22.03.1935
Efri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (4822)

103. mál, drykkjumannahæli

Guðrún Lárusdóttir:

Ég vil þakka allshn. fyrir till. hennar í þessu máli. Það kemur daglega betur og betur í ljós, hvílík þörf er á slíkum hælum sem þessu. Drykkjuskapurinn hefir aukizt síðan sterku drykkirnir voru fluttir til landsins. Í útvarpinu var nýlega lesin upp skýrsla um þessa aukningu, og er hryllilegt, að þjóðin okkar skuli hegða sér þannig, að auka þá nautnina, sem öllum er til bölvunar og svo mörgum verður að fótakefli. Nú liggur það í hlutarins eðli, að ríkið, sem hefir einkasölu á þessum drykk og leyfir að byrla þannig eitur þegnum sínum og skapa þeim eitthvert hið mesta böl, sjái þegnunum þá einnig fyrir þeirri líkn í þraut — sem þeir hafa orðið fyrir af völdum áfengisverzlunar ríkisins — að reisa þeim hæli.

Að þessi till. um drykkjumannahæli er borin fram í þáltill.-formi, en ekki lagafrv.-formi, kemur m. a. til af því, að ég ber fullt traust í þessu máli til stj., sérstaklega hæstv. atvmrh., sem er þekktur áhugamaður í bindindismálum, og ég vil skjóta því inn í, að einhver kröftugasta bindindisræða, sem ég hefi heyrt, var flutt af föður hans, og ég treysti því, að sonurinn hafi erft þann bindindisáhuga, sem ég varð vör við í þeirri ræðu.

Ég vona, að hv. d. sjái sér fært að samþ. þessa till. til þál., stíga þetta fyrsta spor í undirbúningi að stofnun drykkjumannahælis, og hrindi svo málinu í framkvæmd. því það er hin brýnasta þörf.

Upp á síðkastið hafa komið fram margar raddir um nauðsyn málsins. Það ber að skoða þáltill. sem eina slíka ráðstöfun. Mér virðist, að stj. hafi góða aðstöðu til að hrinda málinu fram, þar sem hún hefir aðstoð áfengismálaráðunauta, sem áfengislögin frá síðasta þingi ákveða til aðstoðar henni í þessu máli.

Við Íslendingar eigum engar skýrslur ekkert til að fóta okkur á í þessu efni, nema þörfina, sem alltaf vex, eftir því sem menn komast lengra og lengra niður í flöskuna. Það er vandi að stiga þetta fyrsta spor, en ég óska og vona, að það megi vel takast hjá velunnurum málsins.

Það væri í rauninni mikils virði að víkja að reynslu nágrannaþjóðanna í þessu efni, um rekstur drykkjumannahæla. Ég vil drepa á, að 1910 sá læknafélag Noregs ástæðu til að hetja slíka starfsemi með því að reisa lækningadeild til að lækna drykkjumenn. Ríkisstyrkur var veittur og starf var hafið 7. júlí 1910. En fyrstu árin var ekki fundinn verulega fastur grundvöllur fyrir starfsemina. Staðurinn var ekki vel valinn, nálægt fjölmennum kaupstað; menn voru hvikulli en skyldi. Íbúar þorpsins kvörtuðu og vildu leggja hælið niður. Norska ríkið tók síðan hælið í sínar hendur 1920, og 1930 voru hælin sett í fastar skorður, innleidd vinnuskylda og strangar reglur á flestum sviðum, og varð það til þess, að þessi hæli eða „kursted“ urðu til mikils gagns.

Hv. form. allshn. drap á, að eina úrræðið með drykkjumenn væri að koma þeim á Klepp. Þetta hefir stundum orðið að gagni, og hefði getað orðið að góðu gagni, ef þeir hefðu mátt vera þar lengri tíma. En Kleppur er ekki drykkjumannahæli; það eru aðrir, sem eiga þar forgangsrétt, og því verður tíminn of stuttur vegna plássleysis. Næsta ráðið, sem gripið hefir verið til, er að setja þessa menn í hegningarhúsið. Þar hafa þeir verið 1—2 nætur, eða 3—4, en þetta er auðvitað engin lausn, og gerir oft illt verra. Þeir þrjózkast og verða reiðir yfir meðferðinni, og halda á fram eftir sem áður. Í þriðja lagi hefir verið gripið til þess örþrifaráðs að setja þessa menn á vinnuhæli, án dóms og laga. Drykkjumenn eru ekki sama og glæpamenn, en þetta hefir verið gert af því að þjóðin á ekki til stofnun handa þeim, er taki þá að sér og hjálpi þeim. Það, sem sérstök áherzla er lögð á með norsku hælin, eins og kemur fram í bréfi, sem formaður eins þeirra hefir sent barnaverndarráði Íslands, er, að hælin séu afskekkt, ekki nálægt kaupstað, hafi landrými til ræktunar og hægt sé að halda þar skepnur. En sérstaklega tekur forstöðumaðurinn það fram, að ef þessi hjálp við drykkjumenn eigi að koma að gagni, þá verði að sjá þeim fyrir vinnu og aftur vinnu, auk fullkomnustu reglu á heimilunum. Auk þess segir forstöðumaðurinn, að verði að vera, þegar byrjað er á slíkri starfsemi, friður fyrir óviðkomandi mönnum, ekki of miklar heimsóknir, meðan verið er að komast yfir þessa hörðu freistingarbaráttu.

Menntaþjóðirnar í kringum okkur hafa þannig komizt að þeirri niðurstöðu, að ráðið sé að reisa lækningabæli fyrir þá menn, sem illa eru komnir at völdum drykkjuskapar, og er sjálfsagt hér að gera slíkt hið sama.

Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa fá orð úr bréfi forstöðumanns drykkjumannahælisins norska. Þar segir svo m. a.: „Flestir eru sjúklingarnir (þ. e. drykkjumennirnir), sem hingað koma, mjög aumlega á sig komnir, og verða helzt, a. m. k. um tíma, að hafa hreyfingu úti við, — vinnu að útivinnu. Þar að auki eru margir þeirra vanir útivinnu og mega helzt ekki án hennar vera.“ Því að eftir að lögin um bindindisnefndirnar gengu í gildi 1. júlí 1933, var oft sótt um upptöku fyrir verkamenn á þessi hæli; þeir máttu ekki við því, að setjast í helgan stein. Og enn segir í bréfinu: „Án vinnunnar væri hælisvistin gagnslaus, eftir reynslu okkar hér, á andstöðu hinna mörgu erfiðu sjúklinga, sem leita hingað á Örjehæli“, en það er eina hælið í Noregi, sem ríkið rekur fyrir „fríviljuga sjúklinga“. Alstaðar í skýrslum, frá öllum þjóðum, eru þessir menn kallaðir sjúklingar, er þurfa lækningar við. Það er ekki hugsað um að hegna þeim fyrir brot, sem þeir hafi framið, heldur reisa þá á fætur. Hér er aðalatriðið, að sjúklingarnir nái andlegri heilbrigði, og til þess er fyrsta skilyrðið að glæða hjá þeim vinnugleði og skyldurækni.

Ég legg mikla áherzlu á, eins og ég sagði áðan, að vel sé athuguð öll landfræðileg aðstaða, svo sem gæði jarðarinnar, samgöngur o. fl. Einnig legg ég ríka áherzlu á, að slík stofnun sé ekki sett of nærri kaupstað.

Það er rétt, sem hæstv. dómsmrh. minntist á, að þessi starfsemi hefir eflzt mjög í Danmörku á síðustu árum, einkum eftir að „Blái krossinn“ hóf þar starfsemi sína. Einnig fór þá ríkisstj. að veita málinu stuðning. Ég skal geta þess til fróðleiks, að „Blái krossinn“, sem nú starfar á Norðurlöndum, er upprunninn frá Genúa, eins og „Rauði krossinn“. Hélt hann 40 ára starfsafmæli síðastl. vetur.

Lækning þessara sjúklinga er í raun og veru tvennskonar: andleg og líkamleg. Er hún framkvæmd á ýmsan hátt, en einkum er lögð rækt við andlegu hliðina. Reynslan hefir sýnt, að takist að endurreisa þeirra innri mann, er tiltölulega auðvelt að lækna þann ytri. Þá hefir reynslan einnig sýnt, að dvalartími á hælunum má ekki minni vera en eitt ár, svo hægt sé að ætlast til, að þessir menn nái nokkurnveginn fullri heilbrigði. Getum við þá séð, hvaða gagn muni vera að því að senda drykkjumenn til 2—3 mánaða dvalar að Kleppi, þegar reynslan hefir sýnt, að tíminn má alls ekki vera styttri en eitt ár.

Ég hefi séð vottorð frá mörgum mönnum, sem dvalið hafa á þessum stofnunum. Hafa margir þeirra, sem áður voru yfirfallnir drykkjumenn, orðið heilbrigðir og reglusamir menn. Er gleðilegt að vita, hvað nágrannaþjóðirnar gera til þess að koma drykkjumönnunum á réttan kjöl. Ég ætla svo að ljúka máli mínu með því að láta í ljós ósk mína um, að þáltill. verði samþ. og hæstv ríkisstj. hrindi málinu sem lengst áleiðis.