04.04.1935
Neðri deild: 44. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í C-deild Alþingistíðinda. (4065)

110. mál, eignarnám lands handa kaupfélagi Rangæinga

Jón Ólafsson [óyfirl.]:

Ég hefi ekki verið viðstaddur umr. þær, sem farið hafa fram um þetta mál. En ég get ekki látið það fara svo úr þessari hv. d., að ég ekki segi um það nokkur orð.

Það hefir gengið í basli með að fá menn til þess að flytja þetta mál, enda er það ekki undarlegt, því eins og upplýst hefir verið. er þetta mál hin mesta ómynd. Í frv. er beinlínis farið með rangt mál, því heimildin til eignarnámsins er byggð á því, að kaupfélagið, sem starfar við Rauðalæk, hafi ekki lóðaréttindi undir húsum sínum eða land til beitar fyrir hesta þeirra manna, sem koma til viðskipta við kaupfélagið. Ég veit nú ekki, hvað lengi starfsemi hefir verið rekin þarna, en það er áreiðanlegt, að á meðan kaupfélagið hefir starfað þarna hefir aldrei verið amazt við hestum viðskiptamanna þess. Félagið, sem starfaði þarna áður, hafði nægilegt land undir hús sín fyrir 10 kr. á ári, því þá var landið ekki metið meira. En ég veit ekki betur en kaupfélagið, sem nú starfar þar, sitji enn í sömu leigu og að ekkert hafi verið við henni haggað. Starfsemin, sem þarna er rekin, er fyrir nálægt umdæmi, og kemur aldrei fyrir, að þeir, sem verzla þar, séu næturlangt með hesta þar, en þeir, sem landið eiga, hafa aldrei amazt við því, að hestar tækju þar niður í tungunni á meðan staðið er við.

Hins er ekki getið, af hverju menn eru að sækjast eftir þessu landi. En það er af því, að kaupfélagsstjórnin hefir haft í huga að koma þarna upp kornrækt. En í stjórn félagsins hefir setið maður, sem á land þar í kring, en hann hefir álitið, að félagið hefði ekki efni á því að leggja í kornrækt í stórum stíl, og hefir hann því ekki viljað skaffa kaupfélaginu land, því hann taldi það ekki viðeigandi, af því hann gerði ráð fyrir, að kaupfélagið myndi ekki græða á þessu.

Hv. 1. flm. veit, að það er hægt að fá jarðir keyptar þar í kring, því þar hefir verið boðið til sölu land undir nýbýli fyrir mjög sanngjarnt verð. Meira að segja hefir verið hægt að fá keypt barðið fyrir sunnan lækinn, en um það hefir kaupfélagið aldrei spurzt fyrir hjá eigandanum. Ég veit því ekki, af hverju þetta frv. um lögtaksheimild er borið fram, því tæplega geta menn ímyndað sér, að landið fáist fyrir betra verð með því móti heldur en ef samið er við þá, sem eiga landið og vilja selja það.

Ef gefið er slíkt fordæmi um að taka lönd eignarnámi, þá fer að verða lítill akkur í því fyrir menn að eiga lönd, því þá geta alltaf einhverjir komið og beðið um skika úr landi þeirra. Ef ástæðan, sem nefnd er í frv., er nóg til þess að hægt sé að taka landið eignarnámi, þá fer að verða lítið öryggi fyrir því, að menn geti haldið löndum sínum.

Ég býst við, að málið fari til n., en geri ekki ráð fyrir, að landbn. leggi til, að það fari lengra, þegar hún hefir athugað það.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég þarf að taka fram. Ég hefi bent á, að það er engin ástæða til eignarnámsins, því það kreppir ekkert að kaupfélaginu um lóð undir hús sín eða beit fyrir hesta viðskiptamanna þess, en ástæðan fyrir frv. er, eins og stendur í grg., að kaupfélagið vill taka þátt í ræktun landsins, eða koma þar upp kornrækt, eins og ég hefi getið um áður.

Það sjá allir, hversu fráleitt þetta mál er, þar sem ekki er búið að ganga úr skugga um það, hvort þeir, sem landið eiga, vilja selja það. Það hefir ekki verið minnzt á þetta við eigendurna, heldur farið beina leið til þingsins með þetta vesala mál.