., sem nú situr, sé þessi nauðsyn ljós, þar sem hún hefir, þrátt fyrir það, að hún lagði niður þá varalögreglu, sem var, tryggt það, að til væri flokkur til að halda uppi lögum og reglu þegar á þarf að halda, fyrst og fremst í bænum og í landinu yfirleitt. Ef Alþingi er sammála um þetta, að ekki komi annað til mála en að slíkt vald sé til, til verndar íslenzka ríkinu innanlands, þá er strax mikið fengið. Og ég hefi þá trú, að nú séu menn orðnir sammála um þetta að svo miklum meiri hl. í Alþingi og innan ríkisstj., að þessi vilji sé ákveðinn og tryggður.

Þá er annað: Hvernig á að nota þetta vald og hvenær á að nota það? Ég vona, að hv. þm. verði á sama hátt sammála um, að það beri að nota alltaf þegar þörf er að koma fram l. í þessu landi. Þó skilst mér, að nokkrir vilji taka undan vissa tegund af viðfangsefnum ríkisvaldsins, þar sem þeir segja, að ekki þurfi á aðstoð ríkisvaldsins að halda í vinnudeilum. Skilst mér það vera aðalatriðið, sem menn eru ósammála um.

En ég skil ekki, hvernig nokkur þm. lætur sér til hugar koma, að ekki geti þurft undir neinum kringumstæðum á valdi ríkisins að halda í vinnudeilum til þess að halda uppi lögum og því öryggi, sem ríkið á jafnan að skapa með lögreglu. Ég skil ekki, hvernig hægt er að krefjast afskiptaleysis ríkisvaldsins undir slíkum kringumstæðum sérstaklega. Ég held, að það beri fyrst og fremst að ganga út frá þeirri grundvallarreglu, að hver maður megi leggja niður vinnu þegar hann vill. Og að menn séu frjálsir að því að hafa samtök um að leggja niður vinnu; enginn geti þvingað mann til að vinna, sem ekki vill vinna, ef hann er ekki upp á aðra kominn, svo að hann þurfi t. d. að njóta stuðnings hins opinbera sér til lífsframfæris meðan hann vill ekki vinna. Þetta er vitanlega réttur verkamannsins í vinnudeilum, hvort sem hann vinnur með höndum eða huga. En réttur hans nær ekki lengra. Hann má ekki beita ofbeldi við sinn mótpart né spilla verðmætum hans. Ekki heldur beita ofbeldi gegn sínum samverkamönnum á neinn hátt né stuðla að því. Yfirleitt á ríkisvaldið að koma til að afstýra öllu ofbeldi í slíkum kringumstæðum, hvaðan sem það kemur.

Í þessu tilfelli, sem fyrir liggur, er það mín skoðun, að þeir bílstjórar, sem hætta að aka bílum sínum vegna hækkunar á benzíni, hafi fullan rétt til þess og eins lengi eins og þeir vilja. Enginn hefir rétt til að fyrirskipa þeim að taka til starfa. Nú heyrðist mér á hæstv. forsrh., að hann óttaðist — eða hefði fregnir af því nú þegar —, að þessir menn hefðu samtök um að beita ofbeldi á einhvern hátt, t. d. spilla eignum annara. Það liggur nú í augum uppi, að ríkið verður þarna að vernda réttindi þeirra manna, sem er verið að vinna tjón. Það verður að halda uppi frelsi allra aðilja í þessu sambandi; en frelsi eins má ekki verða ófrelsi annars. Ég tala nú ekki um, að það er vitanlega tvímælalaust verkefni ríkisvaldsins að sjá um, að ekki verði beitt sameiginlegu ofbeldi eins og gert var 9. nóv. við bæjarstjórn. Það er alveg sama, hverjir það eru, sem þykjast órétti beittir og vilja rétta hlut sinn með ofbeldi, og í hvaða kringumstæðum það er. Þeir eiga ekki rétt á að hefta frelsi annara vegna þeirra eigin ímyndaða frelsis. Og allir þeir, sem á einhvern hátt hafa reynt að finna ástæðu til að bera í bætifláka fyrir framkomu ofbeldismannana 9. nóv. 1932, þeir eru ekki vinir þessa þjóðfélags, hvorki þeirra, sem yfir eru settir, né heldur hinna.

Ég er hræddur um, að það sé engin önnur regla til, sem geti gilt í þessu efni, en sú, sem ég nú hefi greint. Það má ekki heldur koma til, að þeim, sem völdin hafa á hverjum tíma, sé í sjálfsvald sett, hvernig þeir meta ástæður til ofbeldisverka. Það er engin ástæða til, sem getur réttlætt þau. Ríkið á að sjá um frelsi og réttindi allra jafnt. Og þegar á að hefta frelsi og ákvörðunarrétt hins opinbera eða einstaklinga, þá er ríkið orðið aðili í því máli. Það á ekki að velta vöngum yfir því, hvernig á þessu ofbeldi stendur og taka ákvörðun ettir því, hvort meta megi til vorkunnar í eitt skipti eða annað, að beitt er ofbeldi. því að ef farið er út í það mál, þá er komið á hættulega braut, svo hættulega, að það hlýtur að enda með upplausn þjóðfélagsins. Ef til vill líður enn nokkur tími þar til þessi stóri sannleikur er viðurkenndur af öllum, en að því hlýtur að draga.

Þeir, sem nú þykjast órétti beittir, hafa ekki nokkra heimild til að beita aðra ranglæti. Þeir verða að sætta sig við úrskurð ríkisvaldsins um það, sem hér er ákveðið. Neitað geta þeir að kaupa dýrari vöru en áður, en sem upphlaupsmenn eða ofbeldismenn eiga þeir ekki að fá samúð nokkurs manns. Þeir mega njóta sameiginlegs styrks til þess að fá þessari ákvörðun breytt, en eingöngu á þennan hátt, og öðruvísi ekki. Og ég veit, að það er þó svo mikið af greindum og hugsandi mönnum í þessum bæ, að þeir, sem ofbeldi beita í slíkum kringumstæðum, eiga ekki samúð bæjarmanna. En ríkísvaldið verður að gera sér það algerlega ljóst, að þetta frelsi borgaranna verður það að verja, hvað sem það kostar, en ekki fara að meta hugsanlegar málsbætur í hvert skipti, þegar þetta aðallogmál er brotið. Málsbætur eru yfirleitt ekki til, þegar út fyrir þessi takmörk er farið.