17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í C-deild Alþingistíðinda. (4578)

125. mál, lax- og silungsveiði

Eiríkur Einarsson:

Ég skal, eftir því sem mér er unnt. verða við tilmælum hæstv. forseta og reyna að vera ekki langorður. Ég skal ekki endurtaka neitt af því, sem ég hefi áður talað um, heldur aðeins svara að gefnu tilefni því, sem hv. frsm., þm. A.-Húnv., sagði nú enn á ný og tók í sama strenginn og hérna um daginn. — Mér þykir leitt, að hér skuli vera svo ástatt í dag, að sá maður úr landbn., sem lögfróður er, skuli ekki vera viðstaddur. Ég hefði sérstaka löngun til þess að beina orðum mínum til hans, því hann er svo sanngjarn og ber það skyn á þau mál, sem koma til greina í mínum brtt., að hann gæti ekki að athuguðu máli annað en fallizt á þær.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að farið væri út á hálan ís með því að ganga lengra heldur en frvgr. gerir viðvíkjandi skaðabótunum. En ég endurtek það, sem ég sagði um daginn, hvílík vitleysa það er að halda því fram, að sá maður, sem fyrir skaða verður í þessu efni, skuli ekki eiga skaðabótarétt án tillits til þess, hvort það er öll veiðin, sem hann missir, eða partur af henni. Við skulum t. d. segja, að það sé veiðieigandi, sem missi veiði sína með öllu, og það kæmi fram við mat, að þessi réttur hans væri ekki talinn meira en 1000 kr. virði. Þá ætti þessi maður samkv. frv. að fá fullar réttarbætur. En svo er annar maður, sem við skulum segja, að sé eigandi að veiði, sem er 9000 kr. virði. Nú skerðist þessi veiði og þeir vísu matsmenn komast að þeirri niðurstöðu, að eigandinn hafi misst hana að hálfu, en samkv. frv. fær þessi maður engar bætur, af því að hann hefir ekki misst alla veiðina. Þarna hefir annar maðurinn orðið fyrir skaða á eignargæðum sínum, sem nemur 4500 kr., en fær engar bætur; hinn maðurinn fyrir 1000 kr. skaða og fær fullar bætur. Sér ekki hv. þm., hvað hann er staddur á hálum ís, og þó hann sé kannske ágætur skautahlaupamaður, þá stendur hann ekki á þessu svelli, því það er svo hált og hrufótt. — Við skulum segja sem svo, að hv. d. sýnist svo að fella þessar brtt. mínar og gangi inn á það annarsvegar, að menn skuli ekki eiga skaðabótakröfu, nema fyrir algerðan missi á eignagæðum sínum, og hinsvegar það, að ekki skuli koma fullar bætur fyrir. En það væri nærri því broslegt, því vitanlega á að miða við fullar bætur, enda skein það í gegn hjá hv. þm. A.-Húnv., að það væri í raun og veru átt við það, að bætur skyldu vera fullar. Og því má þá ekki orða það svo í þessari lagagr.?

Hæstv. forseti sagði, að ef brtt. mínar væru samþ. hér, þá væri hætt við því, að það yrði málinu að falli, þegar til Ed. kæmi. En ég ætla, að hv. þm. Ed. beri það skyn á þetta mál, að það verði því miklu fremur að falli, ef það er samþ. hér með ákvæðum, sem beinlínis brjóta í bág við ákvæði stjskr. sjálfrar um helgi eignarréttarins. Svo ef það ætti að ganga fram í Ed., þá er nauðsynlegt að fá þessar brtt. samþ., en ekki felldar.

Þá skal ég aðeins minnast á síðustu brtt. mína á þskj. 791, sem er um það, í hvaða hlutföllum ríkissjóður og sýslusjóðir skuli greiða þessar skaðabætur. Það getur vitanlega verið álitamál og er ekkert um það að segja, þó hv. þm. A.-Húnv. geti ekki fallizt á þá till. mína. Ég álít, eins og ég tók fram um daginn, að með tilliti til fátæktar sýslufélaganna og þess, að lagasetningin er komin án þess að þau hafi verið til spurð, þá mæli öll sanngirni með þessari brtt. minni, og vænti ég því, að hv. dm. geti séð sér fært að samþ. hana.